Mannréttindafrömuður sætti þvinguðu mannshvarfi

Numinn á brott fyrir að fletta ofan af mannshvörfum

Idris Khattak er margt til lista lagt, hann talar rúss­nesku, er mikill lestr­ar­hestur og ræktar kjúk­linga. Hann er „áhuga­samur en hræði­legur kokkur,“ segir dóttir Idris um föður sinn.

Idris er einnig sérfræð­ingur um þvinguð manns­hvörf í Pakistan. Hann hefur um árabil skráð þvinguð manns­hvörf, sem eru glæpur samkvæmt alþjóða­lögum, fyrir Amnesty Internati­onal og Human Rights Watch. Það er kald­hæðni örlag­anna að Idris er sjálfur orðinn enn eitt tilfellið.

Idris var á leið heim til sín í höfuð­borg­inni Islamabad þann 13. nóvember 2019 þegar bíla­leigu­bíll hans var stöðv­aður. Ekki hefur sést til hans síðan þá. Yfir­völd í Pakistan beita þving­uðum manns­hvörfum til að þagga niður í mann­rétt­inda­fröm­uðum eins og Idris og öðrum gagn­rýn­endum.

Talia, tvítug dóttir Idris, hefur barist fyrir því að fá föður sinn aftur heim með aðstoð Amnesty Internati­onal þrátt fyrir aðvar­anir. Hugrekki hennar átti stóran þátt í því að yfir­völd viður­kenndu í júní 2020 að Idris væri í haldi þeirra og að hann yrði ákærður. Þau hafa enn ekki gefið upp hvar hann er í haldi. Fjöl­skylda Idris óttast að hann verði ákærður fyrir njósnir. Ef hann verður sakfelldur á hann á hættu 14 ára fang­elsi eða jafnvel dauðadóm.

„Ég skoða myndir af pabba og á mér þann eina draum að sjá hann koma aftur heim og sameinast okkur á ný,“ segir Talia. „Við eigum skilið að fá svör og hann á skilið laga­vernd.“

Krefstu þess að stjórn­völd í Pakistan leysi Idris tafar­laust úr haldi.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Angóla

TikTok-stjarna fangelsuð fyrir að gagnrýna forsetann

Ana da Silva Miguel, þekkt undir nafninu Neth Nahara, er söngkona og áhrifavaldur á samfélagsmiðlum. Í ágúst 2023 gagnrýndi hún forseta landsins, João Lourenço, á TikTok. Næsta dag var Neth handtekin. Í kjölfarið var réttað yfir henni, hún sakfelld og dæmd í sex mánaða fangelsi en dómurinn var síðar lengdur í tvö ár. Yfirvöld í Angóla beita umdeildum lögum sem gera það refsivert að gagnrýna forsetann í þeim tilgangi að þagga niður í gagnrýnisröddum.

Víetnam

Í fangelsi fyrir að vernda umhverfið og mannréttindi

Umhverfismálalögfræðingurinn Dang Dinh Bach hefur helgað líf sitt verndun fólksins í Víetnam gegn áhrifum mengunar og loftslagsbreytinga. Bach var handtekinn 24. júní 2021 og færður í fangelsi fyrir meint skattsvik, aðferð sem víetnömsk yfirvöld beita til að þagga niður í umhverfisaðgerðasinnum. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki.