Unglingur í fangelsi í Hvíta-Rússlandi

Unglingur í fangelsi þráir frelsið

Emil Ostrovko beið eftir kærustu sinni í stræt­is­vagna­skýli í útjaðri Minsk í apríl árið 2018. Þau ætluðu að verja deginum saman. Skyndi­lega birtust lögreglu­menn sem börðu Emil og hand­tóku fyrir að dreifa ólög­legum vímu­efnum. Hann var aðeins 17 ára.

Fyrr á árinu 2018 hafði Emil ráðið sig í vinnu eftir skóla sem sendill hjá netfyr­ir­tæki. Vinnu­veit­andi hans hafði tjáð honum að pakki sem hann átti að afhenda inni­héldi aðeins löglega reyktób­aks­blöndu.

Eftir að hafa setið í varð­haldi í marga mánuði hlaut Emil tíu ára fang­els­isdóm fyrir vímu­efna­við­skipti sem síðar var lækk­aður í átta ár þegar nokkrar ákærur á hendur honum voru felldar niður. Rann­sak­endur leituðu aldrei að eiganda fyrir­tæk­isins sem Emil starfaði fyrir eða nokkrum öðrum. Emil var sá eini sem var ákærður.

Emil var atorku­samur, umhyggju­samur unglingur sem naut þess að læra og passa upp á yngri systur sína, áður en hann var hand­tekinn. Nú þegar hann situr í fang­elsi hefur honum ekki verið gert kleift að ljúka grunn­skóla og áform hans um háskólanám hafa verið að engu gerð.

Emil er meðal 15.000 einstak­linga sem afplána langan fang­els­isdóm í Hvíta-Rússlandi fyrir smávægi­legt vímu­efna­brot. Þúsundir barna og ungmenna eru þeirra á meðal. Þessir einstak­lingar fá mun verri meðferð en aðrir lögbrjótar og þeir eru látnir vinna þrælk­un­ar­vinnu. Emil fékk ekki að taka með sér asmalyf og hann fékk kal við að ryðja snjó með berum höndum. Aðstæður Emils breyttust aðeins til hins betra þegar hann var fluttur í fang­elsi fyrir full­orðna en æsku hans og mögu­leikum er kastað fyrir róða.

Skrifaðu undir bréfið og krefðu stjórn­völd í Hvíta-Rússlandi um að láta Emil lausan

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Tyrkland

Ákærð fyrir að fagna réttindum hinsegin fólks

Melike Balkan og Özgür Gür hafa helgað sig baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks. Réttað er yfir þeim ásamt öðrum fyrir að mótmæla banni við gleðigöngu á háskólalóð þeirra.

Mjanmar

Fangavist fyrir að yrkja ljóð um herinn

Paing Phyo Min er meðlimur í Peacock Generation-leikhópnum. Leikhópurinn gerði grín að hernum og voru meðlimir hans handteknir í maí 2019. Paing Phyo Min var dæmdur í sex ára fangelsi.

Búrúndí

Fangelsi Í 32 ár fyrir mannréttindabaráttu

Germain Rukuku er mannréttindafrömuður og faðir þriggja drengja. Hann var dæmdur til að dúsa í fangelsi í 32 ár vegna upploginna sakargifta og meingallaðra réttarhalda.

Sádi-Arabía

Fangelsuð fyrir kvenréttindabaráttu

Nassima var handtekin í júlí 2018. Hún barðist fyrir frelsi kvenna í Sádi-Arabíu. Baráttan leiddi til þess að hún var sjálf svipt frelsi og sætti pyndingum í varðhaldi.

Kólumbía

Hótað lífláti fyrir að vernda Amazonsvæðið

Jani Silva fæddist í hjarta Amazon-svæðisins í Kólumbíu og hefur helgað líf sitt verndun skóga og sjálfbærri þróun. Fyrir vikið hefur henni verið veitt eftirför, ógnað af óþekktum árásarmönnum og hótað lífláti.

Pakistan

Numinn á brott fyrir að fletta ofan af mannshvörfum

Idris Khattak er sérfræðingur um þvinguð mannshvörf í Pakistan. Í nóvember 2019 hvarf Idris sjálfur. Yfirvöld viðurkenndu að lokum að Idris væri í haldi þeirra og að hann yrði ákærður.

Suður-Afríka

Sækja verður morðingjana til saka

Popi Qwabe og Bongeka Phungula voru skotnar til bana. Fjölskyldur þeirra leita svara en hafa orðið fyrir vonbrigðum með rannsókn lögreglunnar sem hefur ekkert miðað áfram á síðustu þremur árum.

Alsír

Tíu ára fangelsisdómur fyrir fréttamennsku

Khaled Drareni starfar sem blaðamaður í Alsír. Hann fjallaði um Hirak-mótmælahreyfinguna og komst í ónáð hjá yfirvöldum. Khaled á tíu ára fangelsisdóm yfir höfði sér.