Samfélagið sem bakhjarl flóttafólks

Eitt af verk­efnum Íslands­deild­ar­innar er að þrýsta á íslensk stjórn­völd að taka upp hina svokölluðu „kanadísku leið“ í verndun flótta­fólks eða að samfé­lagið gerist bakhjarl flótta­fólks (Comm­unity Sponsorship) sem gefist hefur vel sérstak­lega þegar kemur að aðlögun flótta­fólks í nýjum heim­kynnum.

Þessi leið hefur einnig verið kynnt til sögunnar í öðrum löndum eins og Írlandi, Belgíu, Bretlandi, Þýskalandi, Nýja-Sjálandi og Argentínu. Þá eru önnur lönd einnig að skoða þessa leið eins og Finn­land og Sviss. Kanada var hins vegar fyrst ríkja til að kynna til sögunnar þessa leið til verndar flótta­fólki árið 1979 þegar fjöldi fólks flosnaði frá heim­ilum sínum í kjölfar Víet­nam­stríðsins. Síðan þá hafa rúmlega 300 þúsund flótta­menn komið til landsins fyrir tilstilli þess­arar leiðar.

Hvað eru Bakhjarlar flóttafólks?

Það er engin viður­kennd skil­greining á Bakhjörlum flótta­fólks en kjarni hugmynd­ar­innar felur í sér sameig­in­lega ábyrgð borg­ara­legs samfé­lags og ríkisins á aðlögun flótta­fólks.

Bakhjarlar flótta­fólks er ferli þar sem einstak­lingar úr hópi almennra borgara, hópar eða samfélög bjóða fjár­hags­lega, sálræna og hagnýta aðstoð við móttöku og aðlögun flótta­fólks í eigin landi yfir tilgreint tímabil. Bakhjarlar flótta­fólks fela í sér eftir­far­andi atriði:

  • Fyrir­hugaða komu flótta­fólks
  • Örugga og laga­lega leið
  • Sameig­in­lega ábyrgð á fjár­hags­legum og félags­legum stuðn­ingi stjórn-valda, borg­ara­legs samfé­lags og einstak­linga yfir tilgreint tímabil
  • Að stjórn­völd haldi áfram að bera endan­lega ábyrgð á aðlögun flótta­fólks

 

Bakhjarlar flótta­fólks eru tengdir en aðgreindir frá endur­bú­setu. Endur­bú­seta er ein af þremur alþjóð­lega viður­kenndum varan­legum lausnum sem fela í sér flutning flótta­manns frá gistilandi til endur­bú­setu­lands þar sem hann fær varan­lega vernd.

Engin ein nálgun hentar öllum bakhjörlum. Áskor­unin felur í sér að finna líkan sem passar inn í sérstakt samhengi hvers lands fyrir sig og byggja á lærdómi annarra landa.

 

 

Flestar útfærslur Bakhjarla flótta­fólks hafa mótast nýlega til að bregðast við ástandinu í Sýrlandi, New York-yfir­lýs­ing­unni og Sátt­mála Sameinuðu þjóð­anna um málefni flótta­fólks (The Global Compact on Refu­gees). Svo virðist sem ríki fari tvær leiðir við að útfæra Bakhjarla flótta­fólks:

  • sem tæki við móttöku eftir komu til landsins og stuðn­ingur við aðlögun flótta­fólks sem Flótta­manna­stofnun SÞ hefur veitt stöðu flótta­manns og er parað við bakhjarla. Í stuttu máli mætti kalla þessa útfærslu „stuðn­ing­send­ur­bú­setu“
  • sem leið til að leyfa samfé­lögum að styrkja og aðstoða við móttöku og veru útnefndra einstak­linga, sem ekki hafa fengið stöðu flótta­manns hjá SÞ en verið valdir af einstak­lingum eða samtökum. Flótta­manna­stofnun SÞ lítur á þessa útfærslu sem viðbót­ar­leið

 

Í stað þess að ríkið haldi alfarið utan um endur­bú­setu flótta­fólksins í eigin landi koma sjálf­boða­liðar, einka­að­ilar eða samtök, að endur­bú­setu­ferlinu með því að leggja fram fjár­hags­að­stoð og annars konar aðstoð við að auðvelda móttöku og aðlögun flótta­fólksins að samfé­laginu.

Þannig safna bakhjarlar tiltek­inni fjárupphæð fyrir t.d. kvóta­flótta­fjöl­skyldu, sjá um að finna fjöl­skyld­unni húsnæði, hjálpa henni að finna húsgögn og koma sér fyrir, fóta sig í kerfinu, leita að atvinnu, finna nauð­synleg námskeið, t.d. tungu­mála­nám­skeið, skrá sig í þau kerfi á vegum ríkisins sem þarf til að geta sótt nauð­synleg og sjálf­sögð rétt­indi eins og t.d. nám og heil­brigð­is­þjón­ustu og almennt að aðstoða flótta­fólkið eftir þörfum. Bakhjarlar aðstoða flótta­fólkið frá upphafi, taka á móti því á flug­vell­inum o.s.frv. Byrjað er að undirbúa komu flótta­fólksins um ári fyrir komu þess.

Lykilaðilar í Bakhjörlum flóttafólks

Miðað við reynslu og fram­kvæmd annarra ríkja byggist árang­urs­ríkt starf Bakhjarla flótta­fólks á stuðn­ingi og náinni samvinnu borg­ara­legs samfé­lags og stjórn­valda.

Stjórn­völd: Þrátt fyrir að Bakhjarlar flótta­fólks treysti á aukna þátt­töku almennra borgara í móttöku flótta­fólks gegna stjórn­völd mikil­vægu hlut­verki við að setja rammann í kringum umrædda móttöku­leið, veita eftirlit, ákveða hverjir eru umboðs­að­ilar Bakhjarla flótta­fólks (sjá hér á eftir) o.s.frv.

Sveit­ar­félög: Sveit­ar­félög eru mikil­vægir aðilar á öllum stigum mótunar, innleið­ingar og við að styðja við bakhjar­la­leiðina. Á Norð­ur­löndum gegna sveit­ar­fé­lögin mikil­vægu hlut­verki í að veita stuðning við aðlögun flótta­fólks . Sveit­ar­félög búa yfir margra ára reynslu og sérþekk­ingu á umræddu sviði, sem er afar dýrmætt fyrir bakhjarla að læra af. Helstu skyldur sveit­ar­fé­laga eru að vinna með bakhjörlum með því að deila reynslu sinni og þekk­ingu og taka við stuðn­ingi við flótta­fólk þegar bakhjar­la­tíma­bili lýkur.

Umboðs­að­ilar Bakhjarla flótta­fólks: Kanada hefur þróað líkan þar sem ríkið semur við traust samtök borg­ara­legs samfé­lags til að para saman bakhjar­la­hópa og flótta­fólk sem valið er í gegnum endur­bú­setu og veita þjálfun og stuðning bæði fyrir bakhjarla og flótta­menn á bakhjar­la­tíma­bilinu. Umboðs­að­ilar mega einnig vera bakhjarlar sjálfir. Helstu skyldur þeirra eru því að fá tilvís­anir frá innflytj­enda­yf­ir­völdum; velja, þjálfa og aðstoða bakhjarla; para þá við flótta­fólk og aðstoða flótta­fólk ef samband þess við bakhjarla verður að engu.

Bakhjarlar: Í flestum löndum eru bakhjarlar í góðgerð­ar­sam­tökum eða fimm manna hópur eða meira af almennum borg­urum sem eru metnir hæfir annað­hvort af umboðs­að­ilum Bakhjarla flótta­fólks eða stjórn­völdum. Einstak­lingar í bakhjar­la­hópum verða að vera til í að skuld­binda sig og vera skipu­lagðir og þjálf­aðir í að aðstoða flótta­fólk. Bakhjarlar verða líka að sýna að þeir hafi fjár­hags­lega burði til að standa straum af kostnaði á styrkt­ar­tíma­bilinu. Bakhjarl­arnir eru því ábyrgir fyrir að gera nákvæma aðlög­unar/búsetu­áætlun; sýna fram á fjár­hags­lega getu; hafa þekk­ingu á nærþjón­ustu; sýna að þeir búi yfir færni sem þörf er á hjá bakhjar­la­hópi (svo sem túlkur, endur­skoð­andi o.s.frv.) og vera tilbúnir til að vinna með sveit­ar­fé­laginu.

 

Flótta­menn:Í löndum þar sem Bakhjarlar flótta­fólks eru við lýði hafa flótta­menn í flestum tilvikum verið valdir af ríkinu í gegnum Flótta­manna­stofnun SÞ, í ferli sem líkist því þegar kvóta­flótta­fólk er valið til endur­bú­setu hér á landi. Hins vegar hefur Kanada einnig leyft bakhjörlum að útnefna mann­eskjuna sem þeir vilja styðja, sem í mörgum tilvikum hefur verið notað við fjöl­skyldusam­ein­ingu. Líkt og á við um aðra sem fá endur­bú­setu eru flótta­menn­irnir ábyrgir fyrir því að aðlagast sínu nýja samfé­lagi, læra tungu­málið og taka þátt í aðlög­un­ar­verk­efnum.

