Nasu Abdulaziz er eins og hver annar ungur maður í Nígeríu. Hann er mikill fótboltaáhugamaður og hefur gaman af hjólreiðum. En aðstæður hans eru einnig óvenjulegar þar sem hann berst fyrir rétti sínum til heimilis.
Nasu er 23 ára og hefði átt að vera að njóta lífsins en þess í stað komu vopnaðir menn með jarðýtur fyrirvaralaust inn í hverfið hans, Otodo Gbame, í stórborginni Lagos í Nígeríu. Að tilskipun stjórnvalda voru heimili hins gamalgróna samfélags þar eyðilögð, hús voru brennd og rifin, byssuskotum hleypt af og lífsviðurværi íbúanna lagt í rúst.
Árið 2017, kvöldið áður en síðustu brottflutningarnir áttu sér stað, skutu ofbeldismenn Nasu í handlegginn. Daginn eftir réðst sérsveit Lagos enn á ný inn í samfélagið, hleypti af byssuskotum og beitti táragasi. Í ringulreiðinni flúðu íbúarnir skelfingu lostnir og sumir stukku út í nærliggjandi lón og drukknuðu. Talið er að níu manns hafi látið lífið og 15 er enn saknað.
Á endanum urðu 30 þúsund manns heimilislausir og neyddust til að búa í bátum, undir brúm eða hjá vinum og ættingjum. Nasu missti heimili sitt en hann heldur enn í vonina. Hann hefur gengið til liðs við Bandalag fátækrahverfa og óformlegra byggða í Nígeríu, fjöldahreyfingu fólks sem leggur allt í sölurnar til að tryggja réttinn til heimilis.
Skrifaðu undir bréfið og krefstu þess að stjórnvöld í Nígeríu verndi rétt Nasu til heimilis.