Góðar fréttir
21. desember 2022Alls staðar úr heiminum berast okkur neikvæðar fréttar og auðvelt er að fallast hendur. Þó er mikilvægt að halda mannréttindabaráttunni áfram og ekki síður fagna þeim fjölmörgu sigrum sem náðust á árinu 2022. Mannréttindastarf Amnesty International stuðlaði að jákvæðum breytingum á ótal vegu.
Frjáls á ný
Einstaklingar fengu frelsi á ný eftir óréttmæta fangelsisvist.
Háskólakennarinn Faizulla Jalal var handtekinn að geðþótta af talibönum í Afganistan. Hann fékk frelsi á ný í kjölfar herferðar Amnesty International. Dóttir Faizulla sagði að lausn hans hefði ekki verið möguleg án aðkomu Amnesty International.
Hejaaz Hizbulla, lögfræðingur frá Sri Lanka og samviskufangi, fékk lausn úr fangelsi gegn tryggingu í febrúar eftir tveggja ára varðhald á grundvelli grimmilegra hryðjuverkalaga þar í landi. Ahnaf Mohamed Imran og Diyaniya Mukunhan, sem einnig voru í haldi á grundvelli laganna, voru leyst úr haldi gegn tryggingu í ágúst og september á þessu ári.
Rusthum Mujuthaba frá Maldíveyjum, sem var í haldi fyrir guðlast á samfélagsmiðlum, var leystur úr haldi í ágúst. Vakin var athygli á máli hans í netákalli og SMS-aðgerðaneti Amnesty International.
Sex palestínskir menn sem sögðust hafa verið pyndaðir í palestínsku fangelsi voru leystir úr haldi gegn tryggingu innan tveggja vikna frá því að Amnesty International kom að málinu í nóvember.
Í Hondúras voru Guapinol 8, átta samviskufangar og baráttumenn fyrir réttinum til vatns, leystir úr haldi í febrúar án skilyrða eftir tvö og hálft ár í fangelsi. Amnesty International barðist fyrir frelsi þeirra í rúmt ár og vakti athygli á óréttmæti fangelsisvistarinnar.
Amal Nakhleh, 18 ára palestínskur unglingspiltur með langvarandi sjálfsofnæmissjúkdóm, var loks leystur úr haldi ísraelskra yfirvalda í maí eftir 16 mánuði í varðhaldi án dómsúrskurðar. Amnesty International var í hópi þeirra sem börðust fyrir lausn hans.
Skólakennarinn Hriday Chandra Mondal var handtekinn í mars 2022 í Bangladess fyrir að ræða muninn á vísindum og trúarbrögðum í kennslustundum. Hann var að lokum leystur úr haldi í ágúst og allar ákærur á hendur honum felldar niður.
Dr. Mohammed al-Khudari frá Palestínu var leystur úr haldi í Sádi-Arabíu í október eftir að hafa verið í haldi að geðþótta í þrjú ár ásamt syni sínum, Dr. Hani al-Khudari. Báðir voru dæmdir í fangelsi á grundvelli rangra sakargifta. Dr. Hani al-Khudari er enn í fangelsi þrátt fyrir að hafa klárað afplánun síns dóms í febrúar.
Magai Matiop Ngong í Suður-Súdan var leystur úr haldi en hann var 15 ára þegar hann var dæmdur til dauða árið 2017. Dauðadómurinn var felldur úr gildi í júlí 2020 í kjölfar herferðarinnar Þitt nafn bjargar lífi 2019. Hann var loks leystur úr haldi í mars 2022.
Bernardo Caal Xol, samviskufangi og Maya-frumbyggi í Gvatemala, var leystur úr haldi eftir að hafa verið fangelsaður fyrir baráttu sína fyrir umhverfinu. Mál hans var í okkar árlegu herferð Þitt nafn bjargar lífi 2021. Rúmlega hálf milljón einstaklinga um heim allan gripu til aðgerða í máli Bernardo.
Listakonan Yulia Tsvetkova var sýknuð í júlí í Rússlandi fyrir „framleiðslu og dreifingu klámefnis“. Hún var ákærð vegna teikninga sem hún gerði af kvensköpum og voru birtar á netinu til að vekja athygli á jákvæðri líkamsímynd.
Jemenski fjölmiðlamaðurinn Younis Abdelsalam var leystur úr haldi í desember eftir rúmt ár í varðhaldi að geðþótta fyrir það eitt að nýta rétt sinn til tjáningar. Hann sætti einangrun í 80 daga.
Réttlæti
Réttlæti fyrir þolendur og gerendur dregnir til ábyrgðar náðist víða.
Í október, í kjölfar heimsóknar Biden Bandaríkjaforseta og þrýstings frá bandarískum stjórnvöldum, samþykkti varnarmálaráðuneyti Ísraels að greiða bætur til fjölskyldu Omar As‘ad sem lést í kjölfar illrar meðferðar ísraelska hermanna á eftirlitstöð í janúar 2022. Omar var palestínskur en með bandarískan ríkisborgararétt.
Líbanskur dómari hefur ákært fimm öryggissveitarmeðlimi fyrir að pynda Bashar Abdel Saud, sýrlenskan flóttamann, sem lést í varðhaldi í ágúst. Þetta er mikilvægt skref þar sem pyndingum og illri meðferð hefur lengi verið beitt í varðhaldi í Líbanon.
Alríkislögregla Bandaríkjanna tilkynnti ísraelskum stjórnvöldum í nóvember að rannsókn yrði gerð á máli Shireen Abu Akleh, palestínskrar fjölmiðlakonu með bandarískan ríkisborgararétt, sem var drepin af ísraelskum hermanni.
Í Malaví náði réttlætið fram að ganga þegar dómstóll dæmdi 12 menn fyrir morðið á MacDonald Masambuka, einstaklingi með albínisma. Í Malaví er fólk með albínisma skotmark glæpagengja þar sem það er talið að líkami þess búi yfir töfrakrafti sem færir fólki heppni.
Jákvætt skref í átt að réttlæti átti sér stað í Hondúras þegar David Castillo var í júní dæmdur fyrir þátt sinn í morðinu á Bertu Cáceres, baráttukonu fyrir réttindum frumbyggja og umhverfisvernd. Mál hennar var í netákalli Íslandsdeildar Amnesty International.
Dauðarefsingin
Amnesty International hefur lengi barist fyrir afnámi dauðarefsingarinnar um heim allan. Á heimsvísu hefur dauðarefsingin verið á undanhaldi síðustu áratugi. Árið 2022 var þar engin undantekning.
Kasakstan afnam dauðarefsinguna í janúar og Papúa Nýja-Gínea afnam hana í apríl.
Forseti Sambíu tilkynnti á samfélagsmiðlum í maí að landið myndi hefja ferli í átt að afnámi dauðarefsingarinnar. Í lok desember tilkynnti forseti landsins að búið væri að afnema dauðarefsinguna.
Í júní hófu stjórnvöld í Malasíu ferli til að afnema lögbundna dauðarefsingu fyrir 11 tegundir brota, þar á meðal vímuefnabrot.
Ný lög í Miðbaugs-Gíneu tóku í gildi í september þar sem dauðarefsingin var afnumin úr hegningarlögum.
Engar aftökur fóru fram í flestum landa sunnan Sahara í Afríku sem enn hafa ekki afnumið dauðarefsinguna fyrir alla glæpi. Kenýa, Malaví, Úganda, Simbabve og Sambía voru meðal þeirra landa þar sem engar aftökur hafa verið framkvæmdar á síðustu árum.
Tímamótalöggjöf
Amnesty International átti þátt í að tryggja úrbætur á lögum voru samþykktar víðs vegar í heiminum.
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í mars að Afganir án vegabréfsáritunar fyrir 15. mars 2022 fengju vernd frá brottvísunum. Það sefaði ótta margra um brottvísun til Afganistan þar sem talibanar ráða ríkjum. Amnesty International í Bandaríkjunum heldur áfram að berjast fyrir frumvarpi sem tryggir fólki frá Afganistan vernd með því að veita því ríkisborgararétt.
