Baráttusamtök kvenna og hinsegin fólks

Ráðist á baráttufólk fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks

Frjálsu félaga­sam­tökin Sphere hafa barist fyrir rétt­indum kvenna og hinsegin fólks frá árinu 2006. Þau eru meðal elstu samtaka á sínu sviði í Úkraínu. Samtökin, sem voru stofnuð af aðgerða­sinn­unum Önnu Sharyhinu og Viru Chernayginu, eru griðastaður fyrir konur og hinsegin fólk í Kharkiv, annarri stærstu borg Úkraínu.

Enda þótt Úkraína sé talin fram­sækn­asta landið á sviði rétt­inda­bar­áttu hinsegin fólks, á meðal ríkja fyrr­ver­andi Sovét­ríkj­anna, hafa stjórn­völd brugðist þeirri skyldu sinni að takast á við haturs­glæpi. Á sama tíma og hópum sem beina spjótum sínum gegn hinsegin fólki hefur vaxið ásmegin í landinu verður Sphere fyrir auknum árásum. Þessir hópar hafa ráðist á stuðn­ings­fólk Sphere og húsa­kynni þeirra, pissað utan í húsveggi og dreift saur á hurð­ar­húna á heimili þeirra, brotið glugga og hrópað ókvæð­isorð í áttina að þeim. Tugir árása af þessu tagi hafa átt sér stað. Anna og Vira hafa kært þessar árásir til lögreglu en enginn sætir ábyrgð.

Árið 2019 skipu­lagði Sphere fyrstu Gleði­gönguna í Kharkiv. Þrátt fyrir hótanir og ógnanir mættu hátt í 3.000 manns í gönguna. Lögreglu mistókst hins vegar að vernda þátt­tak­endur gegn ofbeldi og tók þess í stað þátt í því að hreyta fúkyrðum í þá. Anna og Vira segja að aðgerða­leysi lögreglu frammi fyrir stöð­ugum árásum valdi því að starfs- og stuðn­ings­fólk Sphere lifi í stöð­ugum ótta.

„Ég vil að árás­ar­menn okkar séu dregnir til ábyrgðar í samræmi við lög,“ segir Anna.

Taktu undir kröfuna og þrýstu á úkraínsk stjórn­völd.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Kína

Fangelsuð vegna fréttaumfjöllunar um kórónuveiruna

Zhang Zhan skýrði frá útbreiðslu kórónuveirunnar í Wuhan-borg. Hún greindi frá því á samfélagsmiðlum að yfirvöld hefðu tekið til fanga óháða blaðamenn og áreitt fjölskyldur smitaðra einstaklinga. Hún var síðar tekin til fanga og dæmd í fjögurra ára fangelsi.

Palestína

Hótað lífláti fyrir að afhjúpa ofbeldi ísraelska hersins

Janna Jihad er 15 ára gömul og býr á Vesturbakkanum, sem er hernuminn af Ísrael. Hún var aðeins sjö ára þegar hún hóf að taka upp á símann sinn mannréttindabrot ísraelska hersins. Janna hefur verið áreitt og henni hótað lífláti.

Nígería

Læstur í neðanjarðarklefa fyrir mótmæli

Imoleayo Michael studdi mótmæli á samfélagsmiðlum gegn sérsveitinni SARS sem er alræmd fyrir ofbeldi. Í kjölfarið var hann læstur í neðanjarðarklefa í 41 dag. Hann stendur frammi fyrir fölskum ákærum og margra ára fangelsisvist.

Úkraína

Ráðist á baráttufólk fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks

Frjálsu félagasamtökin Sphere hafa barist fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks frá árinu 2006. Á undanförnum árum hafa ofbeldisfullir andstöðuhópar gegn hinsegin fólki skipulagt tugi árása á starfs- og stuðningsfólk Sphere en enginn sætir ábyrgð.

Erítrea

Sætti þvinguðu mannshvarfi 15 ára

Ciham Ali var aðeins 15 ára þegar stjórnvöld námu hana á brott í hefndaraðgerð gegn föður hennar. Níu ár eru nú liðin frá því að hún sætti þvinguðu mannshvarfi. Enginn veit hvar hún er í haldi.

Mexíkó

Skotin á mótmælum gegn ofbeldi á konum

Wendy Galarza berst fyrir réttlátara samfélagi fyrir konur í heimalandi sínu. Þær sæta oft árásum, eru niðurlægðar og myrtar. Hún týndi næstum lífi sínu við að fordæma ofbeldið.

Taíland

Stendur frammi fyrir lífstíðardómi vegna friðsamlegra mótmæla

Panusaya, kölluð Rung, kallar eftir jafnrétti og tjáningarfrelsi. Í mars 2021 var hún fangelsuð í 60 daga á grundvelli laga sem banna gagnrýni á konungsríkið. Nú stendur hún frammi fyrir fjölda ákæra og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Hvíta-Rússland

Unglingur barinn, gefið raflost og fangelsaður

Mikita Zalatarou, sem er flogaveikur, var 16 ára þegar hann var handtekinn og ásakaður um að kasta bensínsprengju í átt að óeirðalögreglu. Hann var í kjölfarið fangelsaður, pyndaður og dæmdur í fimm ára fangelsi.