Tjáningarfrelsi í Pakistan er skert með ströngum lögum og stjórnvöld hafa beitt harkalegum aðgerðum gegn tjáningarfrelsinu síðustu ár. Þar er gerð atlaga að aðgerðasinnum og fjölmiðlafólki og refsað er fyrir gagnrýni á netinu. Stjórnvöld beita ýmist lögum um netglæpi (e. The Prevention of Electronic Crimes Act (PECA)), hryðjuverkalögum, lögum um guðlast og ákvæðum hegningarlaga er varða uppreisnaráróður og meiðyrði.
Lög um guðlast
Lög um guðlast eru notuð óspart af stjórnvöldum í Pakistan til að herja á trúarlega minnihlutahópa og einstaklinga. Trúarlegir klerkar hafa umtalsvert vald þegar kemur að málum um guðlast og leitar lögreglan oft til þeirra um álit. Þetta skerðir tjáningarfrelsi í landinu verulega.
Nýlega hefur átt sér stað ógnvekjandi þróun þar sem aukning er á ákærