Ofsóknir gegn blaðafólki, aðgerðasinnum, lögfræðingum og fræðimönnum fyrir það eitt að nýta rétt sinn til tjáningarfrelsis er sá veruleiki sem fólk býr við í Kína. Kínverska ríkisstjórnin gengur einna lengst í heiminum í ritskoðun á netinu og má segja að yfirvöld hafi óskorað vald yfir netheimum. Aðgangur að internetinu er mjög takmarkaður og „eldveggurinn mikli“ lokar á þúsundir vefsíðna og samfélagsmiðla, þar á meðal Facebook, Instagram og Twitter.
Ritskoðun og eftirlit á netinu
Lög um netöryggi tóku gildi í júní 2017 og samkvæmt þeim eru netfyrirtæki sem starfa í Kína skyldug til þess að ritskoða efni, geyma öll notendagögn og vera með skráningakerfi sem notast við fullt nafn notenda.
Lögin brjóta gegn alþjóðlegum viðmiðum um tjáningarfrelsið og friðhelgi einkalífsins og með þeim er víðáttumikil ritskoðun og strangt eftirlit réttlætt í nafni þjóðaröryggis.
Yfirvöldum hefur því tekist að með hjálp tæknifyrirtækja að stunda strangt eftirlit með almenningi með aðgangi að skráningum notenda með persónuupplýsingum, gífurlegum gagnaupplýsingum og tækni sem ber kennsl á andlit.
Í ágúst 2018 hófu yfirvöld rannsókn á nokkrum netþjónustufyrirtækjum vegna þess að sumir notendur þeirra „dreifðu upplýsingum sem stofnuðu þjóðaröryggi í hættu, meðal annars með ofbeldi og ógnunum, fölskum upplýsingum, sögusögnum og klámi.“
Í september 2018 var notendaskilmálum breytt hjá WeChat í Kína, einu stærsta samskipta- og samfélagsmiðlaforriti þar í landi með yfir 900 milljón notendur, til þess eins að safna persónuupplýsingum sem yfirvöld hefðu aðgang að.
Í byrjun júní 2020 greindi tæknifyrirtækið Zoom frá því að hafa eytt aðgangi mannréttindasinna að þjónustu sinni vegna beiðni frá stjórnvöldum í Kína. Einnig gaf fyrirtækið til kynna að það myndi loka fyrir fundi í framtíðinni sem kínversk yfirvöld segja „ólöglega“ ásamt því að hafa viðurkennt að hafa lokað fyrir þrjá af fjórum fundum sem tengdust mótmælunum á Torgi hins himneska friðar. Þar á meðal var aðgangi lokað hjá kínverskum aðgerðasinna sem býr í Bandaríkjunum, Zhou Fengsuo, eftir að hann stóð fyrir minningarathöfn tengda mótmælunum. Einnig var aðgangi lokað hjá aðgerðasinnunum Wang Dan og Lee CheukYan.
Aðgangarnir hafa verið opnaðir á ný eftir að fyrirtækið viðurkenndi að mistök hafi verið gerð og greindi frá því að aðgerðirnar „hefðu ekki átt að hafa áhrif á notendur utan meginlands Kína“.
Frá því að kórónuveirufaraldurinn braust út í Kína hafa stjórnvöld viljað stjórna fréttaflutningi og kæfa neikvæða umfjöllun og viðhalda þannig ritskoðun á réttmætum upplýsingum um veiruna. Fjöldi greina hefur verið ritskoðaður til að mynda á helstu fréttamiðlum.
Ófá dæmi eru um það að sjálfstætt starfandi fjölmiðlafólk og aðgerðasinnar hafa verið áreitt af stjórnvöldum fyrir að miðla upplýsingum um kórónuveiruna á samfélagsmiðlum og gagnrýna viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum.
Í lok desember 2019 deildi læknirinn Li Wenliang í Wuhan-borg með samstarfsfólki sínu áhyggjum af sjúklingum sem sýndu samskonar einkenni og þeir sem greindust með SARS-veiruna í suðurhluta Kína árið 2002 og lýsir sér í alvarlegum öndunarfæraerfiðleikum. Þaggað var niður í honum og honum refsað af staðaryfirvöldum fyrir að „dreifa sögusögnum“. Hann lést sjálfur af völdum veirunnar í febrúar 2020.
Xu Zhiyong lögfræðingur og aðgerðasinni sem þekktur er fyrir vinnu sína fyrir minnihlutahópa kallaði eftir því í febrúar 2020 að forsetinn Xi Jinping myndi segja af sér og gagnrýndi viðbrögð stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum og mótmælunum í Hong Kong. Áður eyddi hann fjórum árum í fangelsi fyrir friðsamlegar aðgerðir og var leystur úr haldi árið 2017. Hann hefur verið í felum síðan í desember 2019 eftir að yfirvöld leystu upp fund mannréttindalögfræðinga og aðgerðasinna sem hann sótti. Yfir 10 manns sem sóttu fundinn hafa verið kallaðir til lögreglu eða settir í varðhald. Um miðjan febrúar 2020 var hann handtekinn á heimili Yang Bin, aðgerðasinna sem einnig hefur gagnrýnt ristkoðun stjórnvalda á tímum kórónuveirufaraldursins.
