Fréttir

2. júní 2025

Árangur Þitt nafn bjargar lífi 2024

Okkar árlega herferð Þitt nafn bjargar lífi gekk vel árið 2024 þrátt fyrir að hún hafi verið minni í umsvifum en undan­farin ár. Á Íslandi söfn­uðust 49.038 undir­skriftir fyrir öll málin sem var aðeins meira en í fyrra ef miðað er við fjölda mála þar sem málin í ár voru níu en ekki tíu eins og undan­farin ár. Í heildina á heimsvísu var gripið til tæplega 4,7 milljóna aðgerða í 200 löndum og næstum 380 þúsund stuðn­ingskveðjur voru skrif­aðar til þolend­anna til að sýna þeim stuðning á erfiðum tímum. 

Viðburðir og hlaðvarp

Viðburðir  

Í ár voru nokkrir viðburðir í tengslum við herferðina líkt og áður. Aðgerða­sinnar á Egils­stöðum, Akur­eyri og Kópa­skeri stóðu fyrir undir­skrifta­söfn­unum sem og ungl­iðar í Kringl­unni. Í lok nóvember hafði Íslands­deildin umsjón með hinni sívin­sælu spurn­inga­keppni Ölstof­unnar, Drekktu betur, með ýmsum spurn­ingum sem tengdust meðal annars herferð­inni. Fyrir frum­sýn­ingu heim­ild­ar­mynd­ar­innar Vonar­ljós um 50 ára sögu Íslands­deild­ar­innar í Bíó Paradís gafst fólki tæki­færi til að skrifa kveðju til fjög­urra þolenda úr herferð­inni undir ljúfum harmonikku­tónum. 

Hlað­varp 

Við fengum ítar­lega umfjöllun í hlað­varpinu Draugar fortíðar. Þátt­urinn fór í loftið í byrjun desember og fjallaði alfarið um Amnesty Internati­onal og herferðina. Hlað­varpið hefur notið gífur­lega vinsælda hér á landi og því var það mikill heiður að þátta­stjórn­endur létu málstaðinn sig varða. Flosi Þorgeirsson og Baldur Ragn­arsson eiga þakkir skildar fyrir vel unninn þátt sem greindi ítar­lega frá hverju máli fyrir sig. Íslands­deild Amnesty Internati­onal þakkar þeim inni­lega fyrir sitt framlag. Hlusta má á þáttinn hér.

Þátttaka skóla

Líkt og síðast­liðin ár var haldin fram­halds­skóla­keppni í undir­skrifta­söfnun í tengslum við herferðina og söfn­uðust samtals 5347 undir­skriftir fyrir málin níu. Í heildina fengu 22 skólar fræðslu­er­indi þar sem fjallað var um herferðina og skóla­keppnina.  

Tveir skólar báru sigur úr býtum í fram­halds­skóla­keppn­inni. Kvenna­skólinn í Reykjavík safnaði flestum undir­skriftum í heildina og Fram­halds­skólinn á Laugum safnaði hlut­falls­lega flestum undir­skriftum miðað við nemenda­fjölda. Þessir skólar hafa staðið sig einstak­lega vel undan­farin ár og við óskum þeim inni­lega til hamingju með árang­urinn og dugn­aðinn. Báðum skól­unum var afhent viður­kenn­ing­ar­skjal fyrir sigurinn.  (mynd kvennó – með texta) 

Fjórir grunn­skólar fengu fræðslu um herferðina og tóku einnig þátt með því að skrifa undir aðgerða­kort: Alþjóða­skólinn á Íslandi, Háteigs­skóli, Hvols­skóli og Hóla­brekku­skóli.  

Við þökkum öllum þátt­tak­endum skól­anna inni­lega fyrir stuðn­inginn. 

Árni aðgerða- og ungl­iða­stjóri afhenti Kvenna­skól­anum viður­kenn­ingu.

