Frelsi til að kalla eftir breytingum og magna slíkt ákall í fjöldahreyfingu er mikilvægt í opnu, lýðræðislegu og réttindamiðuðu samfélagi. Mótmæli gera fólki kleift að tjá skoðanir sínar, krefjast samfélagsumbóta, benda á misrétti, krefjast réttlætis vegna mannréttindabrota og kalla eftir ábyrgðarskyldu stjórnvalda.
Fyrir tilstilli mótmæla getur fólk sem sætt hefur þöggun eða valdníðslu endurheimt rödd sína, styrk og pólitískt vald. Mótmæli skapa einnig tækifæri til að verja og styðja við réttindi annarra.
Þannig hefur rétturinn til að mótmæla um langa hríð verið mikilvægt vopn í mannréttindabaráttunni og leitt af sér stórkostlegar umbætur, ýmist í þágu tiltekinna hópa samfélagsins eða þjóðfélagsins í heild sinni.
Árangur mótmæla
Átta stunda vinnudagur eru réttindi sem áunnist hafa víða um heim vegna mótmælaaðgerða til margra ára þar sem talað var gegn erfiðum vinnuaðstæðum. Í byrjun 20. aldar voru konur ekki komnar með kosningarétt en í kjölfar ótalmargra kröfugangna eru konur nú með kosningarétt í nánast öllum ríkjum heims þar sem kosningar fara fram.
Á Íslandi lögðu 90% kvenna niður störf sín í október 1975 og fóru í verkfall til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og til að krefjast sömu réttinda og launakjara og karlmenn. Talið er að 25.000 konur hafi safnast saman á útifundi á Lækjartorgi og atvinnulífið á Íslandi stöðvaðist. Konur sinntu ekki heimilisstörfum, barnauppeldi eða launuðum störfum á meðan á verkfalli þeirra stóð. Ári síðar samþykkti Alþingi jafnréttislög í þeim tilgangi að tryggja jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.
Má takmarka réttinn til að mótmæla?
Mótmæli tengjast sterklega réttinum til tjáningar þar sem þeim er ætlað koma tilteknum skilaboðum á framfæri. Tjáningarfrelsið tryggir að fólk geti haft sannfæringu og skoðun og tjáð hana án þvingana eða ólögmætra afskipta ríkisvaldsins eða þriðja aðila. Án möguleikans á koma saman kunna skoðanir fólks að missa það vogarafl sem býr í samtakamættinum og ná síður til eyrna valdhafa.
Rétturinn til að mótmæla er ekki skilgreindur með beinum hætti í alþjóðalögum en hann nýtur samt sem áður verndar og er tryggður á grundvelli annarra mannréttinda, einkum funda- og tjáningarfrelsis.
Rétturinn til friðsamra fundahalda tryggir rétt einstaklinga til að koma saman, tímabundið og í ákveðnum tilgangi, hvort sem um ræðir á opinberum eða einkavettvangi.
Slíkar samkomur fela m.a. í sér:
Stjórnvöld hafa lítið svigrúm til að réttlæta takmarkanir á réttinum til að mótmæla. Samkvæmt alþjóðasamningi um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi verða allar takmarkanir á réttinum til að mótmæla að uppfylla þrjú skilyrði: þær verða á byggja á lögum, þjóna lögmætu markmiði og vera nauðsynlegar og hóflegar. Lögmæt markmið til að takmarka réttinn til mótmæla eru á grundvelli þjóðaröryggis, í þágu almannaheilla, allsherjarreglu, til verndar lýðheilsu fólks, siðgæðis eða til að verja réttindi og frelsi annarra.
Skýrt dæmi um takmarkanir á þessum rétti sem kunna að vera réttmætar tengjast kórónuveirufaraldrinum. En jafnvel þegar faraldur geisar verða allar takmarkanir á réttinum til að mótmæla að uppfylla fyrrgreindu skilyrðin þrjú. Sóttvarnaraðgerðir og lokanir sem takmarka rétt okkar til friðsamra fundahalda kunna að vera nauðsynlegar til að tryggja lýðheilsu og öryggi fólks, og réttinn til heilsu. Takmarkanir á samkomum verða ávallt að fylgja öðrum lögum. Ef fundafrelsið skerðist það mikið án þess að það verndi nægilega heilsu okkar og öruggi þá er ekki verið að gæta meðalhófs. Takmarkanir mega aldrei ganga svo langt að þær taki í raun burt réttinn sem verið er að takmarka.
Einungis má setja funda- og tjáningarfrelsi skorður samkvæmt alþjóðalögum þegar hvatt eða kynt er undir hatri, ofbeldi eða mismunun. Í 2. mgr. 20. gr. samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (SBSR) stendur eftirfarandi um hatursorðræðu: „[Allur] málflutningur til stuðnings haturs af þjóðernis-, kynþáttar- eða trúarbragðalegum toga spunnið sem felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap eða ofbeldi [skuli] bannaður með lögum.“ Tjáning sem er móðgandi, hneykslanleg, truflandi eða umdeilanleg nýtur hins vegar verndar samkvæmt alþjóðalögum.
Skipulagning og þátttaka í mótmælum
Ekki þarf fyrirfram gefna leyfisveitingu frá stjórnvöldum því skipulagning og þátttaka í mótmælum er réttur en ekki forréttindi. Mótmæli sem eru viðbrögð við atviki eða tíðindum og gerast án fyrirvara og skipulagningar, eru leyfileg.
Yfirvöld geta með réttu kallað eftir tilkynningu um mótmæli ef tilgangurinn er sá að löggæslan geti undirbúið sig við að greiða fyrir þeim og tryggja að þau geti farið fram, eins og þeim ber skylda til. Tilkynning er hins vegar ekki það sama og að leita leyfis. Tilkynning til yfirvalda felst aðeins í því að gefa þeim fyrirvara og upplýsa þau um hvar og hvenær mótmælin fara fram.
Ef landslög fela í sér kröfu um að leita leyfis stjórnvalda fyrir mótmælum eru þau ósamræmanleg alþjóðlegum mannréttindalögum og viðmiðum.
Rétturinn til að mótmæla á stafrænum vettvangi
Netið gegnir mikilvægu hlutverki við að boða fólk á mótmæli og getur einnig verið vettvangur fyrir fjöldafundi. Færast er í vöxt að mótmæli, samstöðuaðgerðir og kröfuaðgerðir fari rafrænt fram.
Árið 2013 samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna ályktun sem leggur áherslu á skyldur ríkja „að virða og vernda að fullu rétt allra til að koma saman með friðsamlegum hætti, hvort sem að er í raunheimum eða netheimum“.
Stafrænar lausnir og netheimar gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að skipulagningu, utanumhaldi og valdeflingu í tengslum við mótmæli. Dulkóðunartækni, dulnefni og annars konar stafræn öryggisatriði valdefla einstaklinga og gerir þeim kleift að tengjast og koma saman án ótilhlýðilegra afskipta stjórnvalda.
Þessar öflugu stafrænu lausnir hafa ekki farið fram hjá ríkisstjórnum heims sem kappkosta margar hverjar að takmarka málfrelsi og mótmælaaðgerðir. Aðgerðum eins og eftirliti, netlokunum og ritskoðun er ætlað að ná stjórn á netheimum og safna upplýsingum um aðgerðasinna.
Þegar mótmæli fóru fram í Hvíta-Rússlandi árið 2020 kom í ljós að símafyrirtæki í landinu höfðu lokað á aðgang að netinu á farsímum að fyrirskipun stjórnvalda. Mótmælendur greindu frá því að þeir hefðu engin tækifæri á að skrásetja og deila upplýsingum með heimsbyggðinni um það sem þeir sáu og upplifðu á staðnum. Þetta ástand leiddi til víðtæks lögregluofbeldis og geðþóttahandtakna og gerði þeim aðilum sem fylgdust með mannréttindum ómögulegt að greina nákvæmlega frá aðstæðum.
Egypsk stjórnvöld hafa óspart beitt lokunum á netinu til að hindra frjálst flæði upplýsinga á umbrotatímum. Á mótmælum árið 2011 sem miðuðu að stjórnarumbótum var lokað á aðgang að netinu og öðrum fjarskiptabúnaði í Egyptalandi í fimm daga á meðan áróðursefni til stuðnings stjórnvöldum var komið á framfæri. Svipuðum takmörkunum var komið á í tengslum við mótmæli árið 2019 og 2020 þegar lokað var á WhatsApp og Signal.
Eftirlit
Enda þótt internetið og önnur skyld tæknivæðing hafi skapað nýtt svigrúm fyrir einstaklinga til að eiga í samskiptum og virkja samstöðumáttinn er netið einnig hluti af einni stærstu „njósnavél sem heimurinn hefur kynnst.“
Ríki, fyrirtæki og aðrir aðilar, hafa getu og burði til að fylgjast með og safna upplýsingum um samkomur félagasamtaka og einstaklinga á heimsvísu. Það grefur ekki aðeins undan rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs, tjáningar- og friðsamra fundahalda heldur jafnframt undan trausti einstaklinga og félagasamtaka til að nýta sér stafræna tækni til að berjast fyrir mannréttindum.
Með auknum tækniframförum fjölgar þeim tilfellum ört þar sem fjöldaeftirliti er beitt með notkun á drónum, eftirlits- og líkamsmyndavélum og öðrum tæknibúnaði. Gögnum sem safnað er saman fyrir tilstilli þessarra tækninýjunga er hægt að beita til að auðkenna mótmælendur af handhófi en það brýtur gegn rétti þeirra til friðhelgi einkalífs. Fjöldaeftirlit fælir fólk oft frá þátttöku í mótmælum og er oft notað í þeim tilgangi af yfirvöldum.
Þegar „Black Lives Matter“ mótmælin fóru fram árið 2020, vítt og breitt um Bandaríkin, var sérstakri tækni beitt til að auðkenna andlit og safna saman upplýsingum um mótmælendur án þeirra samþykkis.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu