Góðar fréttir

21. desember 2022

Mann­rétt­inda­sigrar 2022

Alls staðar úr heim­inum berast okkur neikvæðar fréttar og auðvelt er að fallast hendur. Þó er mikil­vægt að halda mann­rétt­inda­bar­átt­unni áfram og ekki síður fagna þeim fjöl­mörgu sigrum sem náðust á árinu 2022. Mann­rétt­ind­astarf Amnesty Internati­onal stuðlaði að jákvæðum breyt­ingum á ótal vegu.

  • Einstak­lingar sem sættu ólög­mætri fang­elsis­vist fengu frelsi á ný.
  • Gerendur mann­rétt­inda­brota sættu ábyrgð.
  • Mikilvægar álykt­anir voru samþykktar á alþjóða­vett­vangi og umbætur á löggjöf áttu sér stað í ýmsum löndum.
  • Afnám dauðarefs­ing­ar­innar á heimsvísu hélt áfram að mjakast í rétta átt.
  • Einnig urðu fram­farir á sviði kven­rétt­inda og rétt­inda hinsegin fólks víða um heim.  

Frjáls á ný

Einstak­lingar fengu frelsi á ný eftir órétt­mæta fang­elsis­vist.

Háskóla­kenn­arinn Faizulla Jalal var hand­tekinn að geðþótta af tali­bönum í Afgan­istan. Hann fékk frelsi á ný í kjölfar herferðar Amnesty Internati­onal. Dóttir Faizulla sagði að lausn hans hefði ekki verið möguleg án aðkomu Amnesty Internati­onal. 

Hejaaz Hizbulla, lögfræð­ingur frá Sri Lanka og samviskufangi, fékk lausn úr fang­elsi gegn trygg­ingu í febrúar eftir tveggja ára varð­hald á grund­velli grimmi­legra hryðju­verka­laga þar í landi. Ahnaf Mohamed Imran og Diyaniya Mukunhan, sem einnig voru í haldi á grund­velli laganna, voru leyst úr haldi gegn trygg­ingu í ágúst og sept­ember á þessu ári.  

Rusthum Mujut­haba frá Maldív­eyjum, sem var í haldi fyrir guðlast á samfé­lags­miðlum, var leystur úr haldi í ágúst. Vakin var athygli á máli hans í netákalli og SMS-aðgerðaneti Amnesty Internati­onal. 

Sex palestínskir menn sem sögðust hafa verið pynd­aðir í palestínsku fang­elsi voru leystir úr haldi gegn trygg­ingu innan tveggja vikna frá því að Amnesty Internati­onal kom að málinu í nóvember. 

Í Hond­úras voru Guap­inol 8, átta samviskufangar og baráttumenn fyrir rétt­inum til vatns, leystir úr haldi í febrúar án skil­yrða eftir tvö og hálft ár í fang­elsi. Amnesty Internati­onal barðist fyrir frelsi þeirra í rúmt ár og vakti athygli á órétt­mæti fang­elsis­vist­ar­innar.  

Amal Nakhleh, 18 ára palestínskur unglingspiltur með langvar­andi sjálfsofnæmissjúkdóm, var loks leystur úr haldi ísra­elskra yfir­valda í maí eftir 16 mánuði í varð­haldi án dómsúrskurðar. Amnesty Internati­onal var í hópi þeirra sem börðust fyrir lausn hans.  

Skóla­kenn­arinn Hriday Chandra Mondal var hand­tekinn í mars 2022 í Bangla­dess fyrir að ræða muninn á vísindum og trúar­brögðum í kennslu­stundum. Hann var að lokum leystur úr haldi í ágúst og allar ákærur á hendur honum felldar niður.

Dr. Mohammed al-Khudari frá Palestínu var leystur úr haldi í Sádi-Arabíu í október eftir að hafa verið í haldi að geðþótta í þrjú ár ásamt syni sínum, Dr. Hani al-Khudari. Báðir voru dæmdir í fang­elsi á grund­velli rangra sakargifta. Dr. Hani al-Khudari er enn í fang­elsi þrátt fyrir að hafa klárað afplánun síns dóms í febrúar.  

 

Magai Matiop Ngong fagnar frelsinu á skrif­stofu Amnesty Internati­onal í Kenýa þann 5. apríl 2022.

 

Magai Matiop Ngong í Suður-Súdan var leystur úr haldi en hann var 15 ára þegar hann var dæmdur til dauða árið 2017. Dauða­dóm­urinn var felldur úr gildi í júlí 2020 í kjölfar herferð­ar­innar Þitt nafn bjargar lífi 2019. Hann var loks leystur úr haldi í mars 2022.

 Bern­ardo Caal Xol, samviskufangi og Maya-frum­byggi í Gvatemala, var leystur úr haldi eftir að hafa verið fang­els­aður fyrir baráttu sína fyrir umhverfinu. Mál hans var í okkar árlegu herferð Þitt nafn bjargar lífi 2021. Rúmlega hálf milljón einstak­linga um heim allan gripu til aðgerða í máli Bern­ardo.

Lista­konan Yulia Tsvet­kova var sýknuð í júlí í Rússlandi fyrir „fram­leiðslu og dreif­ingu klám­efnis“. Hún var ákærð vegna teikn­inga sem hún gerði af kven­sköpum og voru birtar á netinu til að vekja athygli á jákvæðri líkams­ímynd.  

Jemenski fjöl­miðla­mað­urinn Younis Abdelsalam var leystur úr haldi í desember eftir rúmt ár í varð­haldi að geðþótta fyrir það eitt að nýta rétt sinn til tján­ingar. Hann sætti einangrun í 80 daga.

Réttlæti

Rétt­læti fyrir þolendur og gerendur dregnir til ábyrgðar náðist víða.

Í október, í kjölfar heim­sóknar Biden Banda­ríkja­for­seta og þrýst­ings frá banda­rískum stjórn­völdum, samþykkti varn­ar­mála­ráðu­neyti Ísraels að greiða bætur til fjöl­skyldu Omar As‘ad sem lést í kjölfar illrar meðferðar ísra­elska hermanna á eftir­litstöð í janúar 2022. Omar var palestínskur en með banda­rískan ríkis­borg­ara­rétt. 

Líbanskur dómari hefur ákært fimm öryggissveit­ar­með­limi fyrir pynda Bashar Abdel Saud, sýrlenskan flótta­mann, sem lést í varð­haldi í ágúst. Þetta er mikil­vægt skref þar sem pynd­ingum og illri meðferð hefur lengi verið beitt í varð­haldi í Líbanon.

Alrík­is­lög­regla Banda­ríkj­anna tilkynnti ísra­elskum stjórn­völdum í nóvember að rann­sókn yrði gerð á máli  Shireen Abu Akleh, palestínskrar fjöl­miðlakonu með banda­rískan ríkis­borg­ara­rétt, sem var drepin af ísra­elskum hermanni.  

Í Malaví náði rétt­lætið fram að ganga þegar dómstóll dæmdi 12 menn fyrir morð á MacDonald Masam­buka, einstak­lingi með albín­isma. Í Malaví er fólk með albín­isma skot­mark glæpa­gengja þar sem það er talið að líkami þess búi yfir töfrakrafti sem færir fólki heppni.  

Jákvætt skref í átt að rétt­læti átti sér stað í Hond­úras þegar David Castillo var í júní dæmdur fyrir þátt sinn í morðinu á Bertu Cáceres, baráttu­konu fyrir rétt­indum frum­byggja og umhverf­is­vernd. Mál hennar var í netákalli Íslands­deildar Amnesty Internati­onal. 

Dauðarefsingin

Amnesty Internati­onal hefur lengi barist fyrir afnámi dauðarefs­ing­ar­innar um heim allan. Á heimsvísu hefur dauðarefs­ingin verið á undan­haldi síðustu áratugi. Árið 2022 var þar engin undan­tekning. 

Kasakstan afnam dauðarefs­inguna í janúar og Papúa Nýja-Gínea afnam hana í apríl.

Forseti Sambíu tilkynnti á samfé­lags­miðlum í maí að landið myndi hefja ferli í átt að afnámi dauðarefs­ing­ar­innar. Í lok desember tilkynnti forseti landsins að búið væri að afnema dauðarefs­inguna. 

Í júní hófu stjórn­völd í Malasíu ferli til að afnema lögbundna dauðarefs­ingu fyrir 11 tegundir brota, þar á meðal vímu­efna­brot.  

Ný lög í Miðbaugs-Gíneu tóku í gildi í sept­ember þar sem dauðarefs­ingin var afnumin úr hegn­ing­ar­lögum.

Engar aftökur fóru fram í flestum landa sunnan Sahara í Afríku sem enn hafa ekki afnumið dauðarefs­inguna fyrir alla glæpi. Kenýa, Malaví, Úganda, Simbabve og Sambía voru meðal þeirra landa þar sem engar aftökur hafa verið fram­kvæmdar á síðustu árum.   

Tímamótalöggjöf

Amnesty Internati­onal átti þátt í að tryggja úrbætur á lögum voru samþykktar víðs vegar í heim­inum. 

Varn­ar­mála­ráðu­neyti Banda­ríkj­anna tilkynnti í mars að Afganir án vega­bréfs­árit­unar fyrir 15. mars 2022 fengju vernd frá brott­vís­unum. Það sefaði ótta margra um brott­vísun til Afgan­istan þar sem talibanar ráða ríkjum. Amnesty Internati­onal í Banda­ríkj­unum heldur áfram að berjast fyrir frum­varpi sem tryggir fólki frá Afgan­istan vernd með því að veita því ríkis­borg­ara­rétt.  

Jákvætt skref fyrir tján­ing­ar­frelsið á Indlandi var tekið þegar hæstiréttur landsins felldi úr gildi 152 ára gömul uppreisn­arlög.    

Stjórn­völd í Síerra Leóne gerðu í júní drög að frum­varpi um geðheil­brigð­is­þjón­ustu sem samræmast betur alþjóð­legum mann­rétt­inda­stöðlum í stað úreltra og órétt­látra laga sem hafa verið í gildi frá árinu 1902. Í skýrslu Amnesty Internati­onal í maí 2021 var meðal annars bent á þörfina á úrbætum í þessum málum. 

 

Þingið í Níger samþykkti í júní ný ákvæði í lögum um netör­yggi. Nú er búið að afnema ákvæði um fang­els­isdóm fyrir meið­yrði og móðg­anir. Lögunum hafði ítrekað verið beitt í þeim tilgangi að hand­taka baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum, aðgerða­sinna og fjöl­miðla­fólk. 

Amnesty Internati­onal í Banda­ríkj­unum hefur lengi barist fyrir betri löggjöf í tengslum við byssu­of­beldi. Lög þar að lútandi voru samþykkt í júní og veita auka­lega 250 millj­ónir banda­ríkja­dollara í verk­efni sem er ætlað að draga úr ofbeldi. 

Rann­sókn Amnesty Internati­onal frá sept­ember 2021 um börn á átaka­svæðum í Níger leiddi til aukins eftir­lits Sameinuðu þjóð­anna á ástandinu. Aðal­fram­kvæmda­stjóri Sameinuðu þjóð­anna kallaði eftir því í júlí að sérstakur full­trúi hans um börn og stríðs­átök myndi stuðla að auknu eftir­liti á svæði þar sem landa­mæri þriggja landa, Níger, Búrkína Fasó og Malí liggja. Amnesty Internati­onal hafði meðal annars kallað eftir því í tengslum við rann­sóknina.  

Fyrirtæki

Amnesty Internati­onal átti þátt í að fyrir­tæki sinntu mann­rétt­inda­skyldum sínum.

Í kjölfar tilmæla Amnesty Internati­onal báðu stjórn­völd í Síerra Leóne námu­fyr­ir­tækið Meya að bregðast við áhyggjum um neikvæð áhrif starf­semi fyrir­tæk­isins á íbúa Kono í Síerra Leóne. Fyrir­tækið sagðist ætla vinna að bættu öryggi íbúa svæð­isins og tryggja þeim drykkjar­vatn. 

Rann­sókn Amnesty Internati­onal frá nóvember 2022 um sölu flug­véla­eldsneytis sem hægt er að tengja við stríðs­glæpi í Mjanmar leiddi til þess að mörg fyrir­tæki hættu sölu eldsneytis til Mjanmar vegna hættu á að herinn í landinu notaði það í mann­skæðar loft­árásir. Fyrir­tækið Puma Energy tilkynnti einungis tveimur vikum eftir kynn­ingu á niður­stöðum Amnesty Internati­onal að það myndi hætta sölu. Thai Oil og norska flutn­inga­fyr­ir­tækið Wilhelmsen stað­festu einnig að þau hefðu brugðist við til að tryggja að fyrir­tæki þeirra ætti ekki þátt í sölu eldsneytis til Mjanmar og von er á að fleiri fyrir­tæki geri slíkt hið sama.  

Á alþjóðavettvangi

Amnesty Internati­onal átti þátt í tryggja mikil­vægar álykt­anir á alþjóða­vett­vangi.

Í kjölfar skýrslu Amnesty Internati­onal um aðskiln­að­ar­stefnu Ísrael sem kom út í febrúar stækkaði hópur sérfræð­inga sem heldur því framÍsrael fylgi aðskiln­að­ar­stefnu. Tveir sérstakir skýrslu­gjafar Sameinuðu þjóð­anna bættust í hópinn. Annars vegar Michael Lynk, skýrslu­gjafi um mann­rétt­indi á hernumdu svæðum Palestínu, og hins vegar Balakris­hnan Rajagopal, skýslu­gjafi um réttinn til full­nægj­andi húsnæðis.  

Alls­herj­arráð Sameinuðu þjóð­anna samþykkti ályktun um viður­kenn­ingu á rétt­inum til heil­næms umhverfis. Þetta er mikil­vægt skref í rétta átt fyrir umhverf­is­legt rétt­læti. Árinu áður, í lok árs 2021, samþykkti Mann­rétt­indaráð Sameinuðu þjóð­anna svipaða ályktun. 

Varn­ar­mála­ráðu­neyti Ísraels skil­greindi sjö palestínsk borg­araleg samtök sem hryðju­verka­samtök eða ólögmæt. Í júlí á þessu ári höfnuðu tíu evrópsk lönd þessari skil­grein­ingu: Belgía, Danmörk, Frakk­land, Þýska­land, Írland, Ítalía, Holland, Noregur, Spánn og Svíþjóð. Banda­rísk stjórn­völd lýstu yfir áhyggjum sínum vegna árásar ísra­elska hersins á skrif­stofur samtak­anna í ágúst. Í október fordæmdu sérfræð­ingar Sameinuðu þjóð­anna árásir Ísraels á borg­araleg samtök.  

Í 51. lotu Mann­rétt­inda­ráðs Sameinuðu þjóð­anna í sept­ember var lögð fram ályktun um Afgan­istan. Amnesty Internati­onal lagði til að sérstakur skýrslu­gjafi gerði skýrslu um stöðu kvenna og stúlkna í landinu. Fjöl­mörg lönd studdu þessa tillögu og var hún með í loka­út­gáfu álykt­un­ar­innar.  

Mann­rétt­indaráð Sameinuðu þjóð­anna endur­nýjaði umboð sendi­nefndar til að rann­saka ástandið í Venesúela fram til sept­ember 2024. Þetta er ein helsta leiðin til að rann­saka og gefa út skýrslur um alþjóð­lega glæpi og mann­rétt­inda­brot sem eiga sér stað eða hafa átt sér stað í landinu. 

Mann­rétt­indaráð Sameinuðu þjóð­anna samþykkti tíma­móta­ályktun sem Ísland og Þýska­land lögðu fram um að rann­saka mann­rétt­inda­brot í Íran í kjölfar mótmæla­öldu í landinu sem hófst þann 16. sept­ember 2022. 

Mann­rétt­inda­stofnun Sameinuðu þjóð­anna fram­lengdi umboð vegna Sri Lanka um tvö ár í október. Það snýr að því að safna og varð­veita sönn­un­ar­gögn til að þrýsta á stjórn­völd í landinu að bætt sé upp fyrir þau mann­rétt­inda­brot sem átt hafa sér stað þar. 

Kvenréttindi

Amnesty Internati­onal var í farar­broddi í fjöl­mörgum sigrum fyrir kven­rétt­indi á árinu. 

Í febrúar afglæpa­væddi Kólumbía þung­un­arrof fram að 24. viku meðgöngu í kjölfar áratuga­langrar herferðar Amnesty Internati­onal og annarra samtaka. Þessi árangur ýtir enn frekar undir þann meðbyr með kyn-og frjó­sem­is­rétt­indum sem hefur átt sér stað að undan­förnu í Rómönsku-Ameríku. Þung­un­arrof var lögleitt í Argentínu árið 2020 og afglæpa­vætt í Mexíkó árið 2021. 

Frum­varp um mikil­vægar aðgerðir til að koma í veg fyrir og ákæra nauðg­anir var samþykkt á spænska þinginu. Kven­hreyf­ingar á Spáni og aðgerða­sinnar Amnesty Internati­onal hafa lengi barist fyrir þeim breyt­ingum að samþykki sé í forgrunni í lögunum.  

Finnska þingið samþykkti laga­úr­bætur í júní þar sem nauðgun er skil­greind sem skortur á samþykki. Finn­land samþykkti einnig laga­úr­bætur á þung­un­ar­rofi en landið var með ströngustu lög um þung­un­arrof af Norð­ur­lönd­unum. 

Miranda Ruiz, læknir í Argentínu, stóð frammi fyrir fang­elsi fyrir að fram­kvæma þungun­arrof án samþykkis þrátt fyrir að starfa samkvæmt lögum. Hún var loks sýknuð í sept­ember 2022, ári eftir að rann­sókn hófst. Argentína lögleiddi þung­un­arrof árið 2020 eftir áratuga­langa baráttu þar í landi.

 

Réttindi hinsegin fólks

Mikil­vægir sigrar fyrir rétt­indi hinsegin fólks náðust á árinu.

Hæstiréttur Suður-Kóreu stað­festi að ekki væri hægt að neita trans fólki umsvifa­laust að fá laga­lega viður­kenn­ingu á kyni sínu á grund­velli þess að eiga barn undir aldri. Þar í landi þarf að fara fyrir dómstóla til að fá laga­lega viður­kenn­ingu á kyni. 

Hjóna­band fólks af sama kyni var lögleitt í Sviss í júlí eftir að tveir þriðju íbúa samþykktu það í þjóð­ar­at­kvæð­is­greiðslu. Slóvenía fylgdi í kjöl­farið í október eftir niður­stöðu stjórn­laga­dóm­stóls. 

Í nóvember dró Pakistan til baka bann við sýningum á pakistönsku verð­launa­mynd­inni Joyland en ein aðal­per­sóna mynd­ar­innar er trans kona.  

 

Lestu einnig