
Hugtakið „trans“ er regnhlífarhugtak sem nær yfir fjöldann allan af einstaklingum sem eiga það sameiginlegt að kynvitund þeirra, kyntjáning eða upplifun er á skjön við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu.
Mikilvægt er að hafa í huga að trans einstaklingar leita sér ekki allir heilbrigðisþjónustu og þeir sem leita sér hennar gangast ekki allir undir sama ferlið. Sumt trans fólk óskar þess ekki að gangast undir kynfæraaðgerð þó það gangist undir hormónameðferð og aðrir vilja undirgangast hvorugt.
Barátta Amnesty International fyrir réttindum transfólks
Amnesty International berst fyrir því að réttur einstaklinga til að fá lagalega viðurkenningu á kyni, vandræða- og sársaukalaust, sé virtur í öllum ríkjum heims. Það þýðir m.a. að fólk sem óskar eftir því að fá kyni sínu breytt á ekki að þurfa að gangast undir langt, strangt og oft á tíðum niðurlægjandi greiningarferli þar sem það gengst undir greiningu á geðröskun einfaldlega vegna þess að kynvitund þess er önnur en það kyn sem því var úthlutað við fæðingu.
Samhliða breytingu á kyni á einstaklingur einnig rétt á að óska eftir nafnabreytingu. Óheimilt ætti að vera að gera skurðaðgerð, ófrjósemisaðgerð, lyfjameðferð, hormónameðferð eða aðra læknismeðferð svo sem sálfræðimeðferð eða geðlæknismeðferð að skilyrði fyrir breytingu á skráningu kyns. Þá skal trans einstaklingur eiga rétt á að fá útgefin persónuskilríki sem samrýmast breytingunni.
Bæði trans- og intersex fólk sætir mismunun en hún getur tekið á ólíkar myndir. Bæði trans- og intersex fólk upplifir neikvæð áhrif af kynbundnum staðalímyndum, trans fólk vegna þess að kynvitund þess er á skjön við það kyn sem því er úthlutað við fæðingu og intersex fólk vegna þess að líkamar þess eru ekki í samræmi við dæmigerð einkenni karla og kvenna.
Trans fólk kann sjálfviljugt að leita eftir lagalegri viðurkenningu á kyni sínu samkvæmt kynvitund sinni (með því að fá opinberum gögnum breytt) og/eða að gangast undir kynleiðréttingarferli með skurðaðgerð eða hormónameðferð. Trans fólk sætir mannréttindabrotum þegar það getur ekki fengið lagalega viðurkenningu á kyni eða upplifir órökréttar kröfur til að fá slíka viðurkenningu.
Allt þar til ný lög um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 voru samþykkt í júní 2019 þurfti greinagerð sérstaks teymis á vegum Landspítalans, sem heldur utan um málefni trans fólks, að liggja fyrir til að trans fólk gæti breytt nafni sínu og kyni í Þjóðskrá samkvæmt lögum nr. 57/2012. Einstaklingar þurftu að vera undir eftirliti teymisins í 18 mánuði og lifa í „gagnstæðu kynhlutverki“ í a.m.k ár. Nú geta einstaklingar breytt kyni sínu og nafni í Þjóðskrá af eigin frumkvæði og hljóta þannig fullan sjálfskilgreiningarrétt.
Meginbreytingin sem fylgir nýju lögunum nr. 80/2019 er sú að fólki verður frjálst að gera breytingar á kynskráningu sinni án þess að þurfa fyrst greiningu á svokölluðum „kynáttunarvanda” af hálfu heilbrigðiskerfisins með tilheyrandi biðtíma og óvissu. Íslandsdeild Amnesty International fagnar nýjum lögum um kynrænt sjálfræði og telur þau skref í rétta átt en telur engu að síður ýmsu ábótavant, eins og til dæmis þá ákvörðun að fjarlægja lögbundið samráð við hagsmunafélög og hækkun aldurstakmarks fyrir nafna- og kynskráningarbreytingu án aðkomu foreldra eða sérfræðinefndar, en í frumvarpinu sem lagt var fram til fyrstu umræðu var miðað við frjálsa kynskráningu frá 15 ára aldri.
Amnesty International gangrýnir jafnframt að engar formlegar verklagslagsreglur séu til staðar innan teymi Landspítalans aðrar en þær sem eru leiðbeinandi fyrir teymið sjálft en þær eru hvorki skráðar annars staðar né samþykktar af öðrum aðilum en teyminu sjálfu. Ljóst er að sú meðferð sem trans einstaklingum er veitt hér á landi þarf að vera mun formfastari og í samræmi við alþjóðleg mannréttindaviðmið. Skýrra verklagsreglna og aðhalds er þörf.
Einstaklingur byrjar að lifa í samræmi við kynvitund, velur sér nýtt nafn, segir vinum og vandamönnum og allt sem viðkemur því. Þá tekur jafnan við greining og mat hjá geðlækni og sálfræðingi en greiningarferlið tekur a.m.k. 6 mánuði (þetta þýðir að fólk hittir geðlækni í 2-3 skipti og sálfræðing jafn oft á þessum tíma. Gert er ráð fyrir mánaðarlegu viðtali þar sem staðan og geðheilsa eru metin. Það er þó einstaklingsbundið hvað undirbúningsferlið tekur langan tíma. Ekki er gerð krafa um að lifa í „gagnstæðu kynhlutverki“ fyrir hormónameðferð en fólk er hvatt til þess að prófa sig áfram eins og það treystir sér til í átt að því sem það sækist eftir.
Boðið er upp á að hitta talmeinafræðing og iðjuþjálfa í eitt eða fleiri skipti á meðan greiningarferli stendur. Þá stendur fjölskylduráðgjöf einnig til boða þeim sem þess óska.
Hormónameðferð getur hafist að lokinni greiningu ef skjólstæðingur óskar þess og ekki er um að ræða líkamlegar eða geðrænar frábendingar. Einstaklingur fær þannig samþykki frá teymi Landspítalans til að hefja hormónameðferð. Hægt er að fá bæði estrógen, testósterón og testósterón blokkera. Kynhormónin hafa svo í för með sér miklar líkamlegar breytingar sem eru sambærilegar því þegar að einstaklingar ganga í gegnum kynþroska. Innkirtlafræðingur innan teymisins fer vel yfir alla þætti hormónameðferðar áður en hún hefst. Einstaklingar þurfa að vera á hormónum út lífið til að viðhalda hormónaframleiðslu.
Fyrir þá sem vilja undirgangast kynfæraaðgerðir er í boði að undirgangast þær hérlendis og þarf að sækja um slíka aðgerð sérstaklega hjá teymi Landspítalans.
Brjóstnám er framkvæmt hérlendis af læknum sem starfa innan sérfræðiteymisins. Hvenær brjóstnám er framkvæmt er einstaklingsbundið og í samráði við teymi Landspítalans en oftast er það eftir eitt ár í ferlinu. Einnig er í boði að fara í legnám og láta fjarlægja eggjastokka ef fólk kýs slíkt. Allt er þetta gert í samráði við teymi Landspítalans. Skeggrótartaka er einnig möguleg hérlendis og hefur fólk leitað sér lasermeðferðar til slíks.
Brjóstastækkun er einnig framkvæmd hérlendis en æskilegt er að slík aðgerð fari fram a.m.k. ári eftir að hormónameðferð er hafin.
Að loknu 18 mánaða formlegu ferli geta einstakingar sótt um að nafn og kyn sé leiðrétt í þjóðskrá. Slíkt leyfi verður að sækja um hjá fyrrnefndu sérfræðiteymi innan Landspítalans. Eingöngu er í boði að skrá kyn sem annað hvort „karl“ eða „kona“ eins og staðan er í dag, og eru sömuleiðis nánast öll nöfn kynjuð samkvæmt lögum um mannanöfn.
Hormónar, nafnabreytingar, skeggrótartökur, tímar og annað hjá sérfræðingum er á kostnað viðkomandi einstaklings. Eina sem er borgað að fullu eru kynfæraðgerðir og brjóstnám, sem eru greitt af sjúkratryggingum.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Fyrir ungt fólk sem vill hafa áhrif minnum við á ungliðahreyfingu Amnesty International en hópar eru starfandi um land allt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.