Vinkonur sæta illri meðferð

Mannrán, barsmíðar, kynferðisofbeldi og fangelsisvist fyrir að mótmæla

Cecillia Chim­biri, Joanah Mamombe og Netsai Marova eru þrjár konur frá Simbabve sem eiga margt sameig­in­legt. Þeim finnst gaman að spila, horfa á sjón­varp og þær brenna fyrir stjórn­málum. Því miður deila þær einnig sömu minn­ingu um hrotta­lega árás.

Í kjölfar þess að þær leiddu mótmæli gegn stjórn­völdum hinn 13. maí 2020 voru Cecillia, Joanah og Netsai hand­teknar að geðþótta í Harare. Þær voru færðar á lögreglu­stöð þar sem þær voru þving­aðar inn í ómerktan bíl. Keyrt var með þær út fyrir borgina með poka yfir höfuðið. Þær óttuðust um líf sitt. Þeim var hent ofan í gryfju, þær voru barðar, beittar kynferð­isof­beldi og neyddar til að borða mannasaur. Þær fundust tveimur dögum síðar langt fyrir utan Harare. Föt þeirra voru rifin og þær voru með sár og marbletti um allan líkamann. Farið var með Cecilliu, Joanah og Netsai á sjúkrahús. Þær lágu þar enn inni þegar þær voru ákærðar fyrir brot sem tengdust mótmælum.

Fanga­vörðum og lögreglu­þjónum var komið fyrir á sjúkra­húsinu til að koma í veg fyrir að þær ræddu við fjöl­miðla­fólk. Í kjölfar þess að konurnar sögðust þekkja suma árás­ar­mennina voru þær hand­teknar á ný hinn 10. júní 2020 og ákærðar fyrir svið­setn­ingu mann­ráns. Þær voru í haldi til 26. júní 2020 þegar þær fengu lausn gegn trygg­ingu. Rétt­ar­höld yfir Cecilliu, Joanah og Netsai hófust í janúar 2022 og standa enn yfir. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar fyrir þennan hrotta­lega verknað.

Krefstu rétt­lætis fyrir Cecilliu, Joanah og Netsai.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Frakkland

Lögregla drepur áttræða konu með táragassprengju

Hin áttaíu ára gamla Zineb dó vegna gáleysis lögreglu við beitingu táragassprengju á mótmælum. Hún ætlaði að loka glugga á heimili sínu þegar táragassprengja hæfði hana í andlitið. Tæpum fjórum árum síðar hefur enn enginn verið ákærður.

Rússland

Í haldi fyrir að mótmæla innrás Rússlands í Úkraínu

Aleksandra setti upplýsingar á verðmiða í stórmarkaði um innrás Rússlands í Úkraínu. Hún situr nú í fangelsi í Rússlandi þar sem aðstæður eru hræðilegar og á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi verði hún fundin sek.

Kamerún

Fangelsuð fyrir sín fyrstu mótmæli

Dorgelesse, einstæð móðir og hárgreiðslukona, var handtekin þegar hún tók þátt í friðsamlegum mótmælum þar sem hún krafðist betri framtíðar. Hún hefur verið í haldi frá september 2020. Hún hlaut fimm ára fangelsisdóm í herrétti.

Paragvæ

Mótmæla mismunun trans fólks

Yren og Mariana þurfa að berjast gegn mismunun sem trans konur. Þær geta ekki fengið skilríki í samræmi við kynvitund sína. Yren og Mariana krefjast þess að fá lagalega viðurkenningu á því hverjar þær eru.

Marokkó

20 ára fangelsisvist fyrir að krefjast breytinga

Mannréttindafrömuðurinn Nasser Zefzafi afplánar 20 ára fangelsisdóm fyrir friðsamleg mótmæli. Hann hefur sætt pyndingum og illri meðferð og heilsu hans hefur hrakað við hræðilegar aðstæður í fangelsinu.

Kúba

Listamaður í fangelsi fyrir að verja tjáningarfrelsið

Listamaðurinn Luis Manuel birti myndband á netinu í júli 2021 þar sem hann sagðist ætla að taka þátt í mótmælum í Havana. Hann var handtekinn áður en mótmælin fóru fram og dæmdur í fimm ára fangavist.

Íran

Pyndaður og ranglega fangelsaður fyrir að mótmæla

Vahid og tveir bræður hans voru handteknir árið 2018 fyrir þátttöku í friðsamlegum mótmælum gegn ójafnrétti og pólitískri kúgun. Vahid hefur sætt pyndingum og verið í einangrun frá september 2020.