Þrátt fyrir löggjöf í Póllandi sem takmarkar tjáningarfrelsið, harðra löggæslu, eftirlit, linnulausa áreitni og lögsóknir, sem ógnar mjög réttinum til friðsamra mótmæla hefur almenningur flykst á götur úti til að krefjast breytinga.
Stjórnvöld í Póllandi hafa hert enn frekar kverkatakið á frelsi fólks til tjáningar og friðsamra mótmæla á tímum kórónuveirufaraldursins. Enda þótt ríki geti með lögmætum hætti sett takmarkanir á réttinn til að koma friðsamlega saman í þeim tilgangi að draga úr smithættu, þá verða allar takmarkanir á frelsi fólks að vera nauðsynlegar, lögmætar og hóflegar. Ekki ætti að setja blátt bann á samkomur eða mótmæli heldur ætti að meta hverja samkomu og mótmæli fyrir sig hvað takmarkanir varða og allar skerðingar verða að fylgja alþjóðlegum stöðlum mannréttindalaga þar sem tekið er mið af lögmætum lýðheilsumarkmiðum.
Kverkatakið hert á frelsi fólks á tímum kórónuveirufaraldursins
Algjört bann var sett á opinbera fundi og samkomur í Póllandi þann 2. maí 2020 sem hluti af aðgerðum stjórnvalda til að stemma stigu við kórónuveirufaraldrinum. Tilskipunin var fyrst kynnt til sögunnar af heilbrigðisráðherra þann 31. mars og síðar samþykkt af ráðherranefnd landsins. Slakað var á tilskipuninni þann 27. maí þegar ríkisstjórn landsins ákvað að leyfa samkomur og fundi þar sem 150 manns koma saman.
Frá því að pólsk stjórnvöld kynntu hertar aðgerðir til takmörkunar frelsi fólks vegna kórónuveirufaraldursins hefur Amnesty International skráð fjölda tilvika þar sem lögregla landsins hefur haft óhófleg afskipti af mótmælendum sem oft hefur leitt til mannréttindabrota.
Þann 6. maí 2020 sektaði lögregla friðsama mótmælendur um himinháar fjárhæðir fyrir að koma saman vegna fyrirhugaðra forsetakosninga. Þá henti hið sama aðra mótmælendur sem kröfðust óhæði dómstóla og vöntun á ríkisstuðningi til minni fyrirtækja í landinu sem berjast í bökkum vegna faraldursins.
Í einhverjum tilvikum notaðist lögregla við táragas til að dreifa mannsöfnuðinum og hundruð mótmælenda hafa verið verið handteknir fyrir að nýta sér rétt sinn til að koma friðsamlega saman.
Þann 6. maí var hópur aðgerðasinna handtekinn í Varsjá fyrir að færa auglýsingaskilti í tengslum við kosningarnar frá aðalpósthúsi borgarinnar yfir í þinghúsið. Lögregla krafði aðgerðasinnana um persónuskilríki og tveir þeirra voru síðar sektaðir um rúmlega 360.000 krónur fyrir að brjóta gegn sóttvarnarreglum og útgöngutakmörkunum. Aðgerðasinnarnir héldu því fram að þeir hefðu fylgt ítrustu fyrirmælum um hreinlæti og sóttvarnir m.a. með því að halda tveggja metra fjarlægð og hylja vit sín. Í framhaldi af áfrýjun málsins og sannana sem lagðar voru fram til stuðnings máli aðgerðasinnana um að hafa fylgt fyrirmælum stjórnvalda eftir var sektin dregin til baka.
Himinháar sektir gegn mótmælendum
Lögregla sektaði einnig fjölda aðgerðasinna sem mótmæltu vöntun á óhæði dómstóla í Póllandi.
Þann 13. maí stöðvaði lögregla aðgerðasinnann, Ewu þegar hún nálgaðist byggingu hæstaréttar ásamt vini sínum. Ewa tjáði Amnesty International að hún hafi virt tveggja metra regluna og að þau hafi bæði borið grímu um andlit sér og hanska. Þremur dögum síðar mætti lögregla heim til Ewu og afhenti henni formlega bréf frá Sanepid, stofnun á vegum stjórnvalda sem fylgir heilbrigðis- og hreinlætismálum eftir í tengslum við faraldurinn. Bréfið kvað á um sekt upp á rúmlega 400.000 íslenskar krónur.
Lögregla sektaði einnig hóp af friðsömum mótmælendum sem komu saman fyrir utan útvarpsstöðina Trójka þann 22. maí. Hópurinn mótmælti meintri ritskoðun á lagi sem kallast, Þinn sársauki er betri en minn, sem yfirvöld virðast líta á sem gagnrýni á leiðtoga og stofnanda þjóðernissinnaða stjórnarflokknum Lögum og rétti, Jarosław Kaczynski, sem heimsótti grafir ættingja sinna þvert á reglur um sóttvarnir í landinu.
Samkvæmt nýjum lagaheimildum sem komið var á í kjölfar kórónuveirufaraldursins er unnt að sekta mótmælendur um allt frá 180.000 íslenskra króna. til rúmlega 1 miljón króna.
Enda þótt stjórnvöldum sé heimilt samkvæmt alþjóðalögum að takmarka funda- og samkomufrelsi á tímum lýðheilsuógnar verða allar takmarkanir á frelsi fólks að vera nauðsynlegar og hóflegar. Þær verða líka að vera síðasta úrræðið sem gripið er til eða þegar allar aðrar leiðir hafa verið reyndar.
Þegar um friðsöm mótmæli ræðir verður þátttakendum að vera gefin kostur á að dreifast sjálfviljugt og lögregla verður að leita allra leiða til að beita ekki ofbeldi gegn mótmælendum.
Ívilnanir gagnvart stuðningsfólki stjórnvalda
Í apríl 2017 voru gerðar breytingar á samkomulögum í landinu sem settu bann á gagnmótmæli í Varsjá, nærri þar sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar komu saman og héldu fundi. Lögin veita stuðningsfólki ríkisstjórnarinnar reglulegt aðgengi að opinberu rými nálægt forsetahöllinni.
Frá apríl 2017 til mars 2018 bannaði ríkisstjóri Mazowian-héraðs 36 samkomufundi í Varsjá. Árið 2017 tók dómstóll í Varsjá við 632 málum gegn einstaklingum sem tekið höfðu þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum en þeim var gefið að sök að hafa brotið gegn samkomubanni í landinu.
Pólsk stjórnvöld veita oft stuðningsfólki sínu og þjóðernissinnum ívílnanir frá samkomubanninu. Sá forgangur sem stuðningsfólk stjórnvalda fær sést best á því hvernig löggæslu er háttað í kröfugöngunum, þar sem ofbeldi og áreitni er látið hjá líðast þegar öfgahægrihópar eða þjóðernissinnar sem eru hliðhollir stjórnvöldum ráðast gegn þeim sem mótmæla stefnu stjórnvalda. Friðsömum mótmælendum sem bjóða stjórnvöldum birginn er oftast mætt með vopnavaldi af hálfu lögreglu og sæta jafnan málsókn.
Banni við þungunarrofi mótmælt
Stjórnvöld í Póllandi lögðu fram frumvarp árið 2016 um að banna þungunarrof undir öllum kringumstæðum. Frumvarpinu var hafnað í kjölfar mikilla mótmæla í Póllandi og heim allan.
Þrengt var að aðgengi að þungunarrofi í Póllandi þegar stjórnlagadómstóll úrskurðaði þann 22.október 2020 að þungunarrof vegna alvarlegs fósturgalla bryti gegn stjórnarskránni. Lögin um þungunarrof í Póllandi eru ein þau ströngustu í Evrópu. Eftir úrskurðinn varð þungunarrof eingöngu leyfilegt þegar þungun er afleiðing nauðgunar eða heilsa og líf móður er í hættu. Talið er að a.m.k. 100 þúsund konur fari í þungunarrof erlendis á hverju ári. Þar sem stjórnvöld hafa frá árinu 2015 dregið úr sjálfstæði stjórnlagadómstólsins þá er þetta enn ein tilraun stjórnvalda til að banna þungunarrof.
Hundruð þúsunda flykktust út á götur í Póllandi til að mótmæla úrskurðinum og skora á stjórnvöld að virða kyn- og frjósemisréttindi. Eftir því sem leið á mótmælin var einnig krafist efnahagslegra og félagslegra umbóta.
Lögregla beitti óhóflegu valdi gegn mótmælendum, margir sættu geðþóttahandtökum, og ólögmætri ákæru.
