Mannréttindaástandið í Síle hefur ekki verið jafn slæmt frá valdatíð Augusto Pinochet sem var við völd til ársins 1990. Fjöldamótmæli hófust í landinu um miðjan október 2019 þegar almenningur brást við verðhækkunum á almenningssamgöngum.
Gífurlegur ójöfnuður ríkir í Síle og tóku mótmælendur einnig að krefjast réttlátara samfélags þar sem ríkið tryggi réttinn til heilbrigðisþjónustu, menntunar, almannatrygginga og aðgengis að vatni. Mótmælendum var mætt með gífurlegri hörku af öryggissveitum ríkisins, undir stjórn Sebastián Piñera forseta landsins, sem beittu óhóflegu valdi með það að markmiði að refsa mótmælendum og valda þeim skaða til að sporna gegn frekari mótmælum. Yfirvöld réttlætu aðgerðirnar með því að telja þær nauðsynlegar til að vernda innviði samfélagsins og einkaeignir frá skemmdum.
Í sumum tilvikum var gengið svo langt að beita pyndingum og kynferðislegu ofbeldi gegn mótmælendum. Embætti ríkissaksóknara skráði rúmlega 2500 ákærur um mannréttindabrot. Þar af voru 1500 ákærur vegna pyndinga og annarrar grimmilegrar eða niðurlægjandi meðferðar ásamt rúmlega 100 glæpum af kynferðislegum toga sem framdir voru af aðilum á vegum yfirvalda.
Neyðarástand
Forseti Síle lýsti yfir neyðarástandi í landinu þann 18. október 2019 þar sem almenningur var sviptur tilteknum réttindum og frelsi í tíu daga.
Mannréttindabrot á vegum ríkisins jukust enn frekar og 31 einstaklingur lét lífið í mótmælum, þar af a.m.k. fjórir af völdum öryggissveita ríkisins. Þá særðust rúmlega 13 þúsund einstaklingar á fyrstu tveimur mánuðum mótmælanna, þar af 1400 af völdum skotsára og 350 hlutu alvarlegan augnskaða af völdum haglaskota og gúmmíkúlna.
Amnesty International gat staðfest með greiningu myndefnis að herinn skaut óvopnaða mótmælendur með sjálfvirkum rifflum og handbyssum.
Þá beitti lögreglan einnig táragasi ótæpilega og ónauðsynlega og beindi því að spítölum, háskólum, heimilum og jafnvel grunnskólum og sérskólum, með alvarlegum afleiðingum fyrir börn og einstaklinga með fatlanir.
Þessar árásir beindust einnig gegn almenningi án nokkurrar ástæðu, ásamt fjölmiðlafólki og vegfarendum sem skrásettu atburðina. Þá var ofbeldi ennfremur beitt gegn fólki sem þegar hafði verið handtekið og nokkrir lögreglumenn og hermenn notuðu ökutæki til að keyra yfir mótmælendur eða gerðu tilraunir til þess.
Amnesty International staðfesti eitt dauðsfall af völdum barsmíða lögreglu og annað af völdum hermanns sem keyrði yfir mótmælanda.
Romario Veloz, 26 ára, dó eftir að hermaður skaut hann í hálsinn í lítilli kröfugöngu í borginni La Serena. Þegar hermenn birtust í almenningsgarði í borginni hófu þeir skothríð gegn mótmælendum sem þar voru samankomnir.
Myndskeið af skothríðinni sýna Romario ganga í hægðum sínum með hendur í vösum í almenningsgarðinum. Við sömu mótmæli var Rolando Robledo, 41 árs, skotinn af hermanni og særðist á brjósti. Hann var í lífshættu í nokkra daga. Samkvæmt sjónarvottum komu hermenn hvorugum mannanna til aðstoðar og herinn skaut að mótmælendum sem reyndu að hjálpa hinum særðu.
Í Curicó, skaut hermaður José Miguel Uribe í bringuna með þeim afleiðingum að hann dó. Hinn 25 ára gamli José Miguel hafði tekið þátt í að koma upp vegartálma ásamt fleiru ungu fólki til að stöðva umferð og setja þrýsting á stjórnvöld. Herinn kom á svæðið og hóf skothríð fyrirvaralaust á þá sem voru viðstaddir. Samkvæmt vitnum kom enginn hermaður José Miguel til hjálpar.
Pyndingar og önnur ill meðferð
Algengt er að yfirvöld í Chile beiti illri meðferð og jafnvel pyndingum til að skaða mótmælendur en hvort tveggja er glæpur samkvæmt alþjóðalögum.
Amnesty International hefur skráð tilvik þar sem pyndingum hefur verið beitt, þeirra á meðal kynferðislegu ofbeldi auk dauðsfalls í kjölfar illrar meðferðar lögreglu. Einnig sannreyndu samtökin rúmlega 30 sönnunargögn í mynd- og hljóðformi sem sýna hvernig lögregla og her beittu grimmilegri meðferð gegn almenningi að ósekju.
Alex Núñez, 39 ára, lét lífið í kjölfar hrottalegra barsmíða lögreglumanna. Alex átti leið hjá mótmælum í Maipú við höfuðborgina Santiago, til að afhenda sendingu þegar þrír lögreglumenn stöðvuðu hann. Þeir fleygðu honum í jörðina og spörkuðu af miklu afli í höfuð hans og bringu. Daginn eftir lést Alex af áverkum sínum.
Í nóvember 2019 hafði ríkissaksóknari undir höndum kærur vegna nauðgunar og kynferðisofbeldis af hálfu öryggissveita í kjölfar mótmælanna. Þeirra á meðal mál Josué Maureira sem var nauðgað með kefli á lögreglustöð og honum veittir áverkar á rasskinnum með beittum hlut. Að auki var hann barinn og niðurlægður með öðrum hætti vegna kynhneigðar hans.
Í öðru máli þar sem pyndingum og illri meðferð var beitt, börðu lögreglumenn friðsaman mótmælenda til óbóta með þeim afleiðingum að þrjú rifbein brotnuðu, hann missti alfarið sjón á öðru auga, nefbrotnaði, fór úr axlarlið og lungað féll saman. Tólf lögreglumenn réðust á hann þegar hann tók með friðsömum hætti þátt í mótmælum, með pönnu og skeið, á Ñuñoa-torgi í Santiago.
Þá sætti Cristóbal Alexis Flen, 30 ára, barsmíðum allan þann tíma sem hann sat í varðhaldi í Maipo nálægt höfuðborginni. Þegar áverkar Cristóbal Alexis voru skráðir var lögreglumaður viðstaddur sem kom í veg fyrir að læknirinn skrásetti af nákvæmni alla áverkana sem hann hlaut.
Amnesty International fékk ítrekað upplýsingar um slík athæfi sem jafngildir tilraun til að breiða yfir glæp. Þegar samtökin ræddu við Cristóbal Alexis 19 dögum eftir ódæðið blæddi enn úr báðum augum og hann var marinn víðs vegar um líkamann.
Alvarlegir áverkar af völdum haglabyssna og táragass
Alþjóðalög kveða á um að skotfæri, eins og gúmmíkúlur og haglaskot sem geta valdið dauðsfalli, séu aðeins notuð þegar líf eða líkamleg friðhelgi einstaklings er í hættu og á þann hátt að sem minnstur skaði hljótist af.
Amnesty International skráði hins vegar fjölda tilvika í Síle þar sem lögregla og her beittu slíkum skotfærum ítrekað og ótilhlýðilega á meðan á mótmælum stóð.
Amnesty International skráði með greiningu myndefnis eitt dauðsfall sem tengist beitingu á gúmmíkúlum og 14 tilfelli þar sem brotið er gegn líkamlegri friðhelgi fólks. Í sjö þessara tilfella var um óafturkræfan augnskaða að ræða.
Kevin Gómez lét lífið eftir að hafa verið skotinn með haglabyssu af hermanni í október 2019. Hann var einungis 24 ára gamall. Samkvæmt vitnum hóf hermaður fyrirvaralaust skothríð af stuttu færi á Kevin sem var óvopnaður.
Í öðru tilviki slasaðist 15 ára stúlka alvarlega þar sem hún var stödd á friðsömum mótmælum í nágrenni Cerrillos í Santiago þegar lögreglumaður skaut gúmmíkúlum úr lögreglubíl á ferð. Gúmmikúlurnar ollu skaða á sjón vinstra auga stúlkunnar ásamt áverkum á enni, öxl og hálsi.
Í enn öðru tilviki varð 24 ára ungur maður fyrir 18 gúmmíkúluskotum þegar hann tók upp á myndband aðgerðir lögreglunnar í höfuðborginni. Í myndbandinu má heyra unga manninn beita fortölum gegn lögreglumanni sem hafði ráðist á vin hans þegar annar lögreglumaður bregst við með því að skjóta á unga manninn af stuttu færi. Hann hlaut áverka á nefi, brjósti, báðum fótleggjum og alvarlegan skaða á auga.
Lögregla beitti einnig táragasi í miklu návígi. Lögreglumaður beindi táragasi að Nataliu Aravena, 24 ára, þegar hún tók þátt í friðsömum mótmælum með þeim afleiðingum að hún varð fyrir alvarlegum augnskaða á hægra auga.
Gustavo Gatica var meðal mannfjöldans á mótmælunum í nóvember 2019. Hann var skotinn í bæði augun og blindaðist varanlega. Árásin varð að forsíðufrétt víða um heim. „Ég gaf augu mín svo fólk gæti opnað augu sín,“ segir Gustavo. Nánar um ákall Amnesty International í máli hans má lesa hér.
Einnig hefur borið á beitingu reyksprengja gegn mótmælendum í Síle en þær eru hættulegar heilsu fólks og er beiting þeirra gegn mótmælendum með öllu ótilhlýðileg. Þann 14. nóvember 2019 beitti lögregla bæði öflugum vatnsbyssum og reyksprengjum gegn björgunarsveitarfólki og heilbrigðisstarfsfólki þegar það reyndi að koma slösuðum til bjargar.
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu