Amnesty International er starfrækt í 70 löndum og er Íslandsdeildin með stærri landsdeildum miðað við fólksfjölda. Íslandsdeildin hefur stækkað ört síðastliðin ár og eru stöðugildi starfsfólks nú orðin átta talsins.
Stjórn Amnesty International tekur virkan þátt í að móta starf deildarinnar. Stjórnarmeðlimir eru sjö talsins sem starfa í sjálfboðavinnu í þágu mannréttinda. Árlega er kosið inn í stjórnina til tveggja ára í senn og er öllum velkomið að bjóða fram krafta sína. Ungliðahreyfing Amnesty International er einn helsti kjarninn í aðgerðastarfi okkar víða um land. Sjö ungmenni sitja í stjórn ungliðahreyfingarinnar og eru kosin inn árlega.
Framkvæmdastjóri
Anna er með BA gráðu í mannfræði og meistaragráðu í Alþjóðasamskiptum og stjórnmálafræði. Hún hefur yfirsýn með öllum verkefnum deildarinnar, ber ábyrgð á öllu sem við hin gerum og sinnir daglegum rekstri. Að auki er hún talskona samtakanna. Hún æfir ballett og badminton, er gríðarlega mikið fyrir að fara í húsgagnaverslanir og talar spænsku. Svo kann hún víst að kafa.
Rekstrarfulltrúi
Ef þú hringir á skrifstofuna er líklegt að Anna Dóra svari. Hún er með eindæmum fjölhæf, kemur við sögu í mörgum verkefnum og sér um allar skráningar og skipulagsvinnu. Hún þýðir líka og skrifar mikið af greinum og er okkar helsti prófarkalesari. Anna Dóra er með BA í mannfræði, veit ekkert skemmtilegra en að ferðast og bjó eitt sinn í Tælandi. Hún talar og skrifar tælensku og hefur prófað teygjustökk.
Ungliða- og aðgerðastjóri
Árni er tveggja barna faðir, áhugamaður um uppeldi og umhverfismál. Hann hefur komið víða við og lærði meðal annars leikstjórn í Bretlandi. Hann starfaði á rás1 í nokkur ár og hefur kennt á öllum skólastigum landsins. Þetta kemur allt heim og saman í Amnesty þar sem hann heldur utan um hóp ungliðanna okkar og skipuleggur með þeim aðgerðir um allan bæ.
Lögfræðingur
Birna er lögfræðingur að mennt og er aðalsprautan í vinnu okkar sem snýr að stjórnvöldum og umsögnum um lög. Hún sér til þess að við förum eftir nýju persónuverndarlögunum ásamt því að koma að alls kyns verkefnum á flestum sviðum deildarinnar. Þú finnur Birnu annað hvort úti að hlaupa eða á menningarviðburðum borgarinnar.
Herferðastjóri
Ef við þurfum að vita eitthvað þá spyrjum við Bryndísi sem þekkir samtökin inn og út enda hefur hún starfað lengst af okkur hjá deildinni. Sem herferðarstýra ber hún ábyrgð á herferðum deildarinnar. Bryndís er með BA í heimspeki og meistaragráðu í mannréttindafræðum ásamt diplóma í kennslufræðum. Þú finnur Bryndísi helst í líkamsræktarstöðvum landsins enda þarf hún að brenna þessum snúðum sem hún borðar á nóttunni!
Verkefnastjóri
Rúna er hagfræðingur með meistaragráðu í alþjóðalögfræði og sjálfbærri þróun. Sem verkefnastjóri kemur hún að alls kyns verkefnum á flestum sviðum deildarinnar. Pílates og pasta eru hennar ær og kýr en Rúna hefur alið manninn á Ítalíu síðustu 10 ár. Einnig sér hún um að halda okkur öllum í fantaformi en hún leiðir vikulegar hádegisæfingar.
Fjáröflunarstjóri
Sonja er lífefnafræðingur með meistaragráðu í Alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði. Sem fjáröflunarstjóri hefur hún umsjón með allri fjáröflun samtakanna. Ef þig vantar glænýja Amnesty myndavélahulu eða vilt halda tónleika til styrktar mannréttindum, talaðu við hana. Sonja er matgæðingur fram í fingurgóma og veit fátt betra en ógerilsneydda osta og góð rauðvín með.
Fræðslustjóri
Vala (Bjarnfreðardóttir) er með fimm háskólagráður. BA í ensku, MA í Alþjóða almannatengslum og þrjár diplómur í kennslufræðum. Hún hefur lengi unnið við kennslu og fjölmiðla og er því á réttri hillu hér hjá Amnesty þar sem hún sinnir bæði kennslu og fær að útbúa kennsluefni. Vala bjó í Tyrklandi áður en hún hóf störf hjá Amnesty, þrátt fyrir það drekkur hún ekki kaffi.
Ungliða- og aðgerðastýra í leyfi
Hera er með BA gráðu í mannfræði, er villikelling og ung í anda enda stýrir hún ungliðahreyfingu Íslandsdeildarinnar ásamt öllum aðgerðum deildarinnar. Það er ekkert mál fyrir hana að búa til heimildamynd nú eða útvarpsþátt, hún lærði að gera þetta allt þegar hún náði sér í meistaragráðu í Hagnýtri menningarmiðlun. Hera er veik fyrir kaffi og súkkulaði og samhliða starfinu stundar hún nám í gyðjufræðum.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.