Baráttu fyrir bættu aðgengi mætt af hörku

„Við krefjumst heims þar sem enginn er jaðarsettur“

Kyung Seok Park lamaðist fyrir neðan mitti eftir svif­dreka­flug­slys í ágúst 1983. Fyrir slysið velti hann því aldrei fyrir sér hvernig líf fatlaðs fólks væri. Hann var 22 ára, á kafi í háskóla­námi og naut þess að spila á gítar og skemmta sér með vinum sínum. Þegar Kyung Seok þurfti að takast á við daglegt líf sem fatl­aður einstak­lingur í Suður-Kóreu var það óbæri­lega erfitt, jafnvel hættu­legt. Hann gerðist í kjöl­farið aðgerðasinni.

Kyung Seok er í forsvari fyrir hreyf­inguna Samstöðu gegn mismunun vegna fötl­unar (Soli­da­rity against Disa­bility Discrim­ination SADD) sem vinnur í þágu fatlaðs fólks. Í aðgerð­a­starfi sínu hefur hann einbeitt sér að almenn­ings­sam­göngum. Hindr­anir eru á aðgengi að almenn­ings­sam­göngum og hefur fatlað fólk ekki tæki­færi til að taka þátt í samfé­laginu að fullu eins og að ferðast í og úr vinnu eða skóla og lifa sjálf­stæðu lífi. Fjöldi hjóla­stóla­not­enda í Seúl hefur særst eða jafnvel látið lífið við að nota óöruggar hjóla­stóla­lyftur á lestar- og neðanjarð­ar­lest­ar­stöðvum.

Árið 2021 hófu Kyung Seok og aðrir aðgerða­sinnar úr hreyf­ing­unni SADD að mótmæla frið­sam­lega til að krefjast aukins fjár­magns til málefna fatlaðs fólks. Hjóla­stóla­not­endur fóru samtímis í og úr neðanjarð­ar­lest á háanna­tíma. Yfir­völd í Seúl brugðust illa við, þar á meðal með ofbeldi. Mótmælin hafa verið bæld niður og lögregla hefur dregið aðgerða­sinna út af lest­ar­stöðv­unum með valdi. Stjórn­mála­fólk hefur farið í ófræg­ing­ar­her­ferð og málað fatlaða aðgerða­sinna upp sem trufl­andi fyrir almenning. Borg­ar­stjórn Seúl, höfuð­borgar Suður-Kóreu, hefur hafið mála­ferli gegn frið­sömum mótmæl­endum til að reyna að bæla mótmæli þeirra enn frekar niður.

Kyung Seok heldur áfram baráttu sinni þrátt fyrir að hafa næstum verið kyrktur af lögreglu og lest­ar­starfs­fólki á frið­sam­legum mótmælum. Hann sætir fjöl­mörgum málsóknum vegna aðgerð­a­starfs síns: „Við neitum að bíða lengur. Við krefj­umst heims þar sem enginn er jaðar­settur.“

Krefstu þess að borg­ar­stjóri Seúl í Suður-Kóreu verndi rétt­indi Kyung Seok Park.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Sádi-Arabía

Ellefu ára fangelsi fyrir að styðja réttindi kvenna

Manahel al-Otaibi er líkamsræktarkennari og hugrökk talskona fyrir réttindum kvenna í Sádi-Arabíu. Í nóvember 2022 var hún handtekin eftir að hafa birt mynd af sér á Snapchat í verslunarmiðstöð. Á myndinni klæddist hún ekki abaya, sem er hefðbundinn kufl frá toppi til táar. Manahel var dæmd í 11 ára fangelsi.

Belarús

Fangelsuð fyrir að krefjast breytinga

Maryia Kalesnikava, pólitískur aðgerðasinni, þorði að bjóða kúgunarstjórn Belarús birginn. Henni var rænt 7. september 2020 af yfirvöldum í Belarús. Mariya var flutt að landamærunum en hún kom sér undan brottvísun með því að rífa vegabréf sitt í sundur. Hún var handtekin og síðar dæmd í 11 ára fangelsi á grundvelli falskra ákæra. Fjölskylda Maryiu hefur ekki heyrt í henni í rúmt ár.

Tyrkland

Sakfelld fyrir að verja mannréttindi

Şebnem Korur Fincancı er réttarlæknir, baráttukona fyrir mannréttindum og háskólakennari sem hefur helgað líf sitt stöðvun pyndinga og verndun mannréttinda. Til að þagga niður í henni hefur hún sætt tilhæfulausum glæparannsóknum af hálfu tyrkneskra yfirvalda. Árið 2023 var hún sakfelld fyrir „að búa til áróður fyrir hryðjuverkjasamtök“ í kjölfar þess að hún kallaði eftir rannsókn á ásökunum um að tyrkneski herinn notaði efnavopn í Írak. Şebnem hefur áfrýjað dómnum en hún á yfir höfði sér tveggja ára fangelsi verði honum ekki hnekkt.

Angóla

TikTok-stjarna fangelsuð fyrir að gagnrýna forsetann

Ana da Silva Miguel, þekkt undir nafninu Neth Nahara, er söngkona og áhrifavaldur á samfélagsmiðlum. Í ágúst 2023 gagnrýndi hún forseta landsins, João Lourenço, á TikTok. Næsta dag var Neth handtekin. Í kjölfarið var réttað yfir henni, hún sakfelld og dæmd í sex mánaða fangelsi en dómurinn var síðar lengdur í tvö ár. Yfirvöld í Angóla beita umdeildum lögum sem gera það refsivert að gagnrýna forsetann í þeim tilgangi að þagga niður í gagnrýnisröddum.

Egyptaland

Í haldi og pyndaður fyrir aðgerðastarf bróður síns

Oqba Hashad er 27 ára nemandi sem hefur verið í gæsluvarðhaldi í Egyptalandi frá í maí 2019 eingöngu vegna mannréttindastarfs bróður hans Amrs. Oqba sætti þvinguðu mannshvarfi (haldið í leyni af yfirvöldum) og pyndingum. Honum hefur einnig verið neitað um gervifót sem hann hefur notað frá því að hann lenti í slysi á barnsaldri. Hann hefur því þurft að reiða sig á aðstoð annarra fanga við daglegar athafnir. Honum er haldið við hræðilegar aðstæður án aðgengis að viðunandi heilbrigðisþjónustu. Egypsk yfirvöld hófu nýtt uppspunnið mál á hendur honum í þeim eina tilgangi að réttlæta áframhaldandi varðhald.

Suður-Kórea

„Við krefjumst heims þar sem enginn er jaðarsettur“

Kyung Seok Park er einarður aðgerðasinni fyrir réttindum fatlaðs fólks í Suður-Kóreu. Með friðsamlegum mótmælum í almenningssamgöngum í höfuðborginni Seúl hefur Kyung Seok Park vakið athygli á hversu óöruggt og erfitt aðgengi er að lestum og neðanjarðarlestum fyrir fatlað fólk sem hindrar getu þess til að ferðast til vinnu og skóla og lifa sjálfstæðu lífi. Kyung Seok Park hefur sætt lögregluofbeldi, opinberri ófrægingarherferð og málsóknum fyrir aðgerðastarf sitt.

Kanada

Berjast fyrir landi forfeðra sinna

Wet’suwet’en-þjóðin hefur djúp tengsl við land forfeðra sinna. Landinu stendur nú ógn af framkvæmdum vegna gasleiðslu sem fer þar í gegn. Höfðingjar gáfu ekki leyfi fyrir þessum framkvæmdum. Baráttufólk fyrir landsréttindum hefur verið ákært fyrir að hindra aðgengi að framkvæmdasvæði gasleiðslunnar þrátt fyrir að vera á sínu landsvæði. Baráttufólkið getur átt yfir höfði sér fangelsisvist og verið sett á sakaskrá.

Argentína

Blindaður með gúmmískoti á friðsamlegum mótmælum

Joel Paredes er 29 ára gamall faðir frá Jujuy-héraði í Argentínu. Joel mætti á mótmæli 30. júní 2023 sem beindust gegn breytingum stjórnvalda í héraðinu, meðal annars takmörkunum á réttinum til að koma saman friðsamlega og ráðstöfunum sem geta valdið umhverfisskaða og brotum á landsréttindum frumbyggja. Lögregla skaut gúmmískotum á mótmælendur. Joel varð fyrir skoti sem varð til þess að hann missti sjón á hægra auga og þarf að kljást við lamandi taugaverki. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar.

Víetnam

Í fangelsi fyrir að vernda umhverfið og mannréttindi

Umhverfismálalögfræðingurinn Dang Dinh Bach hefur helgað líf sitt verndun fólksins í Víetnam gegn áhrifum mengunar og loftslagsbreytinga. Bach var handtekinn 24. júní 2021 og færður í fangelsi fyrir meint skattsvik, aðferð sem víetnömsk yfirvöld beita til að þagga niður í umhverfisaðgerðasinnum. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir glæp sem hann framdi ekki.