Jákvætt skref fyrir tjáningarfrelsið á Indlandi var tekið þegar hæstiréttur landsins felldi úr gildi 152 ára gömul uppreisnarlög.
Stjórnvöld í Síerra Leóne gerðu í júní drög að frumvarpi um geðheilbrigðisþjónustu sem samræmast betur alþjóðlegum mannréttindastöðlum í stað úreltra og óréttlátra laga sem hafa verið í gildi frá árinu 1902. Í skýrslu Amnesty International í maí 2021 var meðal annars bent á þörfina á úrbætum í þessum málum.
Þingið í Níger samþykkti í júní ný ákvæði í lögum um netöryggi. Nú er búið að afnema ákvæði um fangelsisdóm fyrir meiðyrði og móðganir. Lögunum hafði ítrekað verið beitt í þeim tilgangi að handtaka baráttufólk fyrir mannréttindum, aðgerðasinna og fjölmiðlafólk.
Amnesty International í Bandaríkjunum hefur lengi barist fyrir betri löggjöf í tengslum við byssuofbeldi. Lög þar að lútandi voru samþykkt í júní og veita aukalega 250 milljónir bandaríkjadollara í verkefni sem er ætlað að draga úr ofbeldi.
Rannsókn Amnesty International frá september 2021 um börn á átakasvæðum í Níger leiddi til aukins eftirlits Sameinuðu þjóðanna á ástandinu. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kallaði eftir því í júlí að sérstakur fulltrúi hans um börn og stríðsátök myndi stuðla að auknu eftirliti á svæði þar sem landamæri þriggja landa, Níger, Búrkína Fasó og Malí liggja. Amnesty International hafði meðal annars kallað eftir því í tengslum við rannsóknina.
Fyrirtæki
Amnesty International átti þátt í að fyrirtæki sinntu mannréttindaskyldum sínum.
Í kjölfar tilmæla Amnesty International báðu stjórnvöld í Síerra Leóne námufyrirtækið Meya að bregðast við áhyggjum um neikvæð áhrif starfsemi fyrirtækisins á íbúa Kono í Síerra Leóne. Fyrirtækið sagðist ætla vinna að bættu öryggi íbúa svæðisins og tryggja þeim drykkjarvatn.
Rannsókn Amnesty International frá nóvember 2022 um sölu flugvélaeldsneytis sem hægt er að tengja við stríðsglæpi í Mjanmar leiddi til þess að mörg fyrirtæki hættu sölu eldsneytis til Mjanmar vegna hættu á að herinn í landinu notaði það í mannskæðar loftárásir. Fyrirtækið Puma Energy tilkynnti einungis tveimur vikum eftir kynningu á niðurstöðum Amnesty International að það myndi hætta sölu. Thai Oil og norska flutningafyrirtækið Wilhelmsen staðfestu einnig að þau hefðu brugðist við til að tryggja að fyrirtæki þeirra ætti ekki þátt í sölu eldsneytis til Mjanmar og von er á að fleiri fyrirtæki geri slíkt hið sama.
Á alþjóðavettvangi
Amnesty International átti þátt í tryggja mikilvægar ályktanir á alþjóðavettvangi.
Í kjölfar skýrslu Amnesty International um aðskilnaðarstefnu Ísrael sem kom út í febrúar stækkaði hópur sérfræðinga sem heldur því fram að Ísrael fylgi aðskilnaðarstefnu. Tveir sérstakir skýrslugjafar Sameinuðu þjóðanna bættust í hópinn. Annars vegar Michael Lynk, skýrslugjafi um mannréttindi á hernumdu svæðum Palestínu, og hins vegar Balakrishnan Rajagopal, skýslugjafi um réttinn til fullnægjandi húsnæðis.
Allsherjarráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um viðurkenningu á réttinum til heilnæms umhverfis. Þetta er mikilvægt skref í rétta átt fyrir umhverfislegt réttlæti. Árinu áður, í lok árs 2021, samþykkti Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna svipaða ályktun.
Varnarmálaráðuneyti Ísraels skilgreindi sjö palestínsk borgaraleg samtök sem hryðjuverkasamtök eða ólögmæt. Í júlí á þessu ári höfnuðu tíu evrópsk lönd þessari skilgreiningu: Belgía, Danmörk, Frakkland, Þýskaland, Írland, Ítalía, Holland, Noregur, Spánn og Svíþjóð. Bandarísk stjórnvöld lýstu yfir áhyggjum sínum vegna árásar ísraelska hersins á skrifstofur samtakanna í ágúst. Í október fordæmdu sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna árásir Ísraels á borgaraleg samtök.
Í 51. lotu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í september var lögð fram ályktun um Afganistan. Amnesty International lagði til að sérstakur skýrslugjafi gerði skýrslu um stöðu kvenna og stúlkna í landinu. Fjölmörg lönd studdu þessa tillögu og var hún með í lokaútgáfu ályktunarinnar.
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna endurnýjaði umboð sendinefndar til að rannsaka ástandið í Venesúela fram til september 2024. Þetta er ein helsta leiðin til að rannsaka og gefa út skýrslur um alþjóðlega glæpi og mannréttindabrot sem eiga sér stað eða hafa átt sér stað í landinu.
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti tímamótaályktun sem Ísland og Þýskaland lögðu fram um að rannsaka mannréttindabrot í Íran í kjölfar mótmælaöldu í landinu sem hófst þann 16. september 2022.
Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna framlengdi umboð vegna Sri Lanka um tvö ár í október. Það snýr að því að safna og varðveita sönnunargögn til að þrýsta á stjórnvöld í landinu að bætt sé upp fyrir þau mannréttindabrot sem átt hafa sér stað þar.
Kvenréttindi
Amnesty International var í fararbroddi í fjölmörgum sigrum fyrir kvenréttindi á árinu.
Í febrúar afglæpavæddi Kólumbía þungunarrof fram að 24. viku meðgöngu í kjölfar áratugalangrar herferðar Amnesty International og annarra samtaka. Þessi árangur ýtir enn frekar undir þann meðbyr með kyn-og frjósemisréttindum sem hefur átt sér stað að undanförnu í Rómönsku-Ameríku. Þungunarrof var lögleitt í Argentínu árið 2020 og afglæpavætt í Mexíkó árið 2021.
Frumvarp um mikilvægar aðgerðir til að koma í veg fyrir og ákæra nauðganir var samþykkt á spænska þinginu. Kvenhreyfingar á Spáni og aðgerðasinnar Amnesty International hafa lengi barist fyrir þeim breytingum að samþykki sé í forgrunni í lögunum.
Finnska þingið samþykkti lagaúrbætur í júní þar sem nauðgun er skilgreind sem skortur á samþykki. Finnland samþykkti einnig lagaúrbætur á þungunarrofi en landið var með ströngustu lög um þungunarrof af Norðurlöndunum.
Miranda Ruiz, læknir í Argentínu, stóð frammi fyrir fangelsi fyrir að framkvæma þungunarrof án samþykkis þrátt fyrir að starfa samkvæmt lögum. Hún var loks sýknuð í september 2022, ári eftir að rannsókn hófst. Argentína lögleiddi þungunarrof árið 2020 eftir áratugalanga baráttu þar í landi.
Réttindi hinsegin fólks
Mikilvægir sigrar fyrir réttindi hinsegin fólks náðust á árinu.
Hæstiréttur Suður-Kóreu staðfesti að ekki væri hægt að neita trans fólki umsvifalaust að fá lagalega viðurkenningu á kyni sínu á grundvelli þess að eiga barn undir aldri. Þar í landi þarf að fara fyrir dómstóla til að fá lagalega viðurkenningu á kyni.
Hjónaband fólks af sama kyni var lögleitt í Sviss í júlí eftir að tveir þriðju íbúa samþykktu það í þjóðaratkvæðisgreiðslu. Slóvenía fylgdi í kjölfarið í október eftir niðurstöðu stjórnlagadómstóls.
Í nóvember dró Pakistan til baka bann við sýningum á pakistönsku verðlaunamyndinni Joyland en ein aðalpersóna myndarinnar er trans kona.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu