Áætlað er að 1.7% einstaklinga á heimsvísu fæðist með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni þ.e. einkenni sem eru ekki algerlega karl- eða kvenkyns, sem eru sambland af karl- og kvenkyns eða eru hvorki karl- né kvenkyns. Það þýðir að breytileikinn er jafn algengur og hjá rauðhærðu fólki.
Breytileikinn á kyneinkennum getur verið margvíslegur og stundum er hann sjáanlegar strax við fæðingu, þegar reynt er að geta barn, kemur í ljós við kynþroskaaldurinn, eða uppgötvast fyrir hreina tilviljun. Breytileikinn getur átt við um innri og ytri kynfæri, æxlunarfæri, hormónastarfssemi, kynkirtla, kynlitninga, eða kynþroska sem er með einhverju móti öðruvísi en hjá flestum.
Margir sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni sæta ónauðsynlegum, óafturkræfum og skaðlegum skurðaðgerðum eða öðru inngripi sem börn sem hefur skaðleg líkamleg og sálræn áhrif til framtíðar.
Kjarni vandans
Undanfarna hálfa öld hefur fólk með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni verið látið sæta róttækum og oft óafturkræfum inngripum s.s. skurðaðgerðum og hormónameðferðum til að laga kyneinkenni þeirra að væntingum um dæmigert útlit og form kvenna og karlmanna.
Oft eru inngripin framkvæmd á ungbörnum sem geta ekki tekið þátt í ákvörðuninni þrátt fyrir að bið myndi ekki stefna líkamlegri heilsu þeirra í hættu og inngripin séu óafturkræf.
Inngrip lækna byggja oft á þeim hugmyndum að snemmbærar aðgerðir á kynfærum ungra barna komi til með að „draga úr áhyggjum foreldra“ og „draga úr formdómum og tryggja samsömun við rétt kyn“. Að baki inngripunum liggur því góður vilji heilbrigðisstarfsfólks en vandinn er sá að umræddar aðgerðir hafa oft skaðleg áhrif til framtíðar, bæði líkamlega og andlega.
Öll eigum við rétt á að taka ákvarðanir um eigið líf og líkama þegar við höfum aldur og þroska til, rétt á bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu, friðhelgi einkalífs og líkamlegri friðhelgi. Fólk með ódæmigerð kyneineinkenni á, eins og allir aðrir, rétt á að taka ákvarðanir um eigin líkama.
Rannsóknir Amnesty International
Rannsókn Amnesty í Danmörku og Þýskalandi:
Ný skýrsla um stöðu intersex fólks innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi:
Helstu niðurstöður skýrslunnar um stöðu Intersex fólks á Íslandi eru sláandi en þar kemur fram að þegar einstaklingar með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni og fjölskyldur þeirra leita eftir þjónustu í íslenska heilbrigðiskerfinu dregur skortur á skýru mannréttindamiðuðu verklagi og þverfaglegri nálgun, ásamt ónógum félagslegum stuðningi, úr möguleikum þeirra til að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.
Amnesty International skoraÐI á íslensk stjórnvöld að:
LÖG UM KYNRÆNT SJÁLFRÆÐI SAMÞYKKT.
Íslandsdeild Amnesty International fagnaði löngu tímabærum lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru á Alþingi þann 18. júní árið 2019. Lögin afnema úreltar kröfur um lagalega kynskráningu og tryggja kynrænt sjálfræði fyrir trans fólk þar sem horfið hefur verið frá því að krefjast geðgreiningar á svokölluðum „kynáttunarvanda“ til að fá lagalega viðurkenningu á kyni. Íslandsdeildin harmaði þó á þessum tíma að skrefið hafi ekki verið tekið til fulls en í lögunum var ekki að finna ákvæði ákvæði sem kemur í veg fyrir ónauðsynlegar, óafturkræfar og inngripsmiklar aðgerðar á börnum sem fæðast með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni. Fyrirheit voru engu að síður um að tillögur yrðu lagðar fram um nýja löggjöf innan árs frá samþykkt laga um kynrænt sjálfræði með skipan sérstakrar starfsnefndar sem ætlað var að fara sérstaklega yfir málefni fólks með ódæmigerð kyneinkenni. Breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði til verndar réttindum barna með ódæmigerð kyneinkenni var loks samþykkt á Alþingi þann 18. desember árið 2020. Meginreglan er sú að varanlegar breytingar á kyneinkennum barns yngri en 16 ára, sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni, skuli einungis gerðar í samræmi við vilja barnsins. Þessar breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði voru risastór réttarbót fyrir börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.
Afstaða Amnesty International
Amnesty International telur að bíða eigi með að gera breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum ef mögulegt er þar til barnið getur veitt upplýst, skriflegt samþykki sitt fyrir meðferðinni eða inngripinu og að fjölskyldum sé veittur sálfélagslegur stuðningur.
Að sjálfsögðu ættu allar ákvarðanir að vera teknar út frá hverju tilfelli fyrir sig. Það munu alltaf vera tilfelli þar sem er raunveruleg þörf á læknainngripi til að standa vörð um heilsu viðkomandi, eins og til að mynda þegar þvagrás og leggöng á barni eru ekki aðskilin og þvag getur því lekið inn í leggöng og valdið sýkingum. Amnesty International leggst þannig ekki gegn læknisfræðilegum inngripum ef brýnar heilsufarslegar ástæður krefjast þess en oft er ekki um slíkt að ræða heldur fremur félagslegar eða útlitslegar ástæður.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu