Ísland

Bregðist við stigvaxandi mannréttindakrísu í Afganistan og standið við gefin loforð

Frá yfir­töku í Afgan­istan þann 15. ágúst hafa talibanar lofað umbótum frá fyrri stjórn­artíð sinni og sagst ætla að vernda kven­rétt­indi og tján­ing­ar­frelsið. Annað hefur hins vegar bersýni­lega komið í ljós og eru loforðin því innantóm. Íslands­deild Amnesty Internati­onal kallar eftir að íslensk stjórn­völd veki athygli á ástandinu í Afgan­istan hvar sem tæki­færi gefst, beiti sér fyrir að komið verði á fót sjálf­stæðri rann­sókn­ar­sendi­nefnd (e. Fact Finding Mission) og standi við gefin loforð um móttöku afgansks flótta­fólks á Íslandi.

Nýleg rann­sókn­ar­skýrsla Amnesty Internati­onal, Alþjóða­mann­rétt­inda­sam­tak­anna (Internati­onal Federation for Human Rights) og Alþjóða­stofnun gegn pynd­ingum (World Organ­isation against Torture) varpar ljósi á nauðsyn öflugra alþjóð­legra aðgerða til að koma í veg fyrir mann­rétt­inda­brot talibana.

Skýrslan inni­heldur skráð tilvik um mann­rétt­inda­brot talibana víðs vegar um landið frá yfir­töku þeirra, þ.á.m. mann­dráp, pynd­ingar, barsmíðar og hótanir um hefndarað­gerðir gegn fjöl­miðla­fólki, fyrrum opin­beru starfs­fólki, mann­rétt­inda­fröm­uðum sem og kynbundnar árásir á baráttu­konur, dómara og saksóknara. Fjöl­miðla­fólk verður fyrir miklum þrýst­ingi og á erfitt með að sinna starfi sínu þar sem það sætir geðþótta­hand­tökum, gæslu­varð­haldi, illri meðferð og endur­teknum húsleitum.

Mann­rétt­inda­fröm­uðir eru í felum og óttast um líf sitt og fjöl­skyldna sinna. Þeir horfa niður­brotnir uppá fram­far­irnar sem þeir hafa barist fyrir undan­farin 20 ár brotnar á bak aftur og sumir þeirra hafa þegar orðið fyrir hefndarað­gerðum. Talibanar hafa brotið mótmæli á bak aftur með svo grimmum hætti að mótmæl­endur hafa hlotið skaða af og jafnvel látið lífið.

Þörf er á víðtækum, alþjóð­legum og öflugum aðgerðum til að berjast gegn grófum og kerf­is­bundnum mann­rétt­inda­brotum sem eiga sér nú stað í auknum mæli í Afgan­istan eftir yfir­töku talibana. Íslensk stjórn­völd brugðust kröft­ug­lega við í orði en betur má ef duga skal.

Skrifaðu undir ákall um að íslensk stjórn­völd standi við gefin loforð um móttöku flótta­fólks frá Afgan­istan og beiti sér fyrir öflugum alþjóð­legum aðgerðum án frekari tafa.

Frétt um mann­rétt­inda­brot í Afgan­istan

Mynd frá Getty Images

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Maldíveyjar

Aðgerðasinni dæmdur í fangelsi fyrir guðlast

Mohamed Rusthum Mujuthaba, 39 ára aðgerða- og friðarsinni, á yfir höfði sér fimm mánaða fangelsi fyrir guðlast. Hann var í haldi í meira en sex mánuði áður en hann fór fyrir dóm. Stjórnvöld verða að fella niður ákærur gegn honum. Skrifaðu undir ákall um að ákærur gegn Mohamed verði felldar niður strax.

Katar

Krefjumst þess að FIFA gefi Katar rauða spjaldið fyrir misbeitingu farandverkafólks

Fyrir tilstuðlan farandverkafólks getur draumur Katar um að halda heimsmeistaramótið í fótbolta orðið að veruleika. FIFA ber skylda til að bregðast við og nota áhrif sín til að hvetja Katar til að vernda farandverkafólk. Þrátt fyrir að einhver árangur hefur náðst er enn langt í land. Krefjumst þess að FIFA gefi Katar rauða spjaldið fyrir misbeitingu farandsverkafólks!

Rússland

Listakona á yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm vegna hernaðarandstöðu

Listakonan Aleksandra Skochilenko var handtekin í Rússlandi og er sökuð um að hafa skipt út verðmiðum fyrir upplýsingar gegn stríðinu og slagorðum í stórmarkaði í Sankti Pétursborg. Hún var ákærð fyrir að „dreifa vísvitandi röngum upplýsingum um framgöngu rússneska hersins“ og á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi verði hún fundin sek. Aleksandra Skochilenko er með alvarlegan heilsufarsvanda og gæsluvarðhald þar sem hún fær ekki viðeigandi mataræði eða læknishjálp stofnar heilsu hennar í hættu. Gríptu til aðgerða eins fljótt og auðið er, eða til 1. júní 2022.

Sádi-Arabía

Stöðvið yfirvofandi aftökur á tveimur mönnum frá Barein

Jaafar Mohammad Sultan og Sadeq Majeed Thamer eiga yfir höfði sér aftökur. Sérstaki sakamáladómstóllinn dæmdi þá til dauða í október 2021 eftir afar ósanngjörn réttarhöld vegna hryðjuverkatengdra ákæra, sem fela í sér smygl á sprengiefni til Sádí-Arabíu og þátttöku í mótmælum gegn stjórnvöldum í Barein. Í apríl 2022 staðfesti hæstiréttur dóminn og aftaka þeirra varð yfirvofandi um leið og konungur fullgildi hann. Amnesty International skorar á yfirvöld í Sádi-Arabíu að fullgilda ekki dauðadóminn, ógilda sakfellingu þeirra og veita þeim sanngjörn réttarhöld í samræmi við alþjóðleg lög.

Gambía

Mannréttindavernd í hættu í Gambíu

Gríptu til aðgerða og skrifaðu undir ákall um að öryggi mannréttindafrömuðarins Madi Jobarteh verði tryggt og að hann geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar sem er staðfestur í stjórnarskrá Gambíu.

Pólland

Refsað fyrir að verja rétt til þungunarrofs

Kvenréttindafrömuðurinn Justyna Wydrzyńska á yfir höfði sér þriggja ára fangelsisvist af þeirri ástæðu einni að hún styður rétt til öruggs þungunarrofs. Pólskum yfirvöldum ber að afglæpavæða þungunarrof og styðja frekar en refsa manneskjum sem leggja sig fram við að tryggja heilsu einstaklinga sem leita eftir þungunarrofi. Aðgangur að þungunarrofi er hluti af kyn- og frjósemisréttindum og aðilar sem veita konum, stúlkum og fólki slíka aðstoð eiga ekki að þurfa að lifa í ótta við ákærur. Skrifaðu undir ákallið og krefstu þess að pólsk yfirvöld dragi til baka ákærur á hendur kvenréttindafrömuðinum Justynu Wydrzyńska og afglæpavæði þungunarrof.

Hvíta-Rússland

Skrásetning mannréttindabrota er ekki glæpur

Marfa Rabkova er baráttukona fyrir mannréttindum í Hvíta-Rússlandi og hefur unnið fyrir Viasna, hreyfingu sjálfboðaliða, sem er einn öflugasti mannréttindahópurinn í Hvíta-Rússlandi. Viasna fylgist með og skráir mannréttindabrot í landinu. Marfa var fyrst í þeirra hópi til að vera handtekin. Hún er ákærð fyrir að kynda undir hatri gagnvart lögreglu fyrir þátt sinn í að afhjúpa varðhald að geðþótta, pyndingar og aðra illa meðferð af hálfu yfirvalda gegn friðsömum mótmælendum. Það er ekki glæpur að skrásetja mannréttindabrot. Krefjumst þess að Marfa Rabkova verði leyst úr haldi strax.

Tæland

Krefjumst réttlætis fyrir friðsama mótmælendur í Tælandi

Stjórnvöld í Tælandi nýta kórónuveirufaraldurinn til að þagga enn frekar niður í ungum friðsömum mótmælendum. Fleiri en 600 ungmenni eiga yfir höfði sér langa fangelsisdóma fyrir það eitt að mótmæla friðsamlega þrátt fyrir að lögreglan hafi beitt óhóflegu valdi við að leysa upp mótmælin.

Bandaríkin

Bandaríkin felli niður ákærur á hendur Julian Assange

Bandarísk yfirvöld verða að fella niður allar ákærur á hendur Julian Assange sem tengjast njósnum og birtingu gagna vegna starfa hans hjá Wikileaks. Miskunnarlausar tilraunir bandarískra stjórnvalda til að hafa hendur í hári Julian Assange vegna opinberunar gagna sem innihéldu meðal annars upplýsingar um mögulega stríðsglæpi bandaríska hersins eru alvarlegar árásir gegn réttinum til tjáningarfrelsis.