Berst fyrir umhverfisvernd og réttindum bænda

Hótað lífláti fyrir að vernda Amazonsvæðið

Jani Silva fæddist í hjarta Amazon­svæð­isins í Kólumbíu og hefur helgað líf sitt verndun skóga og land­svæða sem eru lífæð alls mann­kyns.

Allt frá 16 ára aldri hefur hún staðið með smábændum í Putumayo, svæði í suður­hluta landsins þar sem líffræði­legur fjöl­breyti­leiki er meiri en víðast annars staðar.

Jani er meðstofn­andi samtaka sem stofnuð voru árið 2008 og berjast fyrir sjálf­bærri þróun á Amazon­svæðinu. Hún berst fyrir verndun umhverf­isins og rétt­indum smábænda er búa á frið­lýstu land­svæði í Putumayo.

Vegna vinnu sinnar komst Jani upp á kant við forsvars­menn olíu­fyr­ir­tæk­isins Ecopetrol sem fékk leyfi árið 2006 til að starfa á svæðum sem skör­uðust við friðlandið í Putumayo. Árið 2009 var leyf­is­veit­ingin flutt yfir til olíu­fyr­ir­tæk­isins Amer­isur. Frá þeim tíma hafa átt sér stað tveir olíulekar sem mengað hafa vatnsból sem nærsam­fé­lagið reiðir sig á.

Barátta Jani fyrir land­svæðið hefur haft skelfi­legar afleið­ingar fyrir hana. Henni hefur verið veitt eftirför, ógnað af óþekktum árás­ar­mönnum og hótað lífláti. Kórónu­veirufar­ald­urinn hefur gert ástandið enn verra þar sem aðgerða­sinnar, eins og aðrir, eru margir hverjir inni­lok­aðir á heim­ilum sínum og njóta takmark­aðrar verndar.

Jani lætur engu að síður engan bilbug á sér finna. „Af því að ég ver land­svæði mitt hefur byssu verið miðað á mig og mér hótað lífláti,“ segir Jani. „Engu að síður fer ég hvergi … við getum ekki hlaupið í burtu eða látið stjórnast af ótta.“

Krefstu þess að hún njóti verndar!

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Kína

Fangelsuð vegna fréttaumfjöllunar um kórónuveiruna

Zhang Zhan skýrði frá útbreiðslu kórónuveirunnar í Wuhan-borg. Hún greindi frá því á samfélagsmiðlum að yfirvöld hefðu tekið til fanga óháða blaðamenn og áreitt fjölskyldur smitaðra einstaklinga. Hún var síðar tekin til fanga og dæmd í fjögurra ára fangelsi.

Palestína

Hótað lífláti fyrir að afhjúpa ofbeldi ísraelska hersins

Janna Jihad er 15 ára gömul og býr á Vesturbakkanum, sem er hernuminn af Ísrael. Hún var aðeins sjö ára þegar hún hóf að taka upp á símann sinn mannréttindabrot ísraelska hersins. Janna hefur verið áreitt og henni hótað lífláti.

Nígería

Læstur í neðanjarðarklefa fyrir mótmæli

Imoleayo Michael studdi mótmæli á samfélagsmiðlum gegn sérsveitinni SARS sem er alræmd fyrir ofbeldi. Í kjölfarið var hann læstur í neðanjarðarklefa í 41 dag. Hann stendur frammi fyrir fölskum ákærum og margra ára fangelsisvist.

Úkraína

Ráðist á baráttufólk fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks

Frjálsu félagasamtökin Sphere hafa barist fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks frá árinu 2006. Á undanförnum árum hafa ofbeldisfullir andstöðuhópar gegn hinsegin fólki skipulagt tugi árása á starfs- og stuðningsfólk Sphere en enginn sætir ábyrgð.

Erítrea

Sætti þvinguðu mannshvarfi 15 ára

Ciham Ali var aðeins 15 ára þegar stjórnvöld námu hana á brott í hefndaraðgerð gegn föður hennar. Níu ár eru nú liðin frá því að hún sætti þvinguðu mannshvarfi. Enginn veit hvar hún er í haldi.

Mexíkó

Skotin á mótmælum gegn ofbeldi á konum

Wendy Galarza berst fyrir réttlátara samfélagi fyrir konur í heimalandi sínu. Þær sæta oft árásum, eru niðurlægðar og myrtar. Hún týndi næstum lífi sínu við að fordæma ofbeldið.

Taíland

Stendur frammi fyrir lífstíðardómi vegna friðsamlegra mótmæla

Panusaya, kölluð Rung, kallar eftir jafnrétti og tjáningarfrelsi. Í mars 2021 var hún fangelsuð í 60 daga á grundvelli laga sem banna gagnrýni á konungsríkið. Nú stendur hún frammi fyrir fjölda ákæra og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Hvíta-Rússland

Unglingur barinn, gefið raflost og fangelsaður

Mikita Zalatarou, sem er flogaveikur, var 16 ára þegar hann var handtekinn og ásakaður um að kasta bensínsprengju í átt að óeirðalögreglu. Hann var í kjölfarið fangelsaður, pyndaður og dæmdur í fimm ára fangelsi.