Um heim allan verður fólk fyrir mismunun og árásum sökum þess hvern það elskar, hvernig það kýs að tjá kyn sitt eða upplifir það, og í raun fyrir að vera það sjálft!
Sú ójafna meðferð sem hinsegin fólk sætir er oft margþætt, víðtæk og skaðleg en hún getur verið allt frá uppnefningum og einelti yfir í synjun á starfi og/eða viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Stundum getur mismunun ógnað lífi hinsegin fólks.
Í 64 löndum
er samkynhneigð bönnuð (í byrjun árs 2024).
Í 10 löndum í Evrópu
er þess krafist að trans fólk gangist undir ófrjósemisaðgerð.
31 land
leyfðu hjónabönd samkynhneigðra í lok árs 2021.
321 kynsegin og trans
einstaklingur var myrtur frá 1. október 2022 til 30. september 2023.
Kjarni vandans
Í fjölmörgum löndum búa lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, trans- og intersex fólk við daglega mismunun. Umrædd mismunun kann að byggja á kynhneigð fólks þ.e. hverjum þú laðast að, kynvitund þ.e. hvernig þú skilgreinir sjálfa/n þig óháð líffræðilegu kyni, kyntjáningu þ.e. hvernig þú tjáir kyn þitt með klæðaburði, förðun eða hárgreiðslu eða ódæmigerðum líffræðilegum kyneinkennum t.d. hormónastarfssemi, kynkirtlar, kynlitningar, kyn- og æxlunarfæri eða kynþroska sem er með einhverju móti öðruvísi en hjá flestum.
Í fjölmörgum tilfellum verður hinsegin fólk fyrir áreitni á götum úti, sætir barsmíðum og er stundum myrt, einungis fyrir að vera það sjálft. Þá neyðist margt intersex fólk til að gangast undir hættulegar, inngripsmiklar og ónauðsynlegar aðgerðir sem geta haft alvarleg líkamleg og sálræn áhrif til langframa.
Stundum kyndir ríkisvaldið undir fjandskap í garð hinsegin fólks í stað þess að sinna skyldu sinni og vernda það. Stjórnvöld í Tsjetsjeníu ráku til að mynda herferð gegn samkynhneigðum mönnum í landinu en mörgum var rænt, þeir pyndaðir og jafnvel drepnir.
Í Bangladess hafa hinsegin aðgerðasinnar verið höggnir til bana með sveðjum af vopnuðum hópum en hvorki lögregla né ríksstjórn landsins gera nokkuð til að ná fram réttlæti til handa fjölskyldum fórnarlambanna. Á fjölmörgum svæðum í Afríku sunnan Sahara býr hinsegin fólk við stöðugan ótta um að vera uppgötvað, sæta árásum eða jafnvel týna lífi sínu.
Í Kenía, Mjanmar, Malasíu, Bangladess og í 23 öðrum löndum getur allt frá 10 ára fangelsi, yfir í lífstíðardóm legið við samkynhneigð. Þá liggur dauðarefsingin við kynferðislegu samneyti fólks af sama kyni í sex löndum þeirra á meðal, Íran, Sádí-Arabíu, Jemen og Súdan. Jafnvel þar sem afturhaldssamri löggjöf af þessu tagi er ekki beitt í reynd, þá ýtir tilvist slíkra laga undir fordóma gagnvart hinsegin fólki, vanmátt þeirra og tilfinningu fyrir því að njóta engrar verndar gegn áreitni, kúgun og ofbeldi.
Baráttufólk fyrir réttindum hinsegin fólks hefur tekist á við gífurlegar áskoranir og jafnvel hætt eigin öryggi til að benda á mannréttindabrot gegn hinsegin fólki og þrýsta á um breytingar á lögum sem mismuna því. Með tilkomu hugmyndafræðinnar að baki gleðigöngu og alþjóðlegs baráttudags gegn hómófóbíu, transfóbíu og tvíkynhneigðarfóbíu, hefur hinsegin fólk myndað bandalög víðs vegar um heiminn og eflt virðingu fyrir því hver þau eru.
Sameiginlegt erfiði og þrautseigja aðgerðasinna og frjálsra félagasamtaka um heim allan hefur skilað raunverulegum árangri. Í desember 2020 viðurkenndu 45 ríki hómófóbíska glæpi sem tegund af hatursglæp. Í lok árs 2021 viðurkenndi 31 land hjónaband samkynhneigðra, þar meðtalið Taívan.
Hvað er Amnesty International að gera?
Amnesty ábyrgist að berjast gegn allri þeirri mismunun sem hinsegin fólk kann að verða fyrir, hvar sem er í heiminum.
Amnesty vinnur að rannsóknum í þeim löndum og landsvæðum þar sem brotið er á réttindum hinsegin fólks og gefur út skýrslur sem m.a. fela í sér tilmæli til viðkomandi stjórnvalda um hvernig megi gera úrbætur.
Amnesty þrýstir á stjórnvöld og ráðleggur þeim hvernig eigi að bæta löggjöf og vernda réttindi fólks óháð kynhneigð eða kynvitund þess.
Í kjölfar herferðar á vegum Amnesty International árið 2017 úrskurðaði hæstiréttur Taívan að bann við hjónabandi samkynhneigðra samræmdist ekki stjórnskipunarlögum landsins og árið 2019 gekk Taívan skrefinu lengra og varð fyrsta landið í Asíu til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra.
Þá hefur barátta samtakanna haft mikil áhrif á gerð nýrra laga í Grikklandi, Danmörku og Noregi sem gerir fólki kleift að fá lagalega viðurkenningu á kyni sínu.
Þrátt fyrir að enginn vafi leikur á því að margt hefur áunnist í baráttu hinsegin fólks er enn langt í land og mikil vinna fyrir höndum. Amnesty International vinnur ötullega með aðgerðasinnum um allan heim, m.a. á Íslandi, að hinum ýmsu baráttumálum hinsegin fólks með því að þrýsta á stjórnvöld sem brjóta á mannréttindum þessa hóps, með söfnun undirskrifta á ýmis áköll til yfirvalda, mótmælafundum, rannsóknum, þátttöku í gleðigöngum og fræðslustarfi svo fátt eitt sé nefnt.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu