Þann 22. júní árið 2021 var Ahmed Samir Santawy, egypskur meistaranemi og rannsakandi við Central European háskólann í Vínarborg, dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa birt svokallaðar falsfréttir.
Hann er samviskufangi sem egypsk yfirvöld þurfa að láta lausan tafarlaust og án nokkurra skilyrða.
Rannsóknir Ahmed Samir Santawy snúa að mestu um réttindi kvenna og varpa ljósi á sögu Egyptalands hvað varðar kyn- og frjósemisréttindi egypskra kvenna.
Stuttu eftir að Ahmed kom frá Vínarborg, þann 1. febrúar 2021, handtók egypska öryggisstofnunin hann að geðþótta, beitti hann pyndingum, illri meðferð, barsmíðum og yfirheyrði Ahmed um rannsóknir hans. Hann sætti þvinguðu mannshvarfi fimm daga.
Hann var svo færður fyrir sérstakt ákæruvald sem tekur fyrir þjóðaröryggismál. Þar var farið fram á varðhald á meðan rannsókn stæði yfir vegna tilhæfulausra hryðjuverkaásakana gegn honum.
Í maí 2021 hóf ákæruvaldið nýja glæparannsókn gegn Ahmed um að dreifa falsfréttum á samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að grafa undan egypskum yfirvöldum og þjóðarhagsmunum og valda óreiðu og usla meðal almennings. Ákæran fellur undir 80. grein (d) egypskra hegningarlaga.
Mánuði síðar var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi af neyðarþjóðaröryggisdómstól. Dómurinn byggir á gagnrýni hans á samfélagsmiðlum um mannréttindabrot í egypskum fangelsum og röngum viðbrögðum yfirvalda við heimsfaraldrinum sem Ahmed neitar fyrir að hafa skrifað.
Ekki er hægt að áfrýja neyðardómum sem þessum og einungis forseti Egyptalands getur fyrirskipað um að láta Ahmed lausan.
Skrifaðu undir ákall um að forseti Egyptalands, Abdel Fattah Al-Sisi, felli niður dóminn á hendur Ahmed Samir Santawy og láti hann lausan tafarlaust og án skilyrða!