Árið 2019 fyrirskipaði forseti Hondúras harkalegar aðgerðir gegn þeim sem mótmæltu á götum úti og kröfðust afsagnar hans og ábyrgðarskyldu af hálfu stjórnvalda. Í tilraun sinni til að þagga niður í mótmælendum hefur forsetinn m.a. beitt vopnuðum hersveitum.
Öryggissveitir landsins beittu m.a. táragasi og gúmmíkúlum og særðu tugi fólks. Frá apríl til júlí 2019 voru sex einstaklingar myrtir í mótmælum en þar af felldu öryggissveitir landsins þrjá. Að minnsta kosti 80 einstaklingar særðust í mótmælunum.
Kúgunartilburðir stjórnvalda í Hondúras gegn mótmælendum hafa áður verið fordæmdir. Í júní 2018 gaf Amnesty International út skýrsluna, Protest Prohibited: Use of Force and Arbitrary Detentions to Suppress Dissident in Honduras. Skýrslan greinir frá því hvernig stjórnvöld beittu óhóflegu valdi gegn friðsömum mótmælendum í kjölfar vafasamra kosninga í landinu þann 26. nóvember 2017 og gripu til geðþóttahandtaka. Hundruð einstaklinga og mótmælenda var haldið föngum við hörmulegar aðstæður svo mánuðum skipti og þeim neitað rétti til sanngjarnrar málsmeðferðar og tilhlýðilegrar málsvarnar. Allt frá kosningunum 2017 hefur mótmælahrina í landinu verið nánast stöðug en frá 4. mars til 25. júní 2019 fóru a.m.k. 346 mótmæli fram vítt og breitt um landið.
Dauðsföll mótmælenda af völdum skotvopna
Þann 20. júní 2019 var 17 ára gamall nemi, Ebil Noel Corea Maradiaga, myrtur af hermönnum í bænum Yarumela. Nokkrum klukkustundum áður en Ebil var myrtur höfðu mótmælendur komið vegartálma fyrir á einni götu í bænum sem hluti af mótmælaðagerðum sínum en þeir hopuðu fljótlega undan og reyndu að koma sér á brott. Engu að síður mætti bílalest hermanna skömmu síðar á staðinn og tóku hermenn að skjóta á borgara og elta nokkra uppi, þeirra á meðal Ebil og föður hans.
Enda þótt feðgarnir hafi verið óvopnaðir og reynt að leita skjóls í húsasundi, greindi vitni frá því að hermaður hafi tekið sér stöðu, miðað og skotið Ebil sem féll í fangið á föður sínum eftir að hermaðurinn hæfði hann í bringuna.
Ebil lést af skotsárum í fangi föður síns. Í 41 dag vaktaði fjölskylda hans gröfina, dag og nótt til að tryggja að engin kæmi á vegum hersins eða annarra úr röðum yfirvalda, til fjarlægja byssukúluna úr brjósti Ebil og þannig fjarlægja sönnunargögn sem tengdu herinn við morðið. Foreldrar hans börðust linnulaust fyrir réttlæti syni sínum til handa en saksóknari neitaði upphaflega að leyfa óháðum aðila að framkvæma krufningu á honum. Í september sama ár var hermaður loks handtekinn grunaður um að hafa valdið dauða Ebil.
Hermenn myrtu einnig Erik Peralta, 37 ára, þann 19. júní 2019 þegar hann var á heimleið úr vinnu og reyndi að komast yfir breiðgötu í höfuðborginni Tegucigalpa sem var lokuð vegna mótmæla. Samkvæmt krufningarskýrslu fór byssukúlan í gegnum bringuna og lést Erik samstundis.
Lögregla gerir atlögu í háskóla
Amnesty International skráði fjölmörg tilvik þar sem óhóflegu valdi var beitt af hálfu yfirvalda í Hondúras en eitt slíkt var áhlaup herlögreglu í háskóla (UNAH) þann 24. júní 2019 þegar hún réðst inn í háskólabygginguna og skaut að tugum einstaklinga sem mótmæltu í anddyrinu. Í fréttatilkynningu sem stjórnvöld sendu síðar frá sér kom fram að aðgerð herlögreglunnar hafi verið réttlætanleg og nauðsynleg til að bjarga herlögreglumanni, sem nemendur hafi numið á brott, auk þess sem háskólanemarnir hafi beitt bensínsprengjum og öðrum vopnabúnaði gegn öryggissveitum.
Amnesty International telur að yfirvöld hafi beitt harkalegum aðgerðum gegn mótmælendum sem voru bæði ónauðsynlegar og óhóflegar. Þó að einhverjir mótmælendur hafi gripið til ofbeldis þýðir það ekki að öll mótmælaaðgerðin hafi verið ofbeldisfull.
Samtökin fundu engar sannanir fyrir meintu brottnámi á herlögreglumanni og rektor háskólans staðfesti að engar sannanir lægju fyrir því né heldur hafi samningaleið verið reynd áður en herlögregla réðst til atlögu. Að minnsta kosti fimm háskólanemar særðust í atlögunni m.a. 25 ára nemandi sem var skotinn í öxlina.
Refsileysi
Refsileysi vegna mannréttindabrota, sem Amnesty International hefur fordæmt í mörg ár, er landlægt í Hondúras og leiðir til enn frekari brota.
Refsileysi á sér stað í Hondúras vegna ótta um hefndaraðgerðir yfirvalda eða ófullnægjandi rannsókna á mannréttindabrotum.
Í átta málum sem Amnesty International rannsakaði árið 2019 lögðu sumar fjölskyldur þolenda ekki fram kærur til skrifstofu saksóknara af ótta við refsiaðgerðir yfirvalda eða þá að fjölskyldurnar treystu ekki á hlutleysi saksóknara þrátt fyrir að hafa lagt fram kærur. Í að minnsta kosti þremur málum héldu fjölskyldurnar því fram að nauðsynleg skref hafi ekki verið tekin til að tryggja fullnægjandi rannsókn í tíma.
Enn eitt dæmið um refsileysi átti sér stað í kjölfar morðtilræðis þann 24. apríl 2019. Óeinkennisklæddur maður, sem átti í samstarfi við lögreglu landsins, skaut einstakling sem ekki er hægt að nafngreina af öryggisástæðum. Þrátt fyrir haldbær sönnunargögn, myndir og vitnisburði um atvikið var enginn sóttur til saka fyrir tilræðið. Enda þótt kæra hafi verið lögð fram strax í kjölfar atviksins og falast eftir upplýsingum frá embætti saksóknara um framvindu málsins hafa engin svör borist.
Amnesty International hitti ráðamenn í Hondúras til að ræða mannréttindaástandið í landinu og kynna gögn samtakanna sem sýndu alvarleika ástandsins. Ráðamenn héldu því fram að farið hefði verið að lögum landsins og ef dæmi væru um annað stafaði þetta af reynsluleysi einstakra aðila en ekki kúgunarstefnu stjórnvalda. Að auki sögðu þeir að valdbeiting hersins hafi verið réttlætanleg af öryggisástæðum og væri í samræmi við stjórnarskrá.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu