Amnesty International er með skrifstofur í um 70 löndum en nær til rúmlega 150 landa. Íslandsdeildin er með stærri landsdeildum miðað við fólksfjölda.
Stjórn Amnesty International tekur virkan þátt í að móta starf deildarinnar. Stjórnarmeðlimir eru sjö talsins og starfa í sjálfboðavinnu í þágu mannréttinda. Stjórnarmeðlimir eru kosnir til tveggja ára í senn á árlegum aðalfundi. Öllum er velkomið að bjóða fram krafta sína.
Ungliðahreyfing Amnesty International hefur verið öflug í aðgerðastarfi deildarinnar síðastliðin ár. Ungliðar eru með sína eigin stjórn sem er kosin árlega.
Varaformaður
Albert er menntaður lögfræðingur og starfar nú á lögmannsstofunni Claudia & Partners. Áður starfaði hann sem lögfræðingur á vegum Rauða krossins á Íslandi. Albert sérhæfir sig í málum sem lúta að mannréttindum og útlendingarétti. Albert á tvær dætur og hans helstu áhugamál eru útivist.
Formaður
Eva Einarsdóttir er kynningarstjóri hjá Rannís (Rannsóknamiðstöð Íslands). Eva er með meistaragráðu í stjórnunar- og viðskiptafræði (MBA) frá Háskóla Reykjavíkur og gráðu í alþjóðlegri verkefnastjórnun og í tómstunda- og félagsmálafræði frá Gautaborg. Áður var hún meðal annars borgarfulltrúi í Reykjavík og hefur fjölbreytta reynslu af menntamálum, æskulýðs- og íþróttastarfi, af norrænu og evrópsku samstarfi, auk reynslu af kynningarstarfi, skipulagningu viðburða og vefumsjón.
Ritari
Pétur er menntaður blaðamaður og bókmenntafræðingur auk þess að hafa bætt við sig diplóma námi í stjórnmálafræði. Hann starfaði lengi í fjölmiðlum en sl. 15 ár hefur hann verið samskiptastjóri Vegagerðarinnar. Hann hefur starfað innan Amnesty mörg undanfarin ár, fyrst og fremst við söfnun undirskrifta þegar slík átök fóru að mestu fram í almenningsrýmum. Pétur hefur alla ævi haft bók um hönd og það er hans helsta áhugamál að lesa allskyns bækur. Gönguferðir eru í uppáhaldi og jafnast ekkert á við Hornstrandir þegar kemur að þeim. Hann á þrjú uppkomin börn og tvær afastelpur.
Meðstjórnandi
Harpa er mannfræðingur að mennt og er að klára meistaranám í þróunarfræði. Harpa hefur mikinn áhuga á málefnum fólks á flótta en hún hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða Krossinum í verkefnum með umsækjendum um alþjóðlega vernd. Harpa vann eitt sumar hjá Amnesty en lengst af starfaði hún sem flugfreyja meðfram námi. Hún hefur einnig lagt stund á flugnám og kann því að fljúga hvert á land sem er. Harpa á tvö ung börn sem halda henni vel upptekinni en annars unir hún sér best í sveitinni með fjölskyldunni eða að skála í freyðivín með vinkonum sínum.
Meðstjórnandi
Helena er útskrifuð leikkona frá The American Academy of Dramatic Arts. Hún er einnig tónlistarkona í dúettinum Heró. Hún hefur mikla ástríðu fyrir mannréttindum og þekkir mjög vel til Amnesty enda hefur hún verið meðlimur í Ungliðahreyfingunni í mörg ár. Hún er ein af stofnendum @samstadan sem sameinar unga aktívista á samfélagsmiðlum í ýmsum verkefnum.
Gjaldkeri
Ólöf er athafnakona með meistaragráðu í stjórnunar- og viðskiptafræðum (MBA). Hún hefur komið að rekstri fyrirtækja með fjölskyldu sinni frá árinu 1985. Fjölskyldufyrirtæki Ólafar kom t.d. með Trivial Pursuit og Pictionary spilin inn á íslenskan markað. Í dag beinir fjölskyldan sjónum sínum að golf ferðabransanum. Ólöf starfaði um árabil í tæknigeiranum og gengdi ýmsum stjórnunarstöðum á 25 ára ferli sínum hjá Nýherja/Origo.Í dag rekur Ólöf fyrirtæki sitt, PAGO hús ehf, en það veitir umhverfisvænu byggingarefni inn á íslenskan markað og rennir þannig stoðum undir vistvænni byggingar.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu