Íran

Bresk-írönsk kona sökuð um njósnir

Nazanin Zaghari-Ratcliffe er fertug bresk-írönsk kona. Hún hefur nú setið í meira en þúsund daga í írönsku fang­elsi þar sem hún afplánar dóm en hún var sakfelld fyrir njósnir vorið 2016. Írönsk stjórn­völd búa ekki yfir neinum sönn­unum sem styðja þessar ásak­anir.

Nazanin Zaghari-Ratcliffe býr alla jafna í London ásamt eigin­manni sínum og ungri dóttur þeirra. Hún starfar fyrir Thomson Reuters hjálp­ar­stofn­unina og hafa störf hennar þar verið notuð gegn henni og hún sökuð um að vera „meðlimur í ólög­legum samtökum“. Eftir ósann­gjarna máls­með­ferð og rétt­ar­höld var hún dæmd í fimm ára fang­elsi.

Þann 3. apríl 2016 var Nazanin á heim­leið til London ásamt eins árs gamalli dóttur sinni Gabriellu. Þær höfðu verið í heim­sókn hjá foreldrum Nazanin sem eru búsett þar. Á flug­vell­inum í Tehran voru þær mæðgur stöðv­aðar af örygg­is­vörðum og Nazanin hand­tekin og sett í varð­hald án þess að vera upplýst um ástæður hand­tök­unnar. Gabriella dóttir hennar var færð í hendur foreldra Nazanin sem höfðu fylgt þeim á flug­völlinn. Breskt vega­bréf Gabriellu var tekið af henni en síðar skilað aftur, hún er ekki með íranskt vega­bréf.

Nazanin var ekki upplýst um ástæður hand­tök­unnar og strax sett í einangr­un­ar­vist þar sem henni var haldið svo mánuðum skipti. Hún fékk ekki að hafa samband við fjöl­skyldu sína né lögfræðing. Fjöl­skylda hennar var heldur ekki upplýst um ástæður hand­tök­unnar.

Eins og áður segir var Nazanin Zaghari-Ratcliffe dæmd í fimm ára fang­elsi eftir ósann­gjörn rétt­ar­höld í sept­ember 2016 eftir að hafa verið sökuð um að vera „meðlimur í ólög­legum samtökum“. Hún fékk að tala við lögfræðing einungis þremur dögum fyrir rétt­ar­höldin.

Fjöl­skylda Nazanin hefur lýst veru­legum áhyggjum af heilsu­fari hennar í fang­elsinu en hún er í miklu andlegu uppnámi og þjáist af þung­lyndi. Í nóvember 2016 skrifaði hún sjálfs­vígs­bréf til fjöl­skyldu sinnar þar sem henni þótti óbæri­legt að lifa við þessar aðstæður og fjarri dóttur sinni.

Írönsk stjórn­völd eru sögð ítrekað neita föngum aðgengi að heil­brigð­is­þjón­ustu, þá sérstak­lega póli­tískum föngum.

Nazanin Zaghari-Ratcliffe er samviskufangi sem þarf að leysa úr haldi strax! Skrifaðu undir núna og þrýstu á írönsk stjórn­völd að leysa Nazanin tafar­laust úr haldi svo hún komist heim til fjöl­skyldu sinnar!

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Rússland

Fólk fangelsað fyrir að mótmæla stríðinu í Úkraínu

Rússnesku ritskoðunarlögin brjóta gegn mannréttindum. Rússland verður að afnema þessi ósanngjörnu lög án tafar og leysa úr haldi öll þau sem eru fangelsuð fyrir að tjá skoðanir sínar gegn stríðinu. Sýnum fólki í Rússlandi samstöðu sem hefur þor til að mótmæla friðsamlega stríðinu gegn Úkraínu.

Kólumbía

Verndum mannréttindafrömuði í Kólumbíu

Dag hvern hætta mannréttindafrömuðir lífi sínu í þágu mannréttinda í Kólumbíu. Vernda verður rétt þeirra til að tryggt sé að kólumbískt fólk geti lifað lífi sínu frjálst undan ofbeldi. Að berjast fyrir mannréttindum í Kólumbíu er afar hættulegt og mannréttindafrömuður er myrtur um það bil annan hvern dag. Skrifaðu undir og krefstu þess að kólumbísk stjórnvöld tryggi umfangsmiklar öryggisaðgerðir og verndi alla mannréttindafrömuði.

Alþjóðlegt

TikTok þarf að gæta öryggis barna og ungs fólks

Ungir notendur lýsa TikTok sem skaðlegum og ávanabindandi miðli þar sem þeir eiga á hættu að verða háð miðlinum út af tillögum sem sérstaklega eru sniðnar að þeim. Börn og ungt fólk sem horfa á myndefni sem tengist geðheilsu á TikTok eru líklegri til að fá tillögur um að horfa á sífellt fleiri myndbönd sem fjalla um, fegra og jafnvel hvetja til þunglyndislegra hugsana, sjálfskaða og sjálfsvígs. Skrifaðu undir og krefstu þess að að TikTok banni á heimsvísu sérsniðnar auglýsingar sem beint er að ungum notendum, og sjái til þess að það sé val að hafa sérsníðaðar tillögur að myndefni á efnisveitunni í stað þess að það sé sjálfgefið.

Lýðstjórnarlýðveldið Kongó

Stöðvið þvingaða brottflutninga í Kolwezi

Að svara eftirspurn heimsins eftir kopar og kóbalti er íbúum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó dýrkeypt. Þeir eru beittir þvinguðum brottflutningum og ofbeldi ásamt því að heimili þeirra eru eyðilögð. Skrifaðu undir ákall um að Tshisekedi forseti stöðvi þvingaða brottflutninga og mannréttindabrot í grennd við kopar- og kóbaltnámur.

Venesúela

Leysið úr haldi ranglega fangelsaða Venesúelabúa

Í nýrri skýrslu Amnesty International fordæma samtökin kúgunarstefnu ríkisstjórnar Nicolás Maduro í Venesúela og greina frá málum níu einstaklinga sem sæta varðhaldi að geðþótta. Skrifaðu undir og krefstu tafarlausrar lausnar þeirra án skilyrða.

Ísrael

Stöðva þarf tæknivædda aðskilnaðarstefnu gegn Palestínubúum

Palestínubúar berjast gegn andlitsgreiningartækni sem er notuð til að takmarka grundvallarréttindi þeirra. Tækni getur bætt aðgengi að námi, heilbrigðisþjónustu, upplýsingum og veitt fólki aukin tækifæri óháð uppruna þess. Ekki skal beita tækninni til að áreita og jaðarsetja Palestínubúa í þeim tilgangi að framfylgja aðskilnaðarstefnu Ísraelsríkis. Skrifaðu undir bréf til framleiðenda andlitsgreiningartæknibúnaðarins og krefstu tafarlausrar stöðvunar á framleiðslu á tæknibúnaði sem notar andlitsgreiningu og lífkenni.