Háskólanemi handtekinn

Í haldi og pyndaður fyrir aðgerðastarf bróður síns

 Oqba Hashad, 27 ára, var við nám í háskóla í borg­inni Sadat, norð­vestur af Kaíró, höfuð­borg Egypta­lands, þegar líf hans breyttist 20. maí 2019. Full­trúar þjóðarör­ygg­is­stofn­un­ar­innar gerðu að því er virtist tilvilj­un­ar­kennt áhlaup á heima­vist Oqba og hand­tóku alla nemendur á svæðinu, þar á meðal Oqba. Nokkrum dögum síðar voru allir nemend­urnir leystir úr haldi nema hann. Full­trúar stofn­un­ar­innar áttuðu sig á því að hann væri bróðir Amrs Hashads, baráttu­manns fyrir mann­rétt­indum, sem hafði flúið Egypta­land fyrr á árinu en haldið áfram að tala um mann­rétt­inda­brot í landinu í útlegð sinni.

Í 77 daga hafði fjöl­skylda Oqba enga hugmynd um hvar hann væri og óttaðist um öryggi hans. Á þessum tíma sætti Oqba pynd­ingum, meðal annars fékk hann rafstuð í kynfæri og í hægri fótstúf á þeim stað sem hann hafði verið afli­maður í kjölfar slyss á barns­aldri.

Í ágúst 2022 eyði­lagðist gervi­fótur hans sem hann þarfnast til að hreyfa sig að vild. Í 16 mánuði neituðu yfir­völd honum um nýjan fót og því þurfti Oqba að treysta á aðra fanga við daglegar athafnir. Hann fékk loks í janúar 2024 nýjan gervifót, sem aftur á móti passar ekki og veldur sárum við notkun. Honum hefur einnig verið neitað um lyf til að hlúa að fótstúfnum, sem eykur hættu á sýkingu.

Dómari fyrir­skipaði 20. febrúar 2024 að leysa yrði Oqba úr haldi þar sem honum hafði verið haldið lengur en þau tvö ár sem lög í Egyptalandi leyfa fyrir gæslu­varð­hald. Til að komast fram hjá þessu hóf saksóknari nýtt uppspunnið mál gegn honum til að rétt­læta áfram­hald­andi varð­hald.

Oqba er í haldi eingöngu vegna mann­rétt­ind­a­starfs bróður síns. Honum er neitað um viðeig­andi lækn­is­með­ferð og jafnvel rúm til að sofa í. Andlegri og líkam­legri heilsu Oqba hrakar hratt.

Krefstu þess að stjórn­völd í Egyptalandi leysi Oqba Hashad úr haldi.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi