Yren Rotela og Mariana Sepúlveda frá Paragvæ vilja lifa lífi sínu frjálst og gera það sem þeim finnst gaman, eins og að spila blak, dansa og fara í leikhús. Sem trans konur þurfa Yren og Mariana að berjast gegn mismunun. Þær hafa verið áreittar, sætt líkamsárásum og þeim hefur verið neitað um að tjá sig um þá erfiðleika sem þær standa frammi fyrir í daglegu lífi.
Trans konur í Paragvæ geta ekki breytt nafni sínu lagalega eða fengið skilríki í samræmi við kynvitund sína, auk þess að sæta annarri mismunun. Trans nemendur geta þar af leiðandi ekki fengið skólaskírteini með nafninu sem þeir hafa valið sér og það gerir atvinnuleit erfiða. Þetta óréttlæti hefur verið Yren og Mariönu hvatning til að gerast aðgerðasinnar og berjast fyrir breytingum.
Að mótmæla er ekki auðvelt fyrir trans fólk í Paragvæ. Paragvæ er íhaldssamt land þar sem trans fólk ásamt öðrum innan hinsegin samfélagsins er beitt órétti og reynt að gera það ósýnilegt. Mótmæli trans hópa eru þess vegna oftast bönnuð og í einhverjum tilfellum hafa atlögur verið gerðar að kröfugöngum þeirra.
Mariana og Yren hafa í áraraðir barist fyrir því að breyta nafni sínu lagalega. Fái þær skilríki í samræmi við hverjar þær eru gæfi það til kynna að stjórnvöld viðurkenndu tilvist þeirra sem trans kvenna. Með orðum Yren:
„Ég kom í þennan heim til að sýna hver ég er en ekki að láta segja mér hver ég er.“
Krefstu þess að stjórnvöld í Paragvæ viðurkenni kynvitund trans fólks til að það geti nýtt réttindi sín.