Einka­að­ilar: Ekki hefur verið mikið um að fyrir­tæki gegni ákveðnu hlut­verki í Bakhjörlum flótta­fólks. Í Kanada hafa fyrir­tæki þó tekið æ meiri þátt sem bakhjarlar og í Þýskalandi virðist sem fyrir­tæki hafi stutt við verk­efnið á landsvísu. Hins vegar eru mikil tæki­færi í því að fá einka­fyr­ir­tæki til að gegna ákveðnu hlut­verki í Bak-hjörlum flótta­fólks. Fyrir­tæki geta átt stóran þátt í að bjóða flótta­fólki atvinnu­tæki­færi og/eða bjóða fjár­hags­að­stoð til bakhjarla, annað­hvort beint eða í gegnum sjóði sem bakhjarlar geta sótt í.

Af hverju er Bakhjarlar flóttafólks vænleg leið?

Hags­bætur fyrir ríkið

  • Betri aðlögun flótta­fólks í samfé­laginu. Sýnt hefur verið fram á að kvóta-flótta­fólk sem kemur í þriðja land fyrir tilstilli bakhjarla á auðveldara með að mynda félagsleg tengsl, lærir tungu­málið fyrr í móttök­ulandinu og fær fyrr vinnu en flótta­fólk sem kemur í gegnum aðrar leiðir, þar sem fyrr­nefndi hópurinn tengist fast­mót­uðum, dyggum stuðn­ings­hópi í sam-félaginu.
  • Meiri mögu­leikar fyrir flótta­fólk að komast inn á atvinnu­mark­aðinn, sem er efna­hags­lega hagkvæmt til lengri tíma.
  • Skipu­lagðir búferla­flutn­ingar einstak­linga sem þegar hafa fengið stöðu flótta­fólks og árlegur fjöldi kvóta­flótta­fólks er fyrir­sjá­an­legur.
  • Samfélög verða til og menning skapast sem býður flótta­fólk sann­ar­lega velkomið á landsvísu.
  • Sterkari bönd myndast á milli flótta­fólks og borgara, sem styrkir samfé­lags­gerðina.
  • Traustur grunnur skapast fyrir lang­tíma­skuld­bind­ingu um vernd flótta­fólks.
  • Árang­urs­ríkt samstarf á milli borg­ara­legra samtaka og íbúa landsins.
  • Fjár­hags­legur sparn­aður fyrir ríkið þar sem bakhjarlar bera oftast einhverja fjár­hags­lega ábyrgð á móttöku og aðlögun kvóta­flótta­fólksins, m.a. á meðan flótta­fólkið er að koma undir sig fótunum í móttök­ulandinu, t.d. með því að útvega húsnæði. Tekið skal fram að fjár­hagsleg skuld­binding bakhjarla ætti þó hvorki að vera ósann­gjörn né óhóf­lega mikil.

 

Hags­bætur fyrir samfé­lagið

  • Dregur úr neikvæðri umræðu um flótta­fólk, fordómum og útlend­inga­h­atri.
  • Borg­arar jákvæðari í garð flótta­fólks og skiln­ingur eykst á aðstæðum þess.
  • Sterkari bönd myndast á milli flótta­fólks og bakhjarla.
  • Félagsleg samheldni eykst í samfé­lögum þar sem bakhjarlar styðja við flótta­fólk.
  • Borg­araleg samtök og bakhjarlar gegna mikil­vægu hluterki í að bjóða flótta­fólk velkomið.

 

Hags­bætur fyrir bakhjarla

  • Bakhjarlar leggja mikið af mörkum við mótun nýrrar kynslóðar sem er samfé­lags­lega virk og býr að samfé­lags­næmi.
  • Aukin þekking á stríðs­átökum, nauð­ung­ar­flutn­ingum og menn­ing­ar­læsi.
  • Náin vinátta bakhjarla við flótta­fólk sem varir út lífið.
  • Raunhæf lausn fyrir samfélög og einstak­linga sem vilja aðstoða flótta­fólk, nánar tiltekið mögu­leikinn á að veita flótta­fólki griðland og vernd í nærsam­fé­laginu í samstarfi við stjórn­völd.
  • Rík tilfinning fyrir eign­ar­haldi sem kemur með ábyrgð, tæki­færi til að aðstoða og upplifun stolts.