Ísland

Stjórnvöld tryggi velferð trans barna og unglinga

Í upphafi þessa árs var trans teymi Barna- og unglinga­geð­deildar Land­spítala (BUGL) lagt niður. Umrætt teymi hefur gegnt lykil­hlut­verki í lífi trans barna og unglinga. Mikil óvissa ríkir nú um hvernig trans börn og unglingar verða þjón­ustuð.

Aflagning trans teym­isins gengur þvert á ný lög um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 sem tóku gildi þann 6. júlí á síðasta ári. Í 13. grein laganna segir að á BUGL skuli starfa teymi sérfræð­inga um kynvitund og ódæmi­gerð kynein­kenni, skipað af forstjóra sjúkra­hússins. „Teymið skal vera þverfag­legt og skipað fagfólki með viðeig­andi þekk­ingu og reynslu. Tryggja skuli trans börnum „meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins“ og forsjár­að­ilum þeirra stuðning og ráðgjöf.

Íslensk yfir­völd verða að bregðast við þessum vanda án tafar til að tryggja velferð trans barna og unglinga hér á landi en samkvæmt Samtök­unum ‘78 sýna nýjustu rann­sóknir fram á að tíðni sjálfs­víga, sjálf­skaða og vanlíðan lækkar til muna þegar börn hafa aðgengi að þjón­ustu og stuðn­ingi foreldra og fagaðila til að vera þau sjálf og takast á við lífið. Auk þess verða yfir­völd að sjá til þess að fjár­magn og mannafli sé til staðar til að halda uppi trans teymi BUGL í samræmi við ný lög um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019.

Íslands­deild Amnesty Internati­onal tekur undir áskorun Samtak­anna ‘78 þar sem skorað er á Svandísi Svavars­dóttur heil­brigð­is­ráð­herra, Ölmu Dagbjörtu Möller land­lækni og Pál Matth­íasson forstjóra Land­spítala að bregðast tafar­laust við stöðu mála og að fylgja lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 með afger­andi hætti og með eftir­far­andi aðgerðum:

  • Tryggja þarf viðeig­andi fjár­magn í mála­flokkinn til að koma í veg fyrir að þjón­ustan falli niður vegna skorts á mannafla
  • Tryggja þarf þjón­ustu byggða á fremstu fagþekk­ingu á þessu sviði og að skip­aðar séu skýrar verklags­reglur og verk­ferlar um þjón­ustuna í samræmi við fremstu staðla heims
  • Tryggja þarf að starfs­fólk sæki sér sérþekk­ingu á þessu sviði á erlendum vett­vangi og í samstarfi við hags­muna­félög hérlendis
  • Tryggja þarf að samskipti séu á milli fagaðila í þessum mála­flokki sem og öðrum mála­flokkum

 

Hér má lesa skýrslu Amnesty Internati­onal No shame in diversity: The right to health for people with variations of sex character­istics in Iceland sem fjallar um stöðu trans- og intersex fólks og barna á Íslandi. Skýrslan var gefin út á síðasta ári.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Rússland

Stríðsglæpum gegn Úkraínubúum í haldi verður að linna

Í Rússlandi eru þúsundir úkraínskra hermanna og óbreyttra borgara í haldi. Fjölskyldur stríðsfanganna fá engar upplýsingar og ná ekki sambandi við fjölskyldumeðlimi sem eru í haldi. Þær leita örvæntingafull upplýsinga um ástvini sína og fjölskyldumeðlimi. Margir fangar njóta ekki grundvallarréttinda svo sem að eiga í samskiptum við ástvini og fjölskyldur og verða fyrir ómannúðlegri meðferð eins og pyndingum, kynferðisofbeldi og er synjað um heilbrigðisþjónustu á sama tíma og heilsu þeirra hrakar. Þessi meðferð stríðsfanga telst til stríðsglæpa og glæpa gegn mannúð. Skrifaðu undir ákall um að rússnesk yfirvöld bindi enda á þessa stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð.

Haítí

Vernd fyrir börn gegn glæpagengjum á Haítí

Síaukið ofbeldi glæpagengja á Haítí bitnar verst á haítískum börnum. Þau eru svipt öruggu rými til að leika sér og læra og eru neydd til að alast upp í umhverfi þar sem ótti og óvissa ráða ríkjum. Vegna áskorana hjá haítískum yfirvöldum og aðgerðaleysis alþjóðasamfélagsins hefur neyðin aukist og skapað vítahring ofbeldis og vanrækslu. Skrifaðu undir ákall til haítískra yfirvalda og krefstu verndar fyrir börn á Haítí.

Bandaríkin

Hætta steðjar að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Bandaríkjunum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að hrinda í framkvæmd áform um brottvísanir sem beinast að milljónum innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Bandarískum stjórnvöldum ber skylda samkvæmt alþjóðalögum að tryggja að lög þeirra, stefnur og verklag leiði ekki til aukinnar hættu á að brotið sé á mannréttindum innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Skrifaðu undir ákall um að Trump forseti virði mannréttindi innflytjenda og umsækjenda um alþjóðlega vernd og hætti við þau áform um vísa fjölda fólks úr landi.

Íran

Hætta er á fleiri aftökum í tengslum við mótmæli

Að minnsta kosti tíu einstaklingar í Íran eiga yfir höfði sér aftöku í kjölfar dauðadóma í tengslum við mótmæli sem kennd voru við slagorðið „Kona, líf, frelsi“. Skrifaðu undir ákall um að írönsk stjórn­völd ógildi dauðadóma yfir friðsama mótmælendur og leysi úr haldi þá mótmæl­endur sem eru í haldi fyrir það eitt að tjá sig með frið­sam­legum hætti.

Ekvador

Binda þarf enda á notkun gasbruna í Amazon-skóginum

Stjórnvöld í Ekvador hafa ekki framfylgt dómsúrskurði sem féll í vil níu baráttustúlkna og ungra kvenna um að binda enda á notkun gasbruna í Amazon-skóginum. Gasbrunar brjóta á réttindum íbúa nærliggjandi svæða vegna mengunar sem þeir valda. Skrifaðu undir ákall og krefstu þess að forseti Ekvador hrindi af stað áætlun um að stöðva notkun gasbruna (sérstaklega þeirra sem staðsettir eru 5 km frá byggð) í samræmi við dómsúrskurð, verndi mannréttindi íbúa sem búa í grennd við gasbruna, stuðli að réttlátum orkuskiptum þar sem dregið verður smám saman úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Alþjóðlegt

TikTok þarf að gæta öryggis barna og ungs fólks

Ungir notendur lýsa TikTok sem skaðlegum og ávanabindandi miðli þar sem þeir eiga á hættu að verða háð miðlinum út af tillögum sem sérstaklega eru sniðnar að þeim. Börn og ungt fólk sem horfa á myndefni sem tengist geðheilsu á TikTok eru líklegri til að fá tillögur um að horfa á sífellt fleiri myndbönd sem fjalla um, fegra og jafnvel hvetja til þunglyndislegra hugsana, sjálfskaða og sjálfsvígs. Skrifaðu undir og krefstu þess að að TikTok banni á heimsvísu sérsniðnar auglýsingar sem beint er að ungum notendum, og sjái til þess að það sé val að hafa sérsníðaðar tillögur að myndefni á efnisveitunni í stað þess að það sé sjálfgefið.