Góðar fréttir
15. apríl 2020Samstaða er mikilvæg á þessum óvissutímum þegar kórónuveirufaraldurinn geisar. Á tímum sem þessum er mikilvægt að horfa á það jákvæða og sjá hverju samtakamátturinn getur áorkað. Á síðustu mánuðum hafa ýmsir sigrar unnist í mannréttindabaráttunni. Það er mikilvægt að fagna hverjum sigri og ekki síst núna þegar kvíðinn og óttinn er skammt undan. Hér eru 20 sigrar sem sýna fram á samtakamáttinn í mannréttindabaráttunni. Fjölmargir aðgerðasinnar hafa verið leystir úr haldi, löggjöfum hefur verið breytt í þágu mannréttinda og dómar mildaðir.
Afríka
Þunguðum stúlkum veitt aðgengi að menntun á ný í Síerra Leóne
Ein hræðilegasta afleiðing ebólu-faraldursins sem herjaði á Afríku árin 2014 til 2015 var gífurleg fjölgun þungana unglingsstúlkna. Í mörgum tilfellum var um að ræða stúlkur í viðkvæmri stöðu vegna foreldramissis. Viðbrögð stjórnvalda við fjölguninni var að meina þunguðum unglingsstúlkum um skólagöngu og próftöku. Banninu var loks aflétt í lok mars 2020. Þungaðar unglingsstúlkur geta haldið menntun sinni áfram þegar skólar opna á ný eftir að kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Íslandsdeild Amnesty International vakti athygli á málinu með undirskriftasöfnun í byrjun mars 2020.
„Innbyggð mismunun fylgdi banninu sem sett var á fyrir næstum fimm árum síðan. Alltof margar ungar konur hafa verið sviptar réttinum til menntunar sem takmarkaði val þeirra um framtíð sína,“ segir Marta Colomer, starfandi framkvæmdastjóri yfir Vestur-og Mið-Afríkudeild Amnesty International.
Aðgerðasinni leystur úr haldi eftir geðþóttavarðhald í Miðgbaugs-Gíneu
Aðgerðasinninn Joaquin Elo Ayeto var leystur úr haldi án skýringa eftir honum hafði verið haldið að geðþótta í næstum ár. Hann var sakaður um að leggja á ráðin um morð á forseta landsins.
„Mér var sagt frá því sem Amnesty International gerði fyrir mig. Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir framlag ykkar sem varð til þess að ég var leystur úr haldi.“
Blaðamaður í Níger sem birti færslu um grun á kórónuveirusmiti laus úr haldi
Blaðamaðurinn Mamane Kaka Touda var leystur úr haldi eftir þrjár vikur í haldi þann 26. mars 2019. Hann sætti varðhaldi í þrjár vikur fyrir færslu á samfélagsmiðli um grun á kórónuveirusmiti á spítala. Hann fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm og táknræna sekt sem samsvarar rúmlega 200 íslenskum krónum. Íslandsdeild Amnesty International vakti athygli á máli Mamane Kaka Touda í sms-aðgerðaneti Amnesty International í mars 2020.
„Ég vil þakka öllum og hvetja þá sem voru virkjaðir til að kalla eftir lausn minni. Geðþóttahandtökur og varðhald verða ekki stöðvaðar nema við höldum áfram baráttu okkar. Ég er þakklátur, takk fyrir!“
Aðgerðasinni í Senegal laus úr haldi
Aðgerðasinninn Guy Marius Sagna var leystur haldi þann 3. mars 2020. Tvisvar hafði beiðni hans um tímabundna lausn verið hafnað. Hann hefur reglulega verið handtekinn. Síðast var hann handtekinn þann 29. nóvember 2019 fyrir óleyfilega samkomu og uppreisn. Átta aðrir aðgerðasinnar voru einnig handteknir og leystir úr haldi frá desember til febrúar 2020. Allir standa frammi fyrir ákærum. Íslandsdeild Amnesty International vakti athygli á máli Guy Marius Sagna sumarið 2019 þar sem hann stóð frammi fyrir ákærum. Amnesty International heldur áfram að fylgjast með máli hans.
Evrópa og Mið-Asía
Baráttukona fyrir hinsegin málefnum leyst úr stofufangelsi í Rússlandi
Yulia Tsvetkova, listakona og aðgerðasinni, var leyst úr stofufangelsi. Hún var skotmark stjórnvalda vegna baráttu sinnar fyrir málefnum hinsegin fólks. Yulia var sett í stofufangelsi í nóvember 2019 og ákærð fyrir framleiðslu og dreifingu kláms vegna teikninga hennar af kvenlíkama. Hún stendur enn frammi fyrir allt að sex ára fangelsisdóm.
Baráttukona laus úr haldi af geðdeild eftir þvingaða innlögn í Úsbekistan
Nafosat Olloshkurova, bloggari og baráttukona fyrir mannréttindum, var leyst úr haldi af geðdeild í lok desember 2019. Hún var handtekin fyrir að fylgjast með og fjalla um friðsamleg mótmæli í september 2019. Þremur dögum síðar var hún sett á geðdeild þar sem henni var haldið og hún þvinguð í læknismeðferð. Yfirvöld í Úsbekistan hafa áður beitt þvinguðum innlögnum á geðdeild gegn mannréttindafrömuðum og fjölmiðlafólki.
Sjálfboðaliði ákærður vegna mannúðarstarfa sýknaður í Frakklandi
Franskur fjallaleiðsögumaður, Pierre Mumber, var ákærður eftir að hafa boðið fjórum umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Vestur-Afríku sem komu óskráðir inn í Frakkland, heitt te og hlý föt. Hann var ákærður fyrir að aðstoða þá yfir landamærin. Hann var að lokum sýknaður að áfrýjun lokinni í nóvember 2019. Mál hans er eitt af fjölmörgum í Evrópu þar sem herjað er á þá sem vinna mannúðarstörf í þágu farand- og flóttafólks í Evrópu. Nánar um málið.
Ameríka
Dauðarefsingin afnumin í Colorado í Bandaríkjunum
Ríkisstjóri í Colorado hefur skrifað undir lagafrumvarp um afnám dauðarefsingarinnar. Colorado er þar með 22. fylkið sem hefur afnumið dauðarefsinguna í Bandaríkjunum. Amnesty International setur sig gegn dauðarefsingunni í öllum tilvikum. Hún er óafturkræf og dregur ekki úr glæpatíðni. Bandaríkjadeild Amnesty International hefur unnið hörðum höndum að afnámi dauðarefsingarinnar þar í landi.
Sjálfboðaliði fyrir mannúðarstörf sýknaður í Bandaríkjunum
Í nóvember 2019 sýknaði dómstóll í Arizona í Bandaríkjunum sjálfboðaliðann Scott Warren fyrir að veita farandfólki athvarf eftir að hann veitti tveimur einstaklingum mat, vatn og húsaskjól. Hann er sjálfboðaliði fyrir samtök sem skilja eftir neyðarbirgðir fyrir farandfólk við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Mál hans er ekki einstakt en ríkisdómari ógilti einnig sakfellingu fjögurra annarra sjálfboðaliða í mannúðarstörfum fyrir svipaðar sakargiftir.
Asía
Baráttukona fyrir mannréttindum laus úr haldi í Víetnam
Tram Thi Nga, baráttukona fyrir mannréttindum, var óvænt leyst úr haldi eftir þrjú ár í fangelsi í janúar 2020. Hún hafði fengið níu ára fangelsisdóm árið 2017 fyrir áróður gegn ríkinu eftir að hún tók þátt í mótmælum vegna umhverfisslyss. Tran Thi Nga samþykkti útlegð sem skilyrði fyrir lausn sinni. Hún er nú komin til Bandaríkjanna ásamt fjölskyldu sinni.
„Ég þakka Amnesty International fyrir þrotlausa baráttu fyrir frelsi mínu. Ég er ánægð að fjölskylda mín sé loks sameinuð og fær að búa í friði. Það eru hins vegar enn margir samviskufangar í Víetnam og ég vona að Amnesty International haldi áfram að berjast fyrir frelsi þeirra.“
Forsætisráðherra Pakistan tilkynnir áætlun um að draga úr gífurlegri loftmengun
Í lok síðasta árs tilkynnti forsætisráðherra Pakistan áætlun um að draga úr gífurlegri loftmengun í Pakistan, aðeins nokkrum dögum eftir að herferð Amnesty International hófst. Þetta var fyrsta opinbera tilkynning stjórnvalda um aðgerðaáætlun vegna loftmengunar og því má gera ráð fyrir að herferðin hafi haft áhrif.
Loftmengun í Punjab, fjölmennasta svæði Pakistan, hefur verið það mikil að loka hefur þurft skólum og fólk fundið fyrir sviða við öndun. Mengunin hefur mælst langt yfir heilsumörkum og suma daga mældist hún sú allra mesta í heiminum. Amnesty International fagnar þessu fyrsta skrefi og fylgist með framvindu mála.
Dauðadómur mildaður í Víetnam í kjölfar herferðar Amnesty International
Dauðadómur yfir Hồ Duy Hải var mildaður í lok árs 2019 í Víetnam. Hann hefur tvisvar verið nærri tekinn af lífi. Gallar voru á málsmeðferð hans og hann segist hafa verið pyndaður til að játa á sig morð og þjófnað. Mál hans var til umfjöllunar þegar árleg skýrsla Amnesty International um dauðarefsingar var gefin út fyrir árið 2018. Móðir hans þakkaði Amnesty International fyrir að bjarga lífi sonar síns
Róhingjabörn fá aðgang að menntun í flóttamannabúðum í Bangladess
í janúar 2020 samþykktu stjórnvöld í Bangladess að Róhingjabörn í flóttamannabúðum fengju loks aðgengi að menntun, tveimur og hálfu ári eftir að þau þurftu að flýja heimili sín í Myanmar vegna þjóðarmorðs. Stjórnvöld í Bangladess höfðu áður vikist undan að veita þeim menntun. Amnesty International hafði lengi kallað eftir því að réttur Róhingjabarna til menntunar væri virtur.
Alþjóðadómstóllinn fyrirskipar aðgerðir til verndar Róhingjum í Myanmar
Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur fyrirskipað Myanmar að grípa til aðgerða til að hindra frekari þjóðarmorð gegn Róhingjum. Um 600 þúsund Róhingjar búa enn þar í landi og er þeim á kerfisbundinn hátt neitað um réttindi sín. Þeir eru því enn í hættu. Gambía fór með málið til dómstólsins í nóvember 2019 fyrir brot á sáttmála um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð.
Miðausturlönd
Tímabundið leyfi úr fangelsi vegna kórónuveirufaraldursins í Íran
Írönsk stjórnvöld hafa herjað á einstaklinga með tvöfalt ríkisfang. Nazanin Zaghari-Ratcliffe er meðal þeirra en hún hefur verið í haldi frá 2016. Hún var handtekin í Íran fyrir njósnir í heimsókn til fjölskyldu sinnar með nýfædda dóttur. Á síðasta ári fékk dóttirin loks leyfi til að fara heim til föður síns í Bretlandi. Nazanin fékk nýverið tímabundið leyfi úr fangelsi vegna kórónuveirufaraldursins.
Írönsk yfirvöld hafa verið að veita tímabundið leyfi gegn tryggingu til að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar í fangelsum. Af sömu ástæðu hafa einstaklingar verið náðaðir sem eru með fimm ára fangelsisdóm eða styttri dóm fyrir brot gegn „öryggi“ en það eru gjarnan fangar sem eru í haldi af pólitískum ástæðum. Yfirvöld hafa nú til skoðunar hvort náða eigi Nazanin.
Kaupsýslumaður laus úr haldi í Íran og komin aftur heim til Bretlands
Kamal Foroughi, 80 ára fyrrum kaupsýslumaður af breskum og írönskum uppruna, var handtekinn árið 2011. Hann var leystur úr haldi fyrir rúmi ári síðan en fékk loks að fara til Bretlands í mars 2020 eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út.
Ríkisfangslaus Palestínumaður leystur úr haldi gegn tryggingu í Ísrael
Blaðaljósmyndarinn Mustafa al-Kharouf var leystur úr haldi eftir níu mánuði í fangelsi í Ísrael. Hann hefur búið í Jerúsalem frá 12 ára aldri en er ríkisfangslaus og hefur ekki fengið réttarstöðu í landinu þrátt fyrir að öll fjölskylda hans hefur fengið fasta búsetu. Hann hefur margoft reynt að sækja um fasta búsetu á grundvelli fjölskyldusameiningar en ávallt fengið synjun.
Mustafa var handtekinn að geðþótta í janúar 2019 eftir enn eina synjunina þar sem senda átti hann úr landi. Í júlí 2019 reyndu ísraelsk yfirvöld tvívegis að senda hann til Jórdaníu en þarlend yfirvöld neituðu að taka við honum. Í lok október 2019 var hann loks leystur úr haldi.
Dómur mildaður í Íran – Þitt nafn bjargar lífi
Fangelsisdómur Yasaman og móður hennar hefur verið styttur úr 16 árum í 9 ár og 7 mánuði. Alþjóðlegur þrýstingur hefur áhrif, krafturinn býr í fjöldanum. Yasaman og móðir hennar voru handteknar eftir að hafa gefið blóm á alþjóðadegi kvenna, þann 8. mars 2019, og óskað þess að konur fengju að velja hvort þær klæddust höfuðslæðu. Mál þeirra var tekið upp í árlegri herferð samtakanna, Þitt nafn bjargar lífi 2019. Amnesty International fylgist áfram með máli þeirra.
Bahá’íi á dauðadeild leystur úr haldi í Jemen
Hutha-stjórnvöld í Jemen tilkynntu í mars 2020, þegar fimm ár voru liðin frá því átökin þar í landi hófust, að allir Bahá’íar yrðu leystir úr haldi. Hamid Haydara, samviskufangi, var meðal þeirra en aðeins þremur dögum áður hafði dauðadómur yfir honum verið staðfestur. Frá því að Hamid Haydara var handtekinn árið 2013 hefur Amnesty International fylgst með máli hans. Hann hlaut ósanngjörn réttarhöld og sætti pyndingum og illri meðferð. Amnesty International skráði einnig 66 Bahá’ía sem færðir voru fyrir rétt á árunum 2015-2020 vegna trúarskoðana sinna. Íslandsdeild Amnesty International vakti athygli á máli tveggja Bahá’ía í sms-aðgerðanetinu í byrjun árs 2017.
Trans kona í Egyptalandi leyst úr haldi
Malak al Kashef, trans kona, frá Egyptalandi var leyst úr haldi sumarið 2019. Henni var haldið í karlafangelsi eftir að hafa verið ranglega sökuð um að „veita hryðjuverkasamtökum liðsinni“ og „misnota samfélagsmiðla til að fremja refsiverðan glæp“. Hún er þekkt fyrir hugrekki sitt í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks í Egyptalandi. Mál hennar var í sms-aðgerðaneti Amnesty International.
„Það fyllti mig bæði eldmóði og veitti mér öryggi að vita að Amnesty International stóð fyrir herferð, stuðningi og þrýstingi á máli mínu eftir að egypsk stjórnvöld handtóku mig.“
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu