Mann­rétt­indi

Mann­rétt­indi eru grund­valla­rétt­indi okkar allra. Þau eru skil­greind og og vernduð samkvæmt alþjóða­lögum.

Mann­rétt­indi eru:

Algild:

Óháð því hver við erum, hvar við búum, á hvað við trúum og lífs­máta.

Óafsal­anleg:

Ekki hægt að taka þau frá nokk­urri mann­eskju.

Ódeil­anleg og samtvinnuð:

Stjórn­völd geta ekki valið hvaða rétt­indi þau virða. Þeim ber að virða þau öll. Mann­rétt­indi eru samtvinnuð og hafa áhrif hvert á annað.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna

Sameinuðu þjóð­irnar voru stofn­aðar eftir seinni heims­styrj­öldina. Mark­miðið var að koma í veg fyrir að hryll­ingur stríðsins myndi endur­taka sig og stuðla að friði með því að efla alþjóð­legt samstarf.

Eitt af fyrstu verk­efnum Sameinuðu þjóð­anna var að sameinast um grund­vall­ar­rétt­indi hverrar mann­eskju. Tímamót í sögu mann­rétt­inda urðu þegar Mann­rétt­inda­yf­ir­lýsing Sameinuðu þjóð­anna var samþykkt þann 10. desember 1948. Eleanor Roosevelt leiddi vinnuna við gerð Mann­rétt­inda­yf­ir­lýs­ingar Sameinuðu þjóð­anna og var sögð kraft­urinn á bak við hana.

Mann­rétt­inda­yf­ir­lýs­ingin er ekki laga­lega bind­andi en hefur gegnt gríð­ar­legu mikil­vægu hlut­verki sem undan­fari mann­rétt­inda­samn­inga og í þróun alþjóð­legs mann­rétt­inda­kerfis.

Í Mann­rétt­inda­yf­ir­lýs­ingu Sameinuðu þjóð­annar er gert grein fyrir 30 grund­vall­ar­rétt­indum.

Samkvæmt yfir­lýs­ing­unni er sérhver mann­eskja borin frjáls og jöfn öðrum að virð­ingu og rétt­indum. Allir einstak­lingar eiga tilkall til mann­rétt­inda án tillits til kynþáttar, litar­háttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóð­ernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

Mann­rétt­inda­yf­ir­lýsing Sameinuðu þjóð­anna er undir­staða alls mann­rétt­ind­a­starfs Amnesty Internati­onal.

Mannréttindi á Íslandi

Mann­rétt­indi á Íslandi eru til að mynda vernduð í stjórn­ar­skrá Íslands, almennum íslenskum lögum og alþjóða­samn­ingum sem Ísland hefur lögfest.

Í stjórn­ar­skrá Íslands eru nokkur grund­vall­ar­mann­rétt­indi vernduð. Má þar nefna að allir einstak­lingar eru jafnir fyrir lögum og njóta mann­rétt­inda án tillits til kynferðis, trúar­bragða, skoðana, þjóð­ern­is­upp­runa, kynþáttar, litar­háttar, efna­hags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Stjórn­ar­skráin verndar trúfrelsi einstak­linga, að þeir fái að iðka trú að eigin vali. Bann við pynd­ingum er einnig í stjórn­ar­skránni.

 

Ísland hefur skrifað undir fjölda alþjóða­samn­inga og lögfest suma þeirra. Dæmi um alþjóð­legan mann­rétt­inda­samning sem lögfestur hefur verið hér á landi er Mann­rétt­inda­sátt­máli Evrópu frá 1950 en ákvæði hans hafa gildi almennra laga.

Meðal alþjóða­samn­inga sem Ísland hefur skrifað undir eru:

  • Alþjóða­samn­ingur um borg­araleg og stjórn­mála­rétt­indi (1966)
  • Alþjóða­samn­ingur um efnhagsleg, félagsleg og menn­ing­arleg réttt­indi (1966)
  • Samn­ingur Sameinuðu þjóð­anna um rétt­indi barnsins (1989)
  • Evrópu­samn­ingur um varnir gegn pynd­ingum (1987)

Verjum mannréttindi og berjumst gegn mannréttindabrotum

Oft lítum við á mann­rétt­indi sem sjálf­sagðan hlut og stöldrum einungis við og veitum þeim athygli þegar rétt­indi okkar eru brotin.

Því miður eru mann­rétt­inda­brot algeng víða um heim. Þúsundum einstak­linga um heim allan er neitað um sann­gjörn rétt­ar­höld. Fólk er pyndað og fang­elsað vegna skoðana sinna. Börn eru neydd til að berjast í stríðs­átökum.

Það er mikil­vægt að við lítum ekki á mann­rétt­indi sem sjálf­sögð rétt­indi og enn mikil­vægara er að mann­rétt­indi séu vernduð samkvæmt alþjóða­lögum.

Leggðu mann­rétt­inda­bar­átt­unni lið. Þú getur haft áhrif.