Oqba Hashad, 27 ára, var við nám í háskóla í borginni Sadat, norðvestur af Kaíró, höfuðborg Egyptalands, þegar líf hans breyttist 20. maí 2019. Fulltrúar þjóðaröryggisstofnunarinnar gerðu að því er virtist tilviljunarkennt áhlaup á heimavist Oqba og handtóku alla nemendur á svæðinu, þar á meðal Oqba. Nokkrum dögum síðar voru allir nemendurnir leystir úr haldi nema hann. Fulltrúar stofnunarinnar áttuðu sig á því að hann væri bróðir Amrs Hashads, baráttumanns fyrir mannréttindum, sem hafði flúið Egyptaland fyrr á árinu en haldið áfram að tala um mannréttindabrot í landinu í útlegð sinni.
Í 77 daga hafði fjölskylda Oqba enga hugmynd um hvar hann væri og óttaðist um öryggi hans. Á þessum tíma sætti Oqba pyndingum, meðal annars fékk hann rafstuð í kynfæri og í hægri fótstúf á þeim stað sem hann hafði verið aflimaður í kjölfar slyss á barnsaldri.
Í ágúst 2022 eyðilagðist gervifótur hans sem hann þarfnast til að hreyfa sig að vild. Í 16 mánuði neituðu yfirvöld honum um nýjan fót og því þurfti Oqba að treysta á aðra fanga við daglegar athafnir. Hann fékk loks í janúar 2024 nýjan gervifót, sem aftur á móti passar ekki og veldur sárum við notkun. Honum hefur einnig verið neitað um lyf til að hlúa að fótstúfnum, sem eykur hættu á sýkingu.
Dómari fyrirskipaði 20. febrúar 2024 að leysa yrði Oqba úr haldi þar sem honum hafði verið haldið lengur en þau tvö ár sem lög í Egyptalandi leyfa fyrir gæsluvarðhald. Til að komast fram hjá þessu hóf saksóknari nýtt uppspunnið mál gegn honum til að réttlæta áframhaldandi varðhald.
Oqba er í haldi eingöngu vegna mannréttindastarfs bróður síns. Honum er neitað um viðeigandi læknismeðferð og jafnvel rúm til að sofa í. Andlegri og líkamlegri heilsu Oqba hrakar hratt.
Krefstu þess að stjórnvöld í Egyptalandi leysi Oqba Hashad úr haldi.