Panusaya Sithijirawattanakul, kölluð Rung sem þýðir regnbogi, er nemandi og áhugafiðluleikari sem hefur lýst sér sem „hógværri og hljóðlátri“ og var áður mjög feimin. Í dag er hún leiðandi rödd í lýðræðishreyfingu ungs fólks í Taílandi.
Rung gerðist pólitískur aðgerðasinni þegar hún stundaði nám í félagsfræði og mannfræði við háskóla í Bangkok, höfuðborg landsins. Óhrædd tók hún þátt í mótmælum til að krefjast félagslegra og pólitískra breytinga allt árið 2020. Í ágúst sama ár var hún orðin leiðtogi mótmælanna. Þúsundir fylgdust með Rung krefjast réttlætis, frelsis og réttar til tjáningar, auk þess að kalla eftir umbótum á konungsríkinu, sem er afar viðkvæmt málefni í Taílandi. Þessi fordæmislausa krafa gerði hana þjóðþekkta en á sama tíma var hún stimpluð sem vandræðaseggur í augum stjórnvalda.
Rung hélt áfram að leiða mótmælin fyrir félagslegum umbótum. Hún var sökuð um að hvetja til ófriðar og var handtekin í mars 2021 á grundvelli laga sem banna gagnrýni á konungsríkið. Hún var fangelsuð í 60 daga og smitaðist þar af Covid-19. Yfirvöld neituðu henni sex sinnum um lausn gegn tryggingu. Hún fór í 38 daga hungurverkfall og var að lokum leyst úr haldi hinn 30. apríl 2021.
Rung stendur frammi fyrir fjölda ákæra og verði hún fundin sek á hún yfir höfði sér lífstíðardóm.
„Um leið og þú stígur inn í fangelsið finnst þér eins og mennska þín sé ekki lengur heil,“ segir Rung.
Krefstu þess að stjórnvöld í Taílandi felli niður allar ákærur á hendur Rung.