Staða mannréttinda hefur verið bágborin í Níkaragva undanfarin ár eða allt frá því að Daniel Ortega tók við forsetaembætti í janúar 2017. Í apríl 2018 kynnti Ortega fyrir þjóðinni samfélagslegar „umbætur“ sem fólu í sér skattahækkanir og skerðingu á félagslegum bótum. Í kjölfarið fóru fjölmenn mótmæli fram í mörgum borgum landsins, m.a. í Managua, sem aðallega voru skipuð háskólanemum, eldri borgurum og öðrum aðgerðasinnum.
Viðbrögð stjórnvalda
Ríkisstjórn Ortega brást við mótmælahrinunni með því að taka upp harða og ofbeldisfulla kúgunarstefnu sem ekki hefur þekkst í landinu í mörg ár.
Á fyrsta degi mótmælanna voru þrír myrtir, tveir nemendur og einn lögreglumaður, auk þess sem tugir særðust bæði af hendi lögreglu, hers, og vopnaðra hópa sem annaðhvort starfa fyrir ríkisstjórn landsins eða án afskipta hennar. Stuðningur vopnaðra hópa hefur gert ríkisstjórninni auðveldara fyrir að fela ofbeldisverk sín og auka á kúgunina.
Sama dag dró forsetinn til baka áform sín um breytingar á félagslegum réttindum en minntist ekkert á morðin á borgurum sínum.
Eftir að fyrstu fréttir bárust um morðin á mótmælendum tjáði varaforseti landsins, Rosario Murillo, fjölmiðlum að mótmælendur væru „lítill“ hópur fólks sem væri drifinn áfram af sérhagsmunum og hættulegum pólitískum markmiðum, uppfullur af hatri sem ógnaði „friði og framþróun“ í landinu.
Þá hélt varaforsetinn því fram að frásagnir um mannfall væru upplognar af andstæðingum stjórnvalda og gagnrýndi jafnframt fjölmiðlaumfjöllun um mótmælin og fullyrti að ákveðnir aðilar innan fjölmiðlanna hefðu „hvatt til ofbeldis á meðan þeir á huglausan hátt földu sig á bak við myndavélarnar og bentu á aðra“.
Forsetahjónin hafa alla tíð neitað öllum ásökunum um kúgunartilburði í yfirlýsingum sínum.
Að sögn voru að minnsta kosti 25 einstaklingar myrtir á fyrstu dögum mótmælanna og á fyrstu þremur vikunum höfðu að minnsta kosti 76 verið myrtir í tengslum við ofbeldisfullar aðgerðir gegn mótmælendum. Þá særðust rúmlega 860 einstaklingar í mótmælunum og 400 voru handteknir, þeirra á meðal nemendur, fjölmiðlafólk og mannréttindafrömuðir.
Margir af þeim sem særðust var ungt fólk, sumir undir 18 ára aldri sem hlutu sár á höfði eða bringu af völdum gúmmíkúlna og haglaskota. Oft voru áverkar varanlegir.
í lok árs 2019 höfðu a.m.k. 328 einstaklinga verið myrtir af öryggissveitum landsins og vopnuðum stuðningshópum ríkisstjórnarinnar.
Þá hafa rúmlega 2000 einstaklingar særst frá upphafi mannréttindaneyðarinnar og hundruð sætt geðþóttahandtökum. Í lok árs 2019 voru 65 einstaklingar enn í varðhaldi af pólitískum ástæðum. Amnesty International hefur skráð fjölda annarra tilfella alvarlegra mannréttindabrota í landinu, þeirra á meðal pyndingar og aftökur án dóms og laga. Tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja til Kosta Ríka.
Þessi mikli fjöldi mótmælenda sem lét lífið er skýr vísbending um að óhóflegri valdbeitingu hafi verið beitt í trássi við reglur um nauðsyn og meðalhóf, eins og krafist er í alþjóðalögum.
Fjölmiðlafólk, nemar og aðgerðasinnar hafa verið skotmark stjórnvalda ásamt öllum þeim sem yfirhöfuð voga sér að gagnrýna ríkisstjórnina.
Ríkisstjórn landsins hefur reynt að leyna upplýsingum um ofbeldisverk sín og hindrað rannsóknir innlendra og erlendra aðila á þeim, auk þess að koma í veg fyrir læknisaðstoð á spítölum og gert tilraunir til að stjórna fjölmiðlum landsins til að fela mannréttindabrot og takmarka tjáningarfrelsi.
Þolendur
Fregnir bárust af morði á blaðamanninum Ángel Gahona þann 21. apríl 2018 en hann hafði streymt beint af mótmælunum sem fóru fram gegn forseta landsins og náð myndum af harðræði lögreglu gegn mótmælendum. Níu aðrir blaðamenn særðust einnig þennan dag. Ángel Gahona var þekktur rannsóknarblaðamaður í heimalandi sínu en hann afhjúpaði oftar einu sinni ofbeldi lögreglu í Níkaragva.
Heilbrigðisstarfsfólk, sem Amnesty International ræddi við á Bautista-sjúkrahúsinu í Managua, greindi frá því að dagana 20. til 24. apríl 2018 voru 50 mótmælendur meðhöndlaðir, þar af 34 með skotsár. Sjö þeirra voru ungt fólk á aldrinum 14 til 17 ára, þeirra á meðal hinn 15 ára gamli Álvaro Conrado sem dó af völdum skotsára.
Engar rannsóknir hafa átt sér stað á morðunum og yfirvöld reynt að þvinga fjölskyldur hinna látnu til að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að þær muni ekki leggja fram kærur.
Fjölskyldurnar hafa oft ekki aðgengi að óháðum réttarmeinafræðingi eða þá að yfirvöld standa í vegi fyrir því að niðurstöður úr réttarmeinaskoðun séu afhentar fjölskyldunum.
Axel Blanco var 17 ára þegar hann missti varanlega sjón á vinstra auga eftir að lögregla hæfði hann með gúmmíkúlu. Alex var staddur við háskólabyggingu og var að útbúa götuvirki til að verja sig gegn kúlnahríð óeirðalögreglu þegar hann sá lögreglumann beygja sig niður, miða byssu vísvitandi í átt að sér og skjóta.
Lögreglan hefur í sumum tilfellum hótað/ógnað fjölskyldum hinna látnu.
Moroni Jacob Garcia, 22 ára, var myrtur af lögreglu þann 20. apríl 2018 á háskólalóð. Lögreglan mætti við útför hans tveimur dögum síðar og áreitti fjölskyldumeðlimi. Þann 8. maí sama ár buðu tveir aðilar á vegum Sandinista, flokki forseta landsins, móður Moroni „bætur“ fyrir dauða sonar hennar gegn því að hún skrifaði undir yfirlýsingu þess efnis að leggja ekki fram kæru. Hún hafnaði boðinu.
Fjölskyldan hefur enn ekki getað skráð dauða Moroni formlega hjá yfirvöldum og saksóknari sinnti málinu ekki sem skyldi.
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu