Borgaraleg óhlýðni

Þann 6. apríl 1930 stóð Mahatma Gandhi með lófann fullan af salti í Dandi á Indlandi og sagði: ,,Með þessu hristi ég stoðir breska heimsveld­isins.“ Gandhi hafði gengið tæpa 400 kíló­metra ásamt tugum þúsunda Indverja til að vinna sitt eigið salt. Það gerði hann til að mótmæla breskum lögum sem bönnuðu Indverjum að vinna og selja salt. Bretar lögðu þess í stað háa skatta á saltsölu sem bitnaði mest á hinum fátæku.  

Þann 1. desember 1955 sat Rosa Parks, svört kona, í hálf­fullum stræt­is­vagni í Alabama-ríki í Banda­ríkj­unum þegar inn kom hvítur farþegi. Bílstjóri stræt­is­vagnsins skipaði henni að standa upp fyrir farþeg­anum og færa sig aftast, eins og lög gerðu ráð fyrir. Hún neitaði. Andóf Rosu Parks varð innblástur að rétt­inda­bar­áttu svartra í Banda­ríkj­unum.  

Þriðja apríl árið 1963 leiddi Martin Luther King Jr. fjölda svartra í miðbæ Birmingham í Banda­ríkj­unum til að mótmæla aðskiln­að­ar­stefnu borg­ar­innar. Allir mótmæl­end­urnir voru hand­teknir. King var gagn­rýndur fyrir að valda uppþoti og fang­els­aður.  

Þau Mahatma Gandhi, Rosa Parks og Martin Luther King Jr. áttu það sameig­in­legt að vera óhrædd við að fylgja sann­fær­ingu sinni og berjast fyrir félags­legu rétt­læti. Þau þorðu að benda á samfé­lagsleg mein og tóku málin í sínar hendur, brutu óréttlát lög ef til þurfti og stóðu fyrir mótmælum. Þau stuðluðu að fram­gangi mann­rétt­inda í krafti sann­fær­ingar sinnar og hugrekkis, oftar en ekki með borg­ara­lega óhlýðni að vopni. 

Hvað er borgaraleg óhlýðni?

En hvað er borg­araleg óhlýðni? Sögu­lega hefur borg­araleg óhlýðni verið notuð til að vekja athygli á tilteknum málstað og stuðla að samfé­lags­legum breyt­ingum með beinum hætti, án ofbeldis. Dæmi þar um eru  setu­mót­mæli, fjölda­fundir og aðgerðir sem ná til fjöl­miðla (e. media stunts). 

Samkvæmt alþjóð­legum mann­rétt­inda­samn­ingum nýtur borg­araleg óhlýðni vernd­ar­á­kvæða um tján­ing­ar­frelsi og réttinn til frið­sam­legra samkoma svo framar­lega sem hún sé  viðhöfð með frið­sömum hætti.. 

Borg­araleg óhlýðni getur falið í sér að lög séu brotin til að sýna fram á rang­læti þeirra, svo sem lög sem banna tján­ingu á ákveðnum viðhorfum, lög sem takmarka mann­rétt­indi ákveð­inna hópa í samfé­laginu eða landslög sem eru í andstöðu við alþjóðalög um mann­rétt­indi.  

Takmark­anir eða refs­ingar vegna brota á slíkum lögum eru hvorki nauð­syn­legar né hóflegar. Stjórn­völd ættu ekki að lögsækja einstak­linga fyrir slík brot heldur fella niður eða breyta viðkom­andi lögum til samræmis við alþjóð­lega mann­rétt­inda­samn­inga. 

 

Það getur einnig talist til borg­ara­legrar óhlýðni ef fólk brýtur landslög af samvisku­ástæðum, jafnvel þó lögin séu í samræmi við alþjóðalög. Þetta á til dæmis við þegar mótmæl­endur fara inn á einka­eign í leyf­is­leysi eða loka fyrir vegi. Alþjóð­lega umhverf­is­hreyf­ingin Extinction Rebellion hefur staðið fyrir mótmæla­að­gerðum þar sem þetta er raunin. Í maí 2019 kallaði hreyf­ingin eftir því að stjórn­völd gripu til frekari aðgerða í lofts­lags­málum með því að mótmæla á umferð­ar­götum og hindra umferð. Mótmælin við Gálga­hraun árið 2013 eru einnig dæmi um þetta. Mótmæl­endur tóku sér stöðu framan við vinnu­vélar og neituðu að hlýða tilmælum lögreglu um að færa sig. 

Enda þótt Amnesty Internati­onal felli ekki dóm um rétt­mæti refs­inga í umræddum málum hafa samtökin greint tilhneig­ingu hjá ríkjum heims að bera alvar­legri sakir á fólk, sem brýtur lög af samvisku­ástæðum með borg­ara­legri óhlýðni, en tilefni er til eða þykir rétt­læt­an­legt. Dæmi eru um að fólk sé þá ákært og dæmt fyrir hryðju­verk, landráð eða uppreisn. Mikil­vægt er að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvort takmark­anir eða refs­ingar vegna brota af samvisku­ástæðum séu nauð­syn­legar og gæti hófs. Of harðar ákærur hafa kælandi áhrif á réttinn til tján­ing­ar­frelsis og réttinn til að koma saman frið­sam­lega.    

Friðsamlegar og beinar aðgerðir

Borg­araleg óhlýðni getur verið nauð­synleg til að knýja fram rétt­læti sé hún viðhöfð með frið­sömum hætti og er vernduð af alþjóða­samn­ingum um mann­rétt­indi. Dæmin um Mahatma Gandhi, Rosu Parks, og Martin Luther King Jr. sýna fram á nauðsyn og mikil­vægi borg­ara­legrar óhlýðni til að ná fram félags­legu rétt­læti og stuðla fram­gangi mann­rétt­inda. Þegar King sat í fang­elsinu eftir mótmælin fyrr­nefndu skrifaði hann hið fræga „Bréf úr fang­elsinu í Birmingham“ sem var andsvar við yfir­lýs­ingu nokk­urra hvítra presta um að þeir viður­kenndu að félags­legt rang­læti viðgengist, en að baráttan gegn aðskilnaði svarta og hvítra ætti ekki að fara fram á götum úti heldur í rétt­ar­sölum. Í bréfi sínu andmælti King yfir­lýs­ingu prest­anna og skrifaði að án frið­samra en beinna og öflugra aðgerða yrði félags­legu rétt­læti aldrei náð. Borg­araleg óhlýðni væri ekki einungis rétt­læt­anleg andspænis rang­látum lögum heldur bæri fólk siðferðislega ábyrgð á að brjóta gegn rang­látum lögum.