Algengt er að aðgerðasinnar, fræðifólk, stjórnarandstæðingar og mannréttindasinnar séu handtekin fyrir það eitt að tjá skoðanir sínar um ríkisstjórnina og konungsveldið í Tælandi. Stjórnvöld þar í landi beita kerfisbundnum og handahófskenndum skerðingum á mannréttindum og tjáningarfrelsi.
Stjórnvöld hafa stuðst við ýmis lög til að þagga niður í gagnrýnendum, þar á meðal lög um tölvuglæpi, opinberar samkomur og uppreisnaráróður. Fjölmargir einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir þátttöku í friðsamlegum mótmælum, umræður um umbætur í stjórnmálum eða gagnrýni á ríkisstjórnina og konungsveldið. Yfirvöld í Tælandi hafa einnit nýtt sér ástandið í kringum kórónuveirufaraldurinn til frekari skerðingar á tjáningarfrelsinu.
Kórónuveirufaraldurinn
Stjórnvöld í Tælandi settu á laggirnar miðstöð til að sporna gegn fölskum fréttum í nóvember 2019 sem hefur það hlutverk að fylgjast með efni á netinu og sía út upplýsingar sem teljast „falskar“.
Listamaður í Tælandi sagði frá því á Facebook þann 16. mars 2020 að hvorki hann né aðrir farþegar í flugi frá Spáni hefðu þurft að fara í skimun fyrir kórónuveirunni við komu til landsins. Viku seinna var hann handtekinn fyrir „falskar upplýsingar sem líklega leiða til ofsahræðslu meðal almennings“. Hann var leystur úr varðhaldi degi síðar gegn tryggingu.
Einstaklingar geta átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi fyrir birtingu falskra frétta.
Forsætisráðherra varaði svo við því á blaðmannafundi þann 24. mars 2020 að ákært yrði fyrir „misbeitingu samfélagsmiðla“ sem gaf til kynna að stjórnvöld hygðust bregðast hart við gagnrýni í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
Þann 26.mars voru neyðarlög sett í landinu þar sem stjórnvöldum var m.a. veitt leyfi til að ritskoða og breyta upplýsingum sem þau telja falskar eða villandi.
Takmarkanir á tjáningar– og fundafrelsi hefur í kjölfarið aukist til muna.
Þann 15. október 2020 settu yfirvöld bann við skilaboðum á netinu sem gætu „ýtt undir ótta“, ógnað þjóðaröryggi eða almennu siðgæði.
Á sama tíma hafa yfirvöld reynt að loka fyrir samskiptaforritið Telegram sem hefur mikið verið notað til að skipuleggja mótmæli ásamt því að loka á notendur á samfélagsmiðlum með því að beita lögum um netglæpi til þess að koma í veg fyrir samskipti aðgerðasinna.
Einnig hafa yfirvöld reynt að loka fyrir útsendingar fjölmiðla fyrir að brjóta neyðarlög.
Þann 25. ágúst 2020 tilkynnti Facebook að fyrirtækið hafi treglega látið undan kröfum tælenskra stjórnvalda um að ritskoða efni á netinu.
„Hótanir tælenskra stjórnvalda um lögsókn til að neyða Facebook til að taka þátt í ritskoðun stjórnvalda á netinu er enn ein árásin á tjáningarfrelsið. Enn og aftur er Facebook að láta undan þrýstingi frá stjórnvöldum á kostnað mannréttinda og skapar þar með enn eitt hættulega fordæmið um brot gegn tjáningarfrelsinu á netinu. Tæknifyrirtækið verður að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að standa gegn kröfum stjórnvalda um ritskoðun. Mannréttindi verða að ganga fyrir hjá tæknifyrirtækjum, ekki markaðsaðgangur og hagnaður.“
Rasha Abdul-Rahim, stjórnandi innan tæknideildar Amnesty International
Á árinu 2020 hafa friðsamleg mótmæli átt sér stað reglulega þar sem ungt fólk er í fararbroddi. Sameiginlegar kröfur mótmælenda eru nýjar kosningar, ný stjórnarskrár og að stjórnvöld hætti að áreita einstaklinga.
Frá því að neyðarlögin voru sett í mars 2020 hafa yfirvöld í auknum mæli handtekið og ákært mótmælendur í friðsamlegum mótmælum. Þeir hafa einnig greint frá því að hafa sætt áreitni og hótunum lögreglumanna.
Meðlimir ýmissa félagasamtaka hafa einnig verið handteknir. Þann 19. ágúst voru Baramee Chairat, Suwanna „Looktan“ Tanlek og Korakot Sangyenpan handtekin en þau eru meðlimir þriggja mismunandi félagasamtaka.
Daginn eftir voru átta aðrir aðgerðasinnar handteknir fyrir þátttöku í mótmælum í nafni lýðræðis. Enn fremur var gefin út handtökuskipun á hendur fjórum öðrum einstaklingum á mótmælunum og 16 öðrum mótmælendum var sagt að mæta á lögreglustöð..
Aðgerðasinninn, Arnon Nampa, hefur tvisvar verið handtekinn fyrir mótmæli. Hann var handtekinn í seinna skiptið þann 19. ágúst 2020 fyrir mótmæli fyrr í mánuðinum og var í kjölfarið ákærður fyrir uppreisnaráróður og brot á lögum um tölvuglæpi.
Yfir 10.000 einstaklingar tóku þátt í stærstu mótmælunum sem átti sér stað í október 2020 og lýstu yfirvöld yfir neyðarástandi í landinu þann 15. október. Þá var sett á fimm manna samkomubann í 30 daga.
Lögreglan hefur beitt aukinni hörku eftir því sem mótmælin verða fjölmennari. Í október 2020 var öflugum vatnsbyssum með litarefnum beitt gegn mótmælendum. Þessar vatnsbyssur geta valdið alvarlegum áverkum. Litarefnin merkja fólk sem getur leitt til handtöku friðsamlegra mótmælenda, fjölmiðlafólks og jafnvel íbúa sem eiga leið um svæðið sem fá á sig litinn.
Greint hefur verið frá því að lögreglumenn hafi ógnað og áreitt börn á skólasvæðum með spurningum og myndatökum til þess að reyna koma í veg fyrir þátttöku þeirra í frekari mótmælum.
Almenningssamgöngum í Bangkok var einnig lokað að hluta til í október 2020 til að koma í veg fyrir frekari mótmæli.
Alls hafa hátt í 200 einstaklingar verið handteknir og ákærðir fyrir þátttöku í mótmælum á árinu 2020.
Löggjöf til þöggunar
Bæði hafa hegningarlög og lög um tölvuglæpi verið notuð til þess að ákæra einstaklinga fyrir færslur á netinu sem teljast skaðlegar yfirvöldum og konungsveldinu.
Lögum um tölvuglæpi var breytt árið 2016 til að veita yfirvöldum leyfi til þess að fylgjast með og þagga niður í einstaklingum á netinu og ákæra þá fyrir ýmis brot út frá víðtækum skilgreiningum í lögunum.
Ákveðnar greinar í tælenskum hegningarlögum gera uppreisnaráróður og meiðyrði refsiverð.
Árið 2019 þaggaði ríkisstjórnin enn frekar í röddum fólks á netinu með því að beita lögum um netöryggi og gagnavernd. Lögin voru sett í febrúar 2019 og veita stjórnvöldum leyfi til þess að auka stafrænt eftirlit og ritskoðun í landinu. Lögin leyfa yfirgripsmikið eftirlit án lagalegrar réttarverndar.
Amnesty International greindi frá því í skýrslunni „They are always watching“ hvernig einstaklingar sættu áreitni og hótunum eftir að hafa gagnrýnt stjórnvöld á samfélagsmiðlum.
Stjórnvöld hafa bæði krafist þess að einstaklingar dragi til baka gagnrýnina og eyði færslum ásamt því að þrýsta á samfélagsmiðlafyrirtæki að fjarlægja og takmarka aðgang að efni sem er ekki hliðhollt stjórnvöldum.
Ung kona, aðgerðasinni og háskólanemi, var handtekin og yfirheyrð af tíu lögreglumönnum í nóvember 2019 vegna tísts um ríkisstjórnina og konungsveldið sem var deilt 60 þúsund sinnum á Twitter. Áður en hún eyddi aðgangi sínum á Twitter setti hún inn færslu þar sem hún varaði aðra við að segja skoðanir sínar á netinu:
„Ég vil vara ykkur við. Hugsið ykkur tvisvar um áður en þið setjið inn tíst eða deilið tístum. Það er fólk þarna úti sem er alltaf að fylgjast með.“
Hún var síðar neydd til þess að skrifa undir skjal þess efnis að hún gerði sér grein fyrir að hún yrði ákærð ef hún setti inn svipaða færslu aftur.
Margir þeirra sem hafa verið skotmark stjórnvalda vegna færslna sinna á netinu bíða réttarhalda og gætu átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi og háar sektir.
Friðsamleg mótmæli
Yfirvöld í Tælandi hafa í gegnum árin stuðst við ýmsar löggjafir til að koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli. Árið 2015 setti herstjórnin í landinu bann við “pólitískar” samkomur þar sem fleiri en fimm einstaklingar koma saman.
Árið 2019, var hópur 17 einstaklinga kærður fyrir friðsamleg mótmæli fyrir utan lögreglustöð í júní 2015.
Það að leggja fram ákæru á hendur þessum einstaklingum næstum fjórum árum síðar virðist vera pólitísk ákvörðun með það markmið að þagga niður í einstaklingum og brýtur á réttinum til tjáningar- og fundafrelsis í Tælandi.
Tveir mótmælendur voru handteknir þann 15. júlí 2020 fyrir mótmæli án leyfis. Þeir voru að mótmæla því að flugáhöfn hefði ekki þurft að sæta sóttkví þrátt fyrir að einstaklingur úr áhöfninni hafi greinst með smit.
Aðgerðasinni var handtekinn þann 8. júní 2020 fyrir mótmæli utan kambódíska sendiráðið þar sem hann kallaði eftir rannsókn á hvarfi Tælendings í útlegð.
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu