Kyung Seok Park lamaðist fyrir neðan mitti eftir svifdrekaflugslys í ágúst 1983. Fyrir slysið velti hann því aldrei fyrir sér hvernig líf fatlaðs fólks væri. Hann var 22 ára, á kafi í háskólanámi og naut þess að spila á gítar og skemmta sér með vinum sínum. Þegar Kyung Seok þurfti að takast á við daglegt líf sem fatlaður einstaklingur í Suður-Kóreu var það óbærilega erfitt, jafnvel hættulegt. Hann gerðist í kjölfarið aðgerðasinni.
Kyung Seok er í forsvari fyrir hreyfinguna Samstöðu gegn mismunun vegna fötlunar (Solidarity against Disability Discrimination SADD) sem vinnur í þágu fatlaðs fólks. Í aðgerðastarfi sínu hefur hann einbeitt sér að almenningssamgöngum. Hindranir eru á aðgengi að almenningssamgöngum og hefur fatlað fólk ekki tækifæri til að taka þátt í samfélaginu að fullu eins og að ferðast í og úr vinnu eða skóla og lifa sjálfstæðu lífi. Fjöldi hjólastólanotenda í Seúl hefur særst eða jafnvel látið lífið við að nota óöruggar hjólastólalyftur á lestar- og neðanjarðarlestarstöðvum.
Árið 2021 hófu Kyung Seok og aðrir aðgerðasinnar úr hreyfingunni SADD að mótmæla friðsamlega til að krefjast aukins fjármagns til málefna fatlaðs fólks. Hjólastólanotendur fóru samtímis í og úr neðanjarðarlest á háannatíma. Yfirvöld í Seúl brugðust illa við, þar á meðal með ofbeldi. Mótmælin hafa verið bæld niður og lögregla hefur dregið aðgerðasinna út af lestarstöðvunum með valdi. Stjórnmálafólk hefur farið í ófrægingarherferð og málað fatlaða aðgerðasinna upp sem truflandi fyrir almenning. Borgarstjórn Seúl, höfuðborgar Suður-Kóreu, hefur hafið málaferli gegn friðsömum mótmælendum til að reyna að bæla mótmæli þeirra enn frekar niður.
Kyung Seok heldur áfram baráttu sinni þrátt fyrir að hafa næstum verið kyrktur af lögreglu og lestarstarfsfólki á friðsamlegum mótmælum. Hann sætir fjölmörgum málsóknum vegna aðgerðastarfs síns: „Við neitum að bíða lengur. Við krefjumst heims þar sem enginn er jaðarsettur.“
Krefstu þess að borgarstjóri Seúl í Suður-Kóreu verndi réttindi Kyung Seok Park.