Afhending undirskrifta

Cynthia Anne Namugambe og Heiðrún Vala Hilm­ars­dóttir ungl­iðar Íslands­deild­ar­innar héldu í kanadíska sendi­ráðið 14. apríl ásamt Árna Kristjáns­syni aðgerða- og ungl­iða­stjóra til að afhenda undir­skriftir í máli Wet’s­uwet’en í Kanada.

Wet’s­uwet’en er frum­byggja­þjóð í Kanada og hefur baráttu­fólk barist fyrir því að stöðva lagn­ingu gasleiðslu á land­svæði sínu þar sem lagn­ingin hófst án samþykkis höfð­ingja og ættflokka Wet’s­uwet’en. Baráttu­fólkið hefur sætt hótunum, áreitni og lögsóknum fyrir baráttu sína.

Cynthia og Heiðrún afhentu sendi­herra Kanada, Jenny Hill, þær 5376 undir­skriftir sem söfn­uðust til stuðn­ings baráttu­fólki Wet’s­uwet’en. Þær kynntu málið fyrir sendi­herr­anum og hvöttu stjórn­völd í Kanada til virða rétt baráttufólks Wet’s­uwet’en.

Undir­skrift­irnar fyrir hin málin átta voru sendar með pósti til yfir­valda þar sem ekki eru sendiráð frá þeim löndum á Íslandi.  

Cynthia Anne Namugambe og Heiðrún Vala Hilm­ar­dóttir ungl­iðar Íslands­deild­ar­innar afhentu kanadíska sendi­ráðinu undir­skriftir.

Góðar fréttir

Þitt nafn bjargar lífi er stærsti alþjóð­legi og árlegi viðburður Amnesty Internati­onal. Nú þegar höfum við fengið jákvæðar fréttir frá þremur málum úr herferð­inni 2024.  

TikTok-stjarnan Neth Nahara í Angóla var náðuð um jólin 2024 og leyst úr haldi á nýársdag. Hún hafði verið fang­elsuð fyrir að gagn­rýna forsetann.  

„Ég er núna frjáls heima hjá mér. Ég var leyst úr haldi 1. janúar svo mig langar til að tjá Amnesty Internati­onal þakk­læti mitt fyrir allt sem þið gerðuð fyrir mig og til allra sem kröfðust frelsis fyrir mig. Núna er ég heima með börn­unum mínum og tala við eigin­mann minn og alla. Ég vil þakka ykkur öllum.“

Aðstæður umhverf­is­mála­lög­fræð­ingsins Dang Dinh Bach hafa batnað lítil­lega frá því að herferðin hófst. Hann var færður yfir í klefa með meiri birtu og rými. Hann fær einnig að fara úr klef­anum til að hitta aðra fanga. Líkur eru á að herferðin hafi haft þessi áhrif. Bach er í fang­elsi fyrir að vernda umhverfið og mann­rétt­indi þar sem hann var dæmdur fyrir glæp sem hann framdi ekki. 

Póli­tíski aðgerðasinninn Mariya Kalesnikava, sem þorði að bjóða kúgun­ar­stjórn Belarús á birginn, fékk loksins að hitta föður sinn í nóvember 2024 eftir að hafa ekki fengið að vera í neinum samskiptum við fjöl­skyldu sína í 600 daga. Þetta var um það leyti sem að herferðin byrjaði af fullum þunga á heimsvísu. Talið er að þrýst­ingur, meðal annars vegna herferðar Amnesty Internati­onal, hafi átt þátt í að faðir hennar fékk að heim­sækja hana. Maryia var dæmd í 11 ára fang­elsi og hefur setið í fang­elsi frá 2020. 

Herferðin skiptir sköpum og nú er undir­bún­ingur fyrir herferðina í ár hafinn sem að venju fer fram í lok árs. Við þökkum öllum sem tóku þátt kærlega fyrir stuðn­inginn í herferð­inni á síðasta ári og vonum að við fáum einnig góðar viðtökur í ár.  

Lestu einnig