Allt frá tímum Sovétríkjanna hafa rússneskir borgarar ekki getað nýtt sér að fullu frelsi til tjáningar eða funda- og félagafrelsi og hefur það reynst gagnrýnendum stjórnvalda sérstaklega skeinuhætt.
Með falli Sovétríkjanna og Perestrojku Gorbatsjovs var gerð tilraun til að auka frelsi fjölmiðla en ný fjölmiðlalög tóku gildi árið 1990. Þau gengu m.a. annars út að leggja bann við ritskoðun og tryggja átti réttinn til tjáningarfrelsis og upplýsinga. Þetta gekk þó aðeins upp að hluta því ný stofnun GUOT hóf starfsemi sama ár og lögin tóku gildi og hóf hún starfssemi sína með því að gefa út lista yfir efni sem var bannað að gefa út.
Allt frá því að Vladimir Pútin tók aftur við forsetastólnum árið 2012 hefur enn frekari aðför verið gerð að tjáningarfrelsinu. Óháð félagasamtök, gagnrýnir fjölmiðlar og mótmælendur hafa borið hitann og þungann af árásum á grundvallarfrelsi einstaklinga, sem stjórnvöld hafa réttlætt undir því yfirskini að ákveðnir hópar samfélagsins grafi undan hagsæld og stöðugleika ríkisins. Breytingar sem gerðar voru á lögum í landinu árið 2002 um öfgasinnað framferði víkkaði til muna skilgreininguna á því og gerði opinbera réttlætingu á hryðjuverkum og rógburð gegn stjórnvöldum refsiverð. Sömu lög gera stjórnvöldum kleift að þagga niður þær fréttir sem eru í þeirra óþökk.
Fjöldi fjölmiðlafólks myrt
Fjölmiðlafólk sem viðrað hefur gagnrýni á rússnesk stjórnvöld hafa um áratugaskeið sætt árásum, fangavist og jafnvel morðum. Langmestur hluti þessara morðmála er enn óleystur.
Á tímabilinu 1992 til 2008 er talið að 47 blaðamenn hafi verið myrtir í Rússlandi eingöngu fyrir störf sín.
Frægasta dæmið um ofsóknir gegn blaðafólki er morðið á blaðakonunni Önnu Politkovskaju sem starfaði hjá blaðinu Novaya Gazeta og var m.a. harður gagnrýndi stefnu Pútíns í Tétsníu og þau mannréttindabrot sem þar voru framin. Hún var skotin til bana fyrir utan heimili sitt í Moskvu í október árið 2006 en allar líkur eru á að hún hafi verið myrt vegna skrifa sinna. Hún hafði einnig fjallað ötullega um ofbeldi innan hersins, spillingu stjórnvalda og lögregluofbeldi. Árið 2018 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp þann úrskurð að rússnesk stjórnvöld hefðu ekki rannsakað morðið á Önnu Politkovskyu nægilega vel og ekki reynt að komast í botn í því hver fyrirskipaði skotárásina. Þá hafa nokkrir aðrir blaðamenn Novaya Gazeta einnig verið myrtir á undanförnum árum og aðrir særst eða sætt ógnunum.
Mannréttindafrömuðurinn Natalia Estemirova, sem skrifaði fyrir fréttavefinn Caucasus Knot, var þvinguð upp í sendibíl í Tétsníu og myrt þann 15. júlí 2009. Hún var tvívegis skotin í höfuðið.
Í júní 2012 var að sögn blaðamaðurinn Sergei Sokolov sem starfar hjá Novaya Gazeta fluttur í leyni á skógarsvæði og hótað af Aleksandr Bastrykin, formanni aðalrannsóknarnefndar Rússlands, sem gegnir því hlutverki að rannsaka „alvarlega” glæpi í landinu. Bastrykin, játaði síðar að hafa „átt spjall“ við blaðamanninn og baðst opinberlega afsökunar sem varð til þess að málið var látið niður falla.
Blaðakonan Svetlana Prokopyeva var ákærð fyrir „réttlætingu á hryðjuverkum“ vegna ummæla sinna í þætti á útvarpsstöð í Pskov í norðvesturhluta Rússlands í nóvember 2018. Hún kann að eiga allt að sjö ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Svetlana gagnrýndi stjórnvöld í útvarpsþætti og tjáði skoðun sína á því hvers vegna ungt fólk í landinu væri orðið róttækara.
Þann 12. nóvember 2019 dæmdi herdómstóll mannréttindafrömuðinn Emir-Usein Kuku, sem tilheyrir tyrkneskum þjóðernishóp á Krímskaga, og fimm aðra í sjö til nítján ára fangelsi fyrir upplognar sakir. Emir-Usein Kuku er nafntogaðasti mannréttindafrömuðurinn sem tilheyrir umræddum þjóðernishópi en hann hefur sætt fjölda árása og fjölskylda hans hefur einnig sætt hótunum. Hann var handtekinn í febrúar 2016 og ákærður fyrir „að skipuleggja aðgerðir á vegum hryðjuverkahóps“ vegna meintra tengsla sinn við Hizb ut Tahrir, íslamska hreyfingu sem er bönnuð í Rússlandi en leyfileg í Úkraínu. Emir-Usein Kuku hefur alla tíð neitað aðild sinni að hreyfingunni. Þegar rannsókn yfirvalda í Rússlandi lauk í desember 2017 var Emir og hinir sakborningarnir fluttir frá hernumdum Krímskaga til borgarinnar Rostov-on-Don í Rússlandi, þvert á alþjóðleg mannréttindalög.
Brotið hefur verið á rétti þeirra félaga til sanngjarnra réttarhalda þar sem þeir hafa þurft að koma fyrir herrétt. Þeir eru allir samviskufangar.
Sækja harðar að fjölmiðla- og upplýsingafrelsi
Síðustu árin hafa rússnesk stjórnvöld sótt enn harðar að fjölmiðla- og upplýsingafrelsi í landinu en langflestum fjölmiðlum landsins er stýrt af ríkisvaldinu og eru miðlarnir nýttir í rógsherferð gegn mannréttindafrömuðum, stjórnarandstæðingum og öðrum gagnrýnisröddum. Sjálfstæðir fjölmiðlar hafa ekki mikla útbreiðslu og hart er sótt að þeim af stjórnvöldum. Vítt og breitt um landið sæta pólitískir aðgerðasinnar, rannsóknarblaðafólk og leiðtogar mótmæla, árásum, stjórnsýslu- og refsimeðferðum, auk þess að mæta ofbeldi af hálfu stuðningsmanna stjórnvalda og óþekktum aðilum sem taldir eru heyra til öryggissveita ríkisins eða annarra í vitorði við þær.
Sjálfsritskoðun er mjög útbreidd á helstu fjölmiðlum landsins og jafnvel þó að ritstjórnarstefna þeirra sé að nafninu til frjáls þá birta fjölmiðlar yfirleitt aldrei fréttir eða sjónarmið sem eru óvilhöll stjórnvöldum.
Þá hefur fjöldi nýrra laga verið hraðað í gegnum þingið til að tryggja stjórnvöldum eftirlit með upplýsingum á netinu og völd til að takmarka þær, auk þess að stýra tjáningu á netinu.
Rússnesk stjórnvöld hafa bannað nafnhylma á netinu og (vefgátt á netinu sem gerir notanda kleift að vitja vefseturs án þess að fylgst sé með honum), ásamt öðrum takmarkandi aðgerðum.
Þá samþykkti forseti landsins, Skipulagsáætlun fyrir upplýsingasamfélagið fyrir tímabilið 2017 til 2030 sem tilgreinir „forgang hefðbundinna, íhaldsamra, rússneskra trúar- og siðferðislegra gilda“ í allri notkun upplýsinga- og samskiptatækni.
Aðgengi að netinu heft
Lög um „upplýsingar, upplýsingatækni og verndun upplýsinga”, voru samþykkt í desember 2013, án mikillar umræðu á þinginu og tóku gildi 1. febrúar 2014. Þau veita skrifstofu saksóknara völd til að hefta aðgang að vefsíðum á netinu fyrir tilstilli beinna tilmæla frá Roskomnadzor, ríkisrekinni stofnun sem sinnir eftirliti með fjölmiðlum landsins þegar stofnunin hefur úrskurðað að tilteknar vefsíður hvetji til fjöldaóeirða, öfgafullra aðgerða eða óleyfilegra, opinberra funda.
Í maí 2014 voru frekari lög kynnt til sögunnar í Rússlandi sem gera samfélagsmiðla einnig að skotmarki. Lögin krefjast skráningar allra vefsíðna, sem fá fleiri en 3000 heimsóknir á dag, hjá Roskomnadzor og eru bundnar sömu reglugerðum og hefðbundnir fjölmiðlar. Vinsælir bloggarar í landinu verða að birta nafn, auk ærumeiðinga sem kunna að hljótast af athugasemdum sem birtast frá lesendum síðunnar. Harðar refsingar liggja við brotum á þessum reglum eða sekt allt að tveimur milljónum íslenskra króna og 30 daga stöðvun á öllum bloggskrifum.
Löggjöf um erlenda erindreka
Árið 2012 var löggjöf um „erlenda erindreka“ flýtt í gegnum rússneska þingið. Frjáls félagasamtök, þeirra á meðal mannréttindasamtök, eru skráð sem „erlendir erindrekar” og eru undir auknu eftirliti vegna laganna. Fjölmörg samtök hafa lagt upp laupana vegna þessa. Talið er að a.m.k 79 félög séu á lista sem erlendir erindrekar en í huga margra Rússa þýðir „erlendur erindreki“ njósnari eða jafnvel svikari. Baráttusamtök fyrir réttindum hinsegin fólks, önnur mannréttindasamtök, umhverfisverndarsamtök og stofnanir sem rannsaka kynjajafnrétti og kosningahegðun eru á þessum lista. Félögum sem eru skráð á þennan hátt ber að merkja allt efni sem þau senda frá sér þannig að skýrt komi fram að þau séu skráð sem erlendur erindreki.
Í nóvember 2017 voru ný lög samþykkt með hraði sem gáfu yfirvöldum vald til að setja fjölmiðla sem skráðir voru erlendis og þáðu erlenda styrki á lista yfir „erlenda erindreka“ en það kastar mikilli rýrð á starfssemi þeirra og setur þeim mjög stranga skilmála um fréttaveitu. Blaðamenn og aðrir sem starfa innan fjölmiðla sem brennimerktir hafa verið sem „erlendir erindrekar“ og fylgja ekki lögunum eiga á hættu að sæta himinháum sektum eða fangavistun allt að tveimur árum.
Í lok árs 2019 var enn önnur löggjöfin kynnt í Rússland sem útvíkkar frekar skilgreininguna á „erlendum erindrekum“ þannig að hún nái einnig yfir einstaklinga sem dreifa upplýsingum til ótiltekins fjölda fólks og hljóta erlenda styrki. Þessi skilgreining, eðli sínu samkvæmt, nær til bloggara og sjálfstætt starfandi blaðafólks sem er skylt að skrá sig hjá dómsmálaráðuneyti landsins og merkja allar upplýsingar sem þau birta undir „erlenda erindreka“. Blaðafólk sem á í samstarfi við erlendar fréttaveitur hefur orðið fyrir hvað verstum áhrifum af þessum lögum.
Þetta síðasta útspil rússneskra stjórnvalda er enn ein tilraunin til að reka síðasta naglann í málfrelsi í landinu og þagga niður í öllum gagnrýnisröddum.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu