Jani Silva fæddist í hjarta Amazonsvæðisins í Kólumbíu og hefur helgað líf sitt verndun skóga og landsvæða sem eru lífæð alls mannkyns.
Allt frá 16 ára aldri hefur hún staðið með smábændum í Putumayo, svæði í suðurhluta landsins þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki er meiri en víðast annars staðar.
Jani er meðstofnandi samtaka sem stofnuð voru árið 2008 og berjast fyrir sjálfbærri þróun á Amazonsvæðinu. Hún berst fyrir verndun umhverfisins og réttindum smábænda er búa á friðlýstu landsvæði í Putumayo.
Vegna vinnu sinnar komst Jani upp á kant við forsvarsmenn olíufyrirtækisins Ecopetrol sem fékk leyfi árið 2006 til að starfa á svæðum sem sköruðust við friðlandið í Putumayo. Árið 2009 var leyfisveitingin flutt yfir til olíufyrirtækisins Amerisur. Frá þeim tíma hafa átt sér stað tveir olíulekar sem mengað hafa vatnsból sem nærsamfélagið reiðir sig á.
Barátta Jani fyrir landsvæðið hefur haft skelfilegar afleiðingar fyrir hana. Henni hefur verið veitt eftirför, ógnað af óþekktum árásarmönnum og hótað lífláti. Kórónuveirufaraldurinn hefur gert ástandið enn verra þar sem aðgerðasinnar, eins og aðrir, eru margir hverjir innilokaðir á heimilum sínum og njóta takmarkaðrar verndar.
Jani lætur engu að síður engan bilbug á sér finna. „Af því að ég ver landsvæði mitt hefur byssu verið miðað á mig og mér hótað lífláti,“ segir Jani. „Engu að síður fer ég hvergi … við getum ekki hlaupið í burtu eða látið stjórnast af ótta.“
Krefstu þess að hún njóti verndar!