Mótmæli í Georgíu hófust 29. nóvember 2024. Almenningur mótmælir kúgandi lögum og ákvörðun stjórnvalda um að gera hlé á ferli um inngöngu í Evrópusambandið. Yfirvöld hafa bælt niður mótmælin með ofbeldisfullum hætti. Hundruð einstaklinga eru sagðir hafa sætt pyndingum og illri meðferð.
Harka gegn mótmælendum
Nú þegar alþjóðleg fjölmiðlaumfjöllun um mótmælin í Georgíu hefur að mestu hætt beita yfirvöld enn frekari hörku gegn mótmælendum með óhóflegu valdi, kynbundnu ofbeldi, pyndingum og illri meðferð, ásamt því að fólk hefur sætt óhóflegum ákærum.
Umboðsmaður Georgíu, sem tekur á móti kvörtunum einstaklinga sem telja stjórnvöld hafa brotið á rétti sínum, hefur skráð rúmlega 240 tilfelli pyndinga og illrar meðferðar á mótmælendum, þar af hafa 85 fengið formlega stöðu brotaþola. Fjöldinn er þó að öllum líkindum mun hærri.
Konur á mótmælunum
Konur á mótmælunum hafa orðið að tákni fyrir hugrekki þar sem þær rísa upp gegn kúgandi stjórnvöldum en á sama tíma hafa þær orðið að skotmarki lögreglunnar. Þær hafa meðal annars verið niðurlægðar, hótað kynferðisofbeldi, sætt ólöglegum líkamsleitum án klæða og geðþóttavarðhaldi. Enn hefur enginn lögreglumaður verið dreginn til ábyrgðar.
Yfirvöld í Georgíu gera allt sem þau geta til að forðast að taka ábyrgð á þeim brotum sem þau hafa framið. Á sama tíma og þau banna mótmælendum að vera með grímur eru óeinkennisklæddir lögregluþjónar sendir til að berja og misþyrma okkur. Þetta verður að stöðva!“
Mótmælandi í Tbilisi í Georgíu.
Vernda þarf réttinn til að mótmæla
Það brýtur gegn stjórnarskrá Georgíu og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum landsins að bregðast þeirri skyldu til að draga lögregluna til ábyrgðar fyrir þessi brot. Fólkið í landinu hefur leitað ýmissa leiða til að fá yfirvöld til að bregðast við.
Alþjóðasamfélagið þarf að sýna samstöðu með mótmælendum í Georgíu og vernda réttinn til að mótmæla.
Hvað getur þú gert?
Skrifaðu undir og krefstu þess að lögregluofbeldið verði stöðvað og rannsakað til að binda enda á refsileysi.
Ríkissaksóknari Georgíu þarf að tryggja að öll tilfelli um pyndingar og illa meðferð verði rannsökuð tafarlaust með skilvirkum hætti og á óháðan hátt, sjá til þess að gerendur séu dregnir til ábyrgðar og tryggja þolendum réttlæti og bætur.