Í upphafi þessa árs var trans teymi Barna- og unglingageðdeildar Landspítala (BUGL) lagt niður. Umrætt teymi hefur gegnt lykilhlutverki í lífi trans barna og unglinga. Mikil óvissa ríkir nú um hvernig trans börn og unglingar verða þjónustuð.
Aflagning trans teymisins gengur þvert á ný lög um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 sem tóku gildi þann 6. júlí á síðasta ári. Í 13. grein laganna segir að á BUGL skuli starfa teymi sérfræðinga um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni, skipað af forstjóra sjúkrahússins. „Teymið skal vera þverfaglegt og skipað fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. Tryggja skuli trans börnum „meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins“ og forsjáraðilum þeirra stuðning og ráðgjöf.
Íslensk yfirvöld verða að bregðast við þessum vanda án tafar til að tryggja velferð trans barna og unglinga hér á landi en samkvæmt Samtökunum ‘78 sýna nýjustu rannsóknir fram á að tíðni sjálfsvíga, sjálfskaða og vanlíðan lækkar til muna þegar börn hafa aðgengi að þjónustu og stuðningi foreldra og fagaðila til að vera þau sjálf og takast á við lífið. Auk þess verða yfirvöld að sjá til þess að fjármagn og mannafli sé til staðar til að halda uppi trans teymi BUGL í samræmi við ný lög um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019.
Íslandsdeild Amnesty International tekur undir áskorun Samtakanna ‘78 þar sem skorað er á Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, Ölmu Dagbjörtu Möller landlækni og Pál Matthíasson forstjóra Landspítala að bregðast tafarlaust við stöðu mála og að fylgja lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 með afgerandi hætti og með eftirfarandi aðgerðum:
- Tryggja þarf viðeigandi fjármagn í málaflokkinn til að koma í veg fyrir að þjónustan falli niður vegna skorts á mannafla
- Tryggja þarf þjónustu byggða á fremstu fagþekkingu á þessu sviði og að skipaðar séu skýrar verklagsreglur og verkferlar um þjónustuna í samræmi við fremstu staðla heims
- Tryggja þarf að starfsfólk sæki sér sérþekkingu á þessu sviði á erlendum vettvangi og í samstarfi við hagsmunafélög hérlendis
- Tryggja þarf að samskipti séu á milli fagaðila í þessum málaflokki sem og öðrum málaflokkum
Hér má lesa skýrslu Amnesty International No shame in diversity: The right to health for people with variations of sex characteristics in Iceland sem fjallar um stöðu trans- og intersex fólks og barna á Íslandi. Skýrslan var gefin út á síðasta ári.