Janna Jihad er 15 ára gömul og býr á Vesturbakkanum, sem er hernuminn af Ísrael. Lífið þar er langt frá því að vera venjulegt vegna kerfisbundinnar mismununar. Janna vill aðeins eiga venjulega barnæsku.
„Eins og hvert annað barn vil ég geta spilað fótbolta með vinum mínum án þess að táragasbrúsum rigni yfir okkur,“ segir hún.
Janna var sjö ára þegar ísraelski herinn myrti frænda hennar. Í kjölfarið ákvað hún að nota síma móður sinnar til að taka upp og sýna heiminum grimmilega mismunun sem samfélag hennar þarf að þola af hálfu ísraelska hersins.
Janna var meðal þeirra allra yngstu til að fá fréttamannapassa, aðeins 13 ára gömul. Hún hefur fjallað um þá kúgun sem Palestínubúar hafa mátt þola af hálfu ísraelska hersins, kúgun sem hefur oft verið banvæn. Hún hefur meðal annars fjallað um skyndiárásir að næturlagi, niðurrif heimila og skóla ásamt eyðileggingu samfélaga sem barist hafa fyrir réttindum sínum.
Palestínsk börn þjást sérstaklega. Mörg þeirra hafa verið myrt eða særð af hálfu ísraelska hersins. Ísrael hefur skrifað undir Barnasáttmálann en þrátt fyrir það hafa ísraelsk stjórnvöld ekki verndað palestínsk börn á Vesturbakkanum. Ísraelsk börn njóta aftur á móti verndar, jafnvel þau sem búa á ólöglegum landtökusvæðum nálægt heimaslóðum Jönnu.
Janna hefur verið áreitt og fengið líflátshótanir fyrir það að stunda heiðarlega fréttamennsku. Hún gefst þó ekki upp.
„Ég vil vita hvernig það er að búa við frelsi í heimalandi mínu og hvernig það er að búa við réttlæti, frið og jafnrétti án kerfisbundinnar mismununar,“ segir hún. Styðjum hana í þeirri baráttu.
Krefstu þess að ísraelsk stjórnvöld veiti Jönnu vernd fyrir mismunun og ofbeldi.