Samhliða herðingu laga sem hefur áhrif á réttinn til fundafrelsis í Póllandi hafa stjórnvöld aukið til muna vald löggæslunnar til að stunda eftirlit með borgurum með breytingum á lögum um löggæslu. Umfang lögreglu til að stunda eftirlit, án nægilegra varnagla eða öyrggisráðstafanna, hefur aukist mjög þar sem hún hefur nú umboð til að fylgjast með borgurum án tengingar við glæparannsókn.
Amnesty International hafa sönnur fyrir misbeitingu gegn einstaklingum sem tóku þátt í að skipuleggja eða áttu hlutdeild í friðsömum mótmælum.
Mótmælendur voru ekki aðeins beittir hörku í lögregluaðgerðum heldur einnig fjölmiðlafólk og aðrir sjónarvottar. Þann 11. nóvember 2020 áttu sér stað skipulögð mótmæli í Varsjá og þegar þeim var formlega lokið seinni part dags var hópur mótmælenda enn saman kominn. Lögregla beitti óhóflegu valdi gegn hópnum og einnig gegn fjölmiðlafólki sem var á staðnum til að skrásetja atburðina. Á myndbandsupptöku sést blaðakona, sem gekk með hjálm á höfði sem var sýnilega merktur „PRESS“, hlaupa á undan lögreglu og falla á jörðina. Lögreglumaður barði hana með kylfu þegar hún liggur á jörðinni og skilur hana eftir í sárum sínum. Það er grimmileg, ómannleg og niðurlægjandi meðferð að berja varnarlausan einstakling.
Hópur mótmælenda gegn þungunarrofsbanninu, konur í verkfalli, kom saman fyrir utan ríkissjónvarpsstöð í Varsjá þann 18. nóvember 2020 til að mótmæla umfjöllun sem hópurinn áleit vera rógsherferð gegn mótmælendum. Á myndbandsupptöku sem náðist af mótmælunum sést að lögregla beitti óhóflegri hörku gegn friðsömum mótmælendum og spreyjaði piparúða í andlit þeirra. Samkvæmt alþjóðalögum má aðeins beita piparúða til að stöðva ofbeldisverk en ekki til að spreyja tilviljunarkennt á hóp fólks. Þrettán mótmælendur voru handteknir á þessum mótmælum.
Einstaklingsmál
Aðgerðasinninn Katarzyna Augustynek, sem tilheyrir hópi aðgerðasinna sem er oft nefndur „pólsku ömmurnar“, var handtekin þann 10. nóvember 2020 þegar hún mótmælti friðsamlega í Varsjá. Í myndbandi sem er aðgengilegt á Facebook sést Kataryna ræða við þrjá lögreglumenn þegar sá fjórði kemur að og þeir umkringja hana. Hún neitar að sýna skilríki sín þar sem lögreglan var ekki með lagalegan grundvöll fyrir því að krefja hana um auðkenni. Þegar lögreglubíll kom á staðinn og lögregla gerði tilraun til að handtaka hana, án þess að gefa upp lagalegar heimildir fyrir handtökunni, streittist Kataryna á móti og lagðist á gangstéttina. Hún var færð á lögreglustöð í miðborg Varsjá og ákærð fyrir að „brjóta gegn líkamlegri friðhelgi lögreglumanns á vakt“. Samkvæmt pólskum lögum getur refsing allt að þremur árum legið við þessu broti. Samkvæmt gögnum Amnesty International er ákæran gegn Katarynu tilhæfulaus.
Að kvöldi dags þann 9. nóvember sætti Gabriela Lazarak, þekktur aðgerðasinni, ofbeldisfullri handtöku þegar hún tók þátt í friðsömum mótmælum. Lögregla hafði komið sér fyrir og hefti leið fólks m.a. konu sem var ekki þátttakandi í mótmælunum og vildi komast leiðar sinnar. Gabriela skarst í leikinn og spurði lögreglumann af hverju konan fengi ekki leyfi til að komast leiðar sinnar. Gabriela hafði eingöngu skipst á orðum við lögreglumann þegar annar koma aðsvífandi, greip um handlegg hennar, fleygði henni á jörðina og síðan farið með hana á lögreglustöð. Gabriela sætti yfirheyrslu í þrjár klukkustundir þar sem hún var í handjárnum allan tímann og fékk ekki aðgang að lögfræðingi. Hún þurfti að dúsa í varðhaldi yfir nótt. Gabriela var ákærð í kjölfarið fyrir „að hafa með ólögmætum hætti haft áhrif á aðgerðir yfirvalda með hótunum eða valdbeitingu“ sem er refsivert með allt að þriggja ára fangelsisdómi og að „móðga opinberan starfsmann“.
Óhæði dómstóla í hættu
Lengst af vörðu dómsstólar landsins réttinn til tjáningar- og fundafrelsis en breytingar sem áttu sér stað á óhæði dómsstólanna árið 2017 gerðu þá veika fyrir pólitískum áhrifum og valdi. Dómarar og saksóknarar sem reynt hafa að verja sjálfstæði og óhæði dómkerfisins hafa sætt alvarlegum hótunum og árásum bæði á netinu og í vinnu sinni.
Í skýrslu Amnesty International, Poland: Free Courts, Free People sem kom út árið 2019 kemur fram að allt frá árinu 2015 hafa pólsk stjórnvöld jafn og þétt kynnt til sögunnar aðgerðir sem grafa undan sjálfstæði dómstóla. Þetta hefur m.a. falið í sér pólitískar ráðningar í dómarasæti, þar sem dómsmálaráðherra er einráður um að skipa og reka forseta og varaforseta dómsstóla og neyða dómara hæstaréttar til að fara á eftirlaun. Þá hefur ríkisstjórnin einnig misbeitt rannsóknum á agamálum gegn dómurum og notað slíkar rannsóknir sem nornaveiðar gegn þeim dómurum sem hafa talað gegn svokölluðum „umbótum“ stjórnvalda.
Waldemar Żurek, er einn þeirra dómara sem sætt hefur ógnunum og árásum stjórnvalda í nokkur ár í kjölfar þess að gagnrýna opinberlega „umbætur“ stjórnvalda. Żurek hefur sætt ólögmætum rannsóknum á agabrotum og fjölskylda hans hefur einnig verið skotmark yfirvalda og sætt annars konar rannsóknum. Honum hefur borist haturspóstur, ógnandi og dónaleg smáskilaboð og hann sætt rógsherferð í ríkissjónvarpi landsins.
Amnesty International ræddi einnig við dómara sem höfðu sætt misbeitingu stjórnvalda í kjölfar úrskurða sem þeir felldu í þágu friðsamra mótmælenda.
Kona nokkur tjáði sig um herferð stjórnvalda gegn réttindum kvenna í landinu og sjálfstæði dómstóla, í kröfugöngu sem hún sótti þar sem hún notaði blótsyrði til að lýsa ástandinu og var í kjölfarið ákærð fyrir að nota „móðgandi orð“ opinberlega. Dómarinn Sławomir Jęksa úrskurðaði að konan hafi ekki framið neinn glæp þar sem hún hafi tjáð sig í kröfugöngu þar sem tjáningarfrelsið er „að sjálfsögðu víðtækara“. Strax í kjölfarið hóf saksóknari í agamálum landsins formlega rannsókn gegn Sławomir Jęksa þar sem því var haldið fram að úrskurður dómarans hafi verið af pólitískum toga.
„Það er mjög erfitt að vinna við þessar aðstæður. Ég get ekki barist við allt kerfið. Ég veit ekki hvenær, hvaðan og frá hverjum ég fæ höggið.“
Dómarinn Dominik Czeszkiewicz, sem einnig varði rétt friðsamra mótmæla í dómsúrskurði og sætti agarannsókn.
Aðgerðir pólskra stjórnvalda gegn dómskerfinu hefur einnig alvarleg áhrif á dómsúrskurði gagnvart almenningi. 19 ára pólskur nemi var til að mynda handtekinn í kjölfar þess að spyrja lögreglumann að nafni, stöðu og ástæðu þess að lögreglumaðurinn bað mótmælendur að sýna persónuskilríki sín í kröfugöngu sem fór fram í Varsjá í mars 2018. Neminn sætti í framhaldinu umdeildri ákæru fyrir meinta árás á lögreglumanninn en nemandinn óttaðist mjög að sæta ósanngjörnum réttarhöldum þar sem dómskerfið í Póllandi er ekki lengur óháð.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu