Fréttir
2. júní 2025Okkar árlega herferð Þitt nafn bjargar lífi gekk vel árið 2024 þrátt fyrir að hún hafi verið minni í umsvifum en undanfarin ár. Á Íslandi söfnuðust 49.038 undirskriftir fyrir öll málin sem var aðeins meira en í fyrra ef miðað er við fjölda mála þar sem málin í ár voru níu en ekki tíu eins og undanfarin ár. Í heildina á heimsvísu var gripið til tæplega 4,7 milljóna aðgerða í 200 löndum og næstum 380 þúsund stuðningskveðjur voru skrifaðar til þolendanna til að sýna þeim stuðning á erfiðum tímum.
Viðburðir og hlaðvarp
Viðburðir
Í ár voru nokkrir viðburðir í tengslum við herferðina líkt og áður. Aðgerðasinnar á Egilsstöðum, Akureyri og Kópaskeri stóðu fyrir undirskriftasöfnunum sem og ungliðar í Kringlunni. Í lok nóvember hafði Íslandsdeildin umsjón með hinni sívinsælu spurningakeppni Ölstofunnar, Drekktu betur, með ýmsum spurningum sem tengdust meðal annars herferðinni. Fyrir frumsýningu heimildarmyndarinnar Vonarljós um 50 ára sögu Íslandsdeildarinnar í Bíó Paradís gafst fólki tækifæri til að skrifa kveðju til fjögurra þolenda úr herferðinni undir ljúfum harmonikkutónum.
Hlaðvarp
Við fengum ítarlega umfjöllun í hlaðvarpinu Draugar fortíðar. Þátturinn fór í loftið í byrjun desember og fjallaði alfarið um Amnesty International og herferðina. Hlaðvarpið hefur notið gífurlega vinsælda hér á landi og því var það mikill heiður að þáttastjórnendur létu málstaðinn sig varða. Flosi Þorgeirsson og Baldur Ragnarsson eiga þakkir skildar fyrir vel unninn þátt sem greindi ítarlega frá hverju máli fyrir sig. Íslandsdeild Amnesty International þakkar þeim innilega fyrir sitt framlag. Hlusta má á þáttinn hér.
Þátttaka skóla
Líkt og síðastliðin ár var haldin framhaldsskólakeppni í undirskriftasöfnun í tengslum við herferðina og söfnuðust samtals 5347 undirskriftir fyrir málin níu. Í heildina fengu 22 skólar fræðsluerindi þar sem fjallað var um herferðina og skólakeppnina.
Tveir skólar báru sigur úr býtum í framhaldsskólakeppninni. Kvennaskólinn í Reykjavík safnaði flestum undirskriftum í heildina og Framhaldsskólinn á Laugum safnaði hlutfallslega flestum undirskriftum miðað við nemendafjölda. Þessir skólar hafa staðið sig einstaklega vel undanfarin ár og við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn og dugnaðinn. Báðum skólunum var afhent viðurkenningarskjal fyrir sigurinn. (mynd kvennó – með texta)
Fjórir grunnskólar fengu fræðslu um herferðina og tóku einnig þátt með því að skrifa undir aðgerðakort: Alþjóðaskólinn á Íslandi, Háteigsskóli, Hvolsskóli og Hólabrekkuskóli.
Við þökkum öllum þátttakendum skólanna innilega fyrir stuðninginn.
Árni aðgerða- og ungliðastjóri afhenti Kvennaskólanum viðurkenningu.
Afhending undirskrifta
Cynthia Anne Namugambe og Heiðrún Vala Hilmarsdóttir ungliðar Íslandsdeildarinnar héldu í kanadíska sendiráðið 14. apríl ásamt Árna Kristjánssyni aðgerða- og ungliðastjóra til að afhenda undirskriftir í máli Wet’suwet’en í Kanada.
Wet’suwet’en er frumbyggjaþjóð í Kanada og hefur baráttufólk barist fyrir því að stöðva lagningu gasleiðslu á landsvæði sínu þar sem lagningin hófst án samþykkis höfðingja og ættflokka Wet’suwet’en. Baráttufólkið hefur sætt hótunum, áreitni og lögsóknum fyrir baráttu sína.
Cynthia og Heiðrún afhentu sendiherra Kanada, Jenny Hill, þær 5376 undirskriftir sem söfnuðust til stuðnings baráttufólki Wet’suwet’en. Þær kynntu málið fyrir sendiherranum og hvöttu stjórnvöld í Kanada til að virða rétt baráttufólks Wet’suwet’en.
Undirskriftirnar fyrir hin málin átta voru sendar með pósti til yfirvalda þar sem ekki eru sendiráð frá þeim löndum á Íslandi.
Cynthia Anne Namugambe og Heiðrún Vala Hilmardóttir ungliðar Íslandsdeildarinnar afhentu kanadíska sendiráðinu undirskriftir.
Góðar fréttir
Þitt nafn bjargar lífi er stærsti alþjóðlegi og árlegi viðburður Amnesty International. Nú þegar höfum við fengið jákvæðar fréttir frá þremur málum úr herferðinni 2024.
TikTok-stjarnan Neth Nahara í Angóla var náðuð um jólin 2024 og leyst úr haldi á nýársdag. Hún hafði verið fangelsuð fyrir að gagnrýna forsetann.
„Ég er núna frjáls heima hjá mér. Ég var leyst úr haldi 1. janúar svo mig langar til að tjá Amnesty International þakklæti mitt fyrir allt sem þið gerðuð fyrir mig og til allra sem kröfðust frelsis fyrir mig. Núna er ég heima með börnunum mínum og tala við eiginmann minn og alla. Ég vil þakka ykkur öllum.“
Aðstæður umhverfismálalögfræðingsins Dang Dinh Bach hafa batnað lítillega frá því að herferðin hófst. Hann var færður yfir í klefa með meiri birtu og rými. Hann fær einnig að fara úr klefanum til að hitta aðra fanga. Líkur eru á að herferðin hafi haft þessi áhrif. Bach er í fangelsi fyrir að vernda umhverfið og mannréttindi þar sem hann var dæmdur fyrir glæp sem hann framdi ekki.
Pólitíski aðgerðasinninn Mariya Kalesnikava, sem þorði að bjóða kúgunarstjórn Belarús á birginn, fékk loksins að hitta föður sinn í nóvember 2024 eftir að hafa ekki fengið að vera í neinum samskiptum við fjölskyldu sína í 600 daga. Þetta var um það leyti sem að herferðin byrjaði af fullum þunga á heimsvísu. Talið er að þrýstingur, meðal annars vegna herferðar Amnesty International, hafi átt þátt í að faðir hennar fékk að heimsækja hana. Maryia var dæmd í 11 ára fangelsi og hefur setið í fangelsi frá 2020.
Herferðin skiptir sköpum og nú er undirbúningur fyrir herferðina í ár hafinn sem að venju fer fram í lok árs. Við þökkum öllum sem tóku þátt kærlega fyrir stuðninginn í herferðinni á síðasta ári og vonum að við fáum einnig góðar viðtökur í ár.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu