Mannréttindafrömuður sætti þvinguðu mannshvarfi

Numinn á brott fyrir að fletta ofan af mannshvörfum

Idris Khattak er margt til lista lagt, hann talar rúss­nesku, er mikill lestr­ar­hestur og ræktar kjúk­linga. Hann er „áhuga­samur en hræði­legur kokkur,“ segir dóttir Idris um föður sinn.

Idris er einnig sérfræð­ingur um þvinguð manns­hvörf í Pakistan. Hann hefur um árabil skráð þvinguð manns­hvörf, sem eru glæpur samkvæmt alþjóða­lögum, fyrir Amnesty Internati­onal og Human Rights Watch. Það er kald­hæðni örlag­anna að Idris er sjálfur orðinn enn eitt tilfellið.

Idris var á leið heim til sín í höfuð­borg­inni Islamabad þann 13. nóvember 2019 þegar bíla­leigu­bíll hans var stöðv­aður. Ekki hefur sést til hans síðan þá. Yfir­völd í Pakistan beita þving­uðum manns­hvörfum til að þagga niður í mann­rétt­inda­fröm­uðum eins og Idris og öðrum gagn­rýn­endum.

Talia, tvítug dóttir Idris, hefur barist fyrir því að fá föður sinn aftur heim með aðstoð Amnesty Internati­onal þrátt fyrir aðvar­anir. Hugrekki hennar átti stóran þátt í því að yfir­völd viður­kenndu í júní 2020 að Idris væri í haldi þeirra og að hann yrði ákærður. Þau hafa enn ekki gefið upp hvar hann er í haldi. Fjöl­skylda Idris óttast að hann verði ákærður fyrir njósnir. Ef hann verður sakfelldur á hann á hættu 14 ára fang­elsi eða jafnvel dauðadóm.

„Ég skoða myndir af pabba og á mér þann eina draum að sjá hann koma aftur heim og sameinast okkur á ný,“ segir Talia. „Við eigum skilið að fá svör og hann á skilið laga­vernd.“

Krefstu þess að stjórn­völd í Pakistan leysi Idris tafar­laust úr haldi.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Kína

Fangelsuð vegna fréttaumfjöllunar um kórónuveiruna

Zhang Zhan skýrði frá útbreiðslu kórónuveirunnar í Wuhan-borg. Hún greindi frá því á samfélagsmiðlum að yfirvöld hefðu tekið til fanga óháða blaðamenn og áreitt fjölskyldur smitaðra einstaklinga. Hún var síðar tekin til fanga og dæmd í fjögurra ára fangelsi.

Palestína

Hótað lífláti fyrir að afhjúpa ofbeldi ísraelska hersins

Janna Jihad er 15 ára gömul og býr á Vesturbakkanum, sem er hernuminn af Ísrael. Hún var aðeins sjö ára þegar hún hóf að taka upp á símann sinn mannréttindabrot ísraelska hersins. Janna hefur verið áreitt og henni hótað lífláti.

Nígería

Læstur í neðanjarðarklefa fyrir mótmæli

Imoleayo Michael studdi mótmæli á samfélagsmiðlum gegn sérsveitinni SARS sem er alræmd fyrir ofbeldi. Í kjölfarið var hann læstur í neðanjarðarklefa í 41 dag. Hann stendur frammi fyrir fölskum ákærum og margra ára fangelsisvist.

Úkraína

Ráðist á baráttufólk fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks

Frjálsu félagasamtökin Sphere hafa barist fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks frá árinu 2006. Á undanförnum árum hafa ofbeldisfullir andstöðuhópar gegn hinsegin fólki skipulagt tugi árása á starfs- og stuðningsfólk Sphere en enginn sætir ábyrgð.

Erítrea

Sætti þvinguðu mannshvarfi 15 ára

Ciham Ali var aðeins 15 ára þegar stjórnvöld námu hana á brott í hefndaraðgerð gegn föður hennar. Níu ár eru nú liðin frá því að hún sætti þvinguðu mannshvarfi. Enginn veit hvar hún er í haldi.

Mexíkó

Skotin á mótmælum gegn ofbeldi á konum

Wendy Galarza berst fyrir réttlátara samfélagi fyrir konur í heimalandi sínu. Þær sæta oft árásum, eru niðurlægðar og myrtar. Hún týndi næstum lífi sínu við að fordæma ofbeldið.

Taíland

Stendur frammi fyrir lífstíðardómi vegna friðsamlegra mótmæla

Panusaya, kölluð Rung, kallar eftir jafnrétti og tjáningarfrelsi. Í mars 2021 var hún fangelsuð í 60 daga á grundvelli laga sem banna gagnrýni á konungsríkið. Nú stendur hún frammi fyrir fjölda ákæra og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Hvíta-Rússland

Unglingur barinn, gefið raflost og fangelsaður

Mikita Zalatarou, sem er flogaveikur, var 16 ára þegar hann var handtekinn og ásakaður um að kasta bensínsprengju í átt að óeirðalögreglu. Hann var í kjölfarið fangelsaður, pyndaður og dæmdur í fimm ára fangelsi.