Tónlist og önnur list hefur verið stór hluti af lífi Aleksöndru í Rússlandi. Ein af ástríðum hennar er að spila á píanó, gítar, mandólín og flautu og oft skipulagði hún tónlistarspunakvöld fyrir þau sem vildu spila með henni.
Aleksandra Skochilenko var uggandi yfir innrásinni í Úkraínu og greip til aðgerða hinn 31. mars 2022. Hún skipti út verðmiðum í stórmarkaði í Sankti-Pétursborg og setti í staðinn upplýsingar um innrásina.
Lögregla handtók Aleksöndru snemma morguns hinn 11. apríl 2022. Hún var ákærð fyrir „opinbera miðlun vísvitandi rangra upplýsinga um beitingu herafla Rússlands“. Þetta er ný lagagrein í hegningarlögum sem rússneska ríkisstjórnin innleiddi í flýti í mars 2022 til að reyna að koma í veg fyrir að fólkið í landinu gagnrýndi innrásina í Úkraínu. Tugir einstaklinga hafa nú þegar verið handteknir fyrir þetta nýja lögbrot.
Aleksandra hefur verið í haldi síðan þá við hræðilegar aðstæður. Hún er með glútenóþol og hefur neyðst til að svelta sig að mestu þar sem hún fær ekki þann glútenlausa mat sem hún þarfnast. Aleksandra hefur einnig þurft að þola áreitni af hálfu starfsfólks og klefafélaga. Hún stendur frammi fyrir allt að tíu ára fangelsi verði hún fundin sek.
Krefstu þess að stjórnvöld í Rússlandi leysi Aleksöndru úr haldi.