Mannréttindafrömuður í Egyptalandi

Numinn brott á götu og hvarf

Ibrahim Ezz El-Din er 26 ára gamall og rann­sakar mann­rétt­inda­brot í Kaíró í Egyptalandi. Starfið skiptir Ibrahim miklu máli en hann rann­sakar og greinir frá aðgengi fólks að öruggu húsnæði á viðráð­an­legu verði.

Utan vinnu­tíma hefur hann unun af að fást við teikn­ingu en áhugi hans beinist einnig að hönnun. Ibrahim er jafn­framt mikill knatt­spyrnu­áhuga­maður og fylgist vel með gengi heima­manna, Zamalek fótboltaliðsins.

Að kvöldi dags þann 11. júní 2019 var Ibrahim á gangi heim­leiðis þegar fjórir óein­kennisklæddir lögreglu­menn umkringdu hann og hand­tóku. Þegar móðir hans uppgötvaði hvernig var í pottinn búið hélt hún samstundis á lögreglu­stöð í nágrenninu en þegar þangað var komið full­yrti lögregla að Ibrahim væri hvorki á staðnum né í varð­haldi.

Allt frá þessu örlaga­ríka kvöldi hefur fjöl­skylda Ibra­hims reynt að komast að því hvað varð um hann. Hún hefur engin svör fengið. Ibrahim er fimmti einstak­ling­urinn sem starfar fyrir egypska nefnd um mann­rétt­indi og frelsi og hand­tekinn hefur verið á aðeins þremur árum.

Hundruð einstak­linga eins og Ibrahim hafa horfið á líkan hátt í Egyptalandi og síðan komið í ljós að þeim er haldið í fang­elsi, svo mánuðum skiptir, án rétt­ar­halda. Margir eru hand­teknir fyrir það eitt að tjá skoðun sína frið­sam­lega, gagn­rýna stjórn­völd eða verja mann­rétt­indi. Um getur verið að ræða hvern sem er, allt frá stjórn­mála- og blaða­fólki til knatt­spyrnu­áhuga­fólks.

Skrifaðu undir bréfið og krefðu egypsk stjórn­völd um að greina frá því hvar Ibrahim er og hvað kom fyrir hann.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Kína

Fangelsuð vegna fréttaumfjöllunar um kórónuveiruna

Zhang Zhan skýrði frá útbreiðslu kórónuveirunnar í Wuhan-borg. Hún greindi frá því á samfélagsmiðlum að yfirvöld hefðu tekið til fanga óháða blaðamenn og áreitt fjölskyldur smitaðra einstaklinga. Hún var síðar tekin til fanga og dæmd í fjögurra ára fangelsi.

Palestína

Hótað lífláti fyrir að afhjúpa ofbeldi ísraelska hersins

Janna Jihad er 15 ára gömul og býr á Vesturbakkanum, sem er hernuminn af Ísrael. Hún var aðeins sjö ára þegar hún hóf að taka upp á símann sinn mannréttindabrot ísraelska hersins. Janna hefur verið áreitt og henni hótað lífláti.

Nígería

Læstur í neðanjarðarklefa fyrir mótmæli

Imoleayo Michael studdi mótmæli á samfélagsmiðlum gegn sérsveitinni SARS sem er alræmd fyrir ofbeldi. Í kjölfarið var hann læstur í neðanjarðarklefa í 41 dag. Hann stendur frammi fyrir fölskum ákærum og margra ára fangelsisvist.

Úkraína

Ráðist á baráttufólk fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks

Frjálsu félagasamtökin Sphere hafa barist fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks frá árinu 2006. Á undanförnum árum hafa ofbeldisfullir andstöðuhópar gegn hinsegin fólki skipulagt tugi árása á starfs- og stuðningsfólk Sphere en enginn sætir ábyrgð.

Erítrea

Sætti þvinguðu mannshvarfi 15 ára

Ciham Ali var aðeins 15 ára þegar stjórnvöld námu hana á brott í hefndaraðgerð gegn föður hennar. Níu ár eru nú liðin frá því að hún sætti þvinguðu mannshvarfi. Enginn veit hvar hún er í haldi.

Mexíkó

Skotin á mótmælum gegn ofbeldi á konum

Wendy Galarza berst fyrir réttlátara samfélagi fyrir konur í heimalandi sínu. Þær sæta oft árásum, eru niðurlægðar og myrtar. Hún týndi næstum lífi sínu við að fordæma ofbeldið.

Taíland

Stendur frammi fyrir lífstíðardómi vegna friðsamlegra mótmæla

Panusaya, kölluð Rung, kallar eftir jafnrétti og tjáningarfrelsi. Í mars 2021 var hún fangelsuð í 60 daga á grundvelli laga sem banna gagnrýni á konungsríkið. Nú stendur hún frammi fyrir fjölda ákæra og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Hvíta-Rússland

Unglingur barinn, gefið raflost og fangelsaður

Mikita Zalatarou, sem er flogaveikur, var 16 ára þegar hann var handtekinn og ásakaður um að kasta bensínsprengju í átt að óeirðalögreglu. Hann var í kjölfarið fangelsaður, pyndaður og dæmdur í fimm ára fangelsi.