Lögfræðingurinn Chen Quiushi, sem heldur uppi eigin fréttasíðu, tilkynnti að hann hefði verið áreittur af yfirvöldum fyrir að setja inn myndband frá sjúkrahúsum í Wuhan. Fang Bin, íbúi í Wuhan, var einnig yfirheyrður af yfirvöldum eftir að hann setti myndband á netið sem sýndi lík fórnarlamba veirunnar.
Í apríl 2020 var mannréttindasinninn Chen Mei ásamt tveimur öðrum einstaklingum numinn á brott af lögreglu fyrir þátttöku í verkefni um að skjalasöfnun og birta ritskoðaðar greinar tengdar kórónuveirufaraldrinum. Fjölskylda Chen Mei vissi ekki um afdrif hans í í tvo mánuði eða þangað til henni var greint var frá því í júní að hann væri í gæsluvarðhaldi fyrir það að „leita uppi rifrildi og vandræði“.
Þann 18. mars 2020 kröfðust kínversk stjórnvöld þess að bandarískt blaðafólk, sem vinnur fyrir New York Times, Wall Street Journal og Washington Post, skiluðu inn fjölmiðlaleyfi sínu fyrir árið 2020 innan 10 daga og má það ekki lengur vinna sín störf á meginlandi Kína, í Hong Kong og Macau.
„Blaðafólk sem hefur komið upp um fjöldann allan af mannréttindabrotum í Kína er skotmark þessarar svívirðilegu árásar kínverskra stjórnvalda gegn tjáningarfrelsinu. Fréttamiðlarnir sem blaðafólkið starfar hjá hafa fjallað ítarlega um útbreiðslu kórónuveirunnar í Wuhan.“
Joshua Rosenzweig, Teymisstjóri Amnesty International um málefni Kína.
Zhang Zhan var handtekin í maí 2020 og ákærð fyrir að „stofna til rifrilda og vandræða“ vegna umfjöllunar hennar í febrúar 2020 um kórónuveirufaraldurinn í Wuhan. Hún var dæmd í fjögurra ára fangelsi þann 28. desember 2020.
Google vann leynilega að verkefninu Dragonfly árið 2018 en í því fólst að hleypa leitarvélinni aftur af stokkunum í Kína í samvinnu við kínversk stjórnvöld. Yfirvöld hefðu þá getað ritskoðað enn frekar og jafnvel njósnað um notendur Google í Kína
Kínverskum Google-notendum átti að vera meinaður aðgangur að vefsíðum eins og Wikipedia og Facebook og leitarorð eins og „mannréttindi” bönnuð.
Bandaríski tölvurisinn sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis í júlí 2019 að fyrirtækið væri hætt við að hleypa af stokkunum verkefninu Dragonfly.
Í yfirlýsingunni er hins vegar ekki minnst á að fallið verði algjörlega frá ritskoðaðri leitarvél og hefur Google í raun og veru ekki enn útilokað samstarf við Kína í álíka verkefnum.
Í haldi fyrir tjáningu á netinu
Algengt er að bloggarar, blaðafólk, stofnendur vefsíðna eða einstaklingar sem tjá skoðanir sínar á netinu séu handteknir. Einstaklingar hafa einnig í auknum mæli greint frá því að þeim sé hótað, ógnað eða þeir handteknir fyrir að nota samfélagsmiðla síðustu ár.
Eitt af fjölmörgum dæmum eru handtökur blaðafólks sem vinnur fyrir vefsíðuna 64tiangwang.com en þar er sagt frá mótmælum í Kína og haldið utan um skráningu þeirra. Í lok árs 2017 sátu tíu starfsmenn vefsíðunnar í fangelsi og einn af stofnendum hennar, Huang Qi, var dæmdur í 12 ár í fangelsi í leynilegum réttarhöldum árið 2019. Hann hafði þá sætt varðhaldi frá því í nóvember 2016 fyrir að „leka ríkisleyndarmálum“.
Bloggararnir Lu Yuyu og Li Tingyu greindu frá mótmælum í Kína daglega frá árinu 2013 á bloggi sínu og samfélagsmiðlum þangað til þau voru tekin í hald árið 2016. Þau voru og var dæmd í 4 ára fangelsi árið 2017 fyrir að „leita uppi rifrildi og vandræði“.
Öll ummæli um mótmælin á Torgi hins himneska friðar árið 1989 eru enn ritskoðuð í Kína og eiga einstaklingar sem reyna að minnast fórnalambanna á hættu að vera ofsóttir eða handteknir af geðþóttaástæðum.
Í apríl 2019 var aðgerðasinninn Chen Bing dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að „leita uppi rifrildi og vandræði“. Hann hafði framleitt flöskur fyrir kínverskt áfengi sem voru til minningar um fórnarlömb mótmælanna.
Aðgerðasinninn Deng Chuanbin var einnig handtekinn sama ár fyrir að minnast mótmælanna í tísti.
Lee MingCheh, framkvæmdastjóri félagasamtaka frá Tævan, var handtekinn við komuna til meginlands Kína í nóvember 2017 og dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að „grafa undan ríkisvaldi“ eftir að hafa tekið þátt í umræðum á netinu um lýðræði, fall Sovétríkjanna og blóðbaðið á Torgi hins himneskar friðar.
Trúfrelsi
Í mars 2017 settu stjórnvöld reglugerð sem banna „öfgahegðun“ eins og að ganga í búrku, vera með „óeðlilegt“ skegg og lesa eða birta „öfgafullt efni“.
Allt að ein milljón einstaklinga, aðallega minnihlutahópar múslima, hefur verið handtekin að geðþótta og komið fyrir í svokölluðum endurmenntunarbúðum í Xinjiang-héraði í norðvesturhluta Kína. Þeirra á meðal eru Úígúrar, Kasakar og aðrir múslimskir minnihlutahópar. Ættingjar og vinir þess fólks sem hefur verið handsamað fá engar upplýsingar og vita ekki hvar ástvinum þeirra er haldið.
Úígúrar búsettir utan Kína þurfa einnig að þola árásir og ofsóknir kínverskra yfirvalda. Amnesty International hefur skráð um 400 sögur einstaklinga um ágengt eftirlit, ógnandi símtöl og jafnvel morðhótanir. Einnig er herjað á fjölskyldumeðlimi sem búsettir eru í Kína til að þagga niður í þeim sem segja frá ástandinu erlendis.
Reglur um trúmál voru endurskoðuð í febrúar 2018 þar sem skrásett er að ríkið stjórni öllum þáttum trúarathafna og hafi leyfi til að fylgjast með, stjórna og mögulega refsa trúarháttum.
Þessar breytingar bæla enn frekar niður réttinn til trúfrelsis, sérstaklega fyrir búddista, úígúra, múslima og þá sem tilheyra óþekktum kirkjum.
Algengt er að búddahof, taómusteri, moskur og kirkjur séu eyðilögð samkvæmt fyrirmælum yfirvalda og trúarleiðtogar sem ekki eru viðurkenndir af stjórnmálaflokknum eru handteknir á þeim grundvelli að þeir „stofni þjóðaröryggi í hættu“.
Þann 30. desember 2019 var presturinn Wans Yi dæmdur í 9 ára fangelsi fyrir „ólöglegan viðskiptarekstur“ og að „etja til kollvörpunar stjórnvalda“.
Hong Kong
Árið 2019 studdu stjórnvöld í Kína frumvarp um framsal frá Hong Kong sem hefði þýtt að kínversk stjórnvöld hefðu vald til að framselja grunaða einstaklinga til meginlands Kína. Það leiddi til mótmæla af stærðargráðu sem á sér ekki fordæmi á svæðinu. Íbúar Hong Kong mótmæltu reglulega á götum úti þrátt fyrir að standa frammi fyrir harkalegum aðgerðum lögreglu, þar á meðal tilefnislausri beitingu táragass, geðþóttahandtökum, barsmíðum og illri meðferð í varðhaldi.
Ný þjóðaröryggislög fyrir Hong Kong voru samþykkt í Kína þann 30. júní 2020 og tóku gildi sama dag. Kínversk yfirvöld samþykktu lögin án þess að tryggja gagnsæi eða ábyrgðarskyldu og farið var fram hjá löggjafarvaldi Hong Kong. Amnesty International greindi frá því að orðalag í lögunum er allt of víðtækt og grefur undan mannréttindavernd í Hong Kong. Orðalag í lögunum er á þann veg að lögsaga þeirra nær einnig til fólks sem hefur aldrei komið til Hong Kong. Það þýðir að hver einasta manneskja í heiminum, óháð ríkisborgararétti eða staðsetningu, gæti strangt til tekið verið talin brotleg við þessi lög og þar með átt á hættu handtöku eða lögsókn innan lögsögu Kína, jafnvel við millilendingu þar.
Lestu meira um hættuleg áhrif laganna hér.
Um leið og lögin tóku gildi hófu yfirvöld í Hong Kong herferð gegn lögmætri og friðsamlegri tjáningu.
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu