Reynsla Justynu Wydrzyńska af þungunarrofi án stuðnings eða aðgengis að áreiðanlegum upplýsingum veitti henni styrk til að aðstoða aðrar konur við að taka upplýstar ákvarðanir er varða kyn- og frjósemisréttindi þeirra.
Justyna er ein stofnenda pólska baráttuhópsins Abortion Dream Team. Hópurinn berst gegn fordómum gagnvart þungunarrofi og veitir konum ráðgjöf um aðgang að öruggu þungunarrofi í Póllandi þar sem löggjöf um þessi málefni er með þeim ströngustu í Evrópu.
Í febrúar 2020 komst Justyna í samband við Aniu (ekki hennar raunverulega nafn). Ania, sem var í ofbeldissambandi, var þunguð og örvæntingarfull. Hún kvaðst fremur vilja deyja en að halda meðgöngunni áfram. Justyna, sem sjálf var þolandi í ofbeldissambandi, fann sig knúna til að aðstoða. Hún sendi Aniu þungunarrofslyf en maki hinnar síðarnefndu komst yfir sendinguna og hafði samband við lögreglu sem gerði lyfið upptækt.
Í nóvember 2021 ákærði ríkissaksóknari Justynu fyrir að „aðstoða við þungunarrof“. Í mars 2023 var hún fundin sek og dæmd til átta mánaða samfélagsþjónustu. Lögmaður Justynu hefur áfrýjað dómnum. Dómurinn gegn Justynu setur hættulegt fordæmi. Án þess stuðnings og áreiðanlegrar upplýsingagjafar sem hún og aðrir aðgerðasinnar veita eru konur eins og Ania einar og eiga ekki kost á öruggu þungunarrofi. Justyna sýnir hugrekki þrátt fyrir þann fjandskap sem hún mætir og hefur þetta að segja: „Ég var knúin til að hjálpa þegar enginn annar vildi það eða gat. Fyrir mér var það augljóst, viðeigandi og réttmætt að aðstoða Aniu.“
Krefstu þess að ríkissaksóknari grípi til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að óréttlátum dómi yfir Justynu verði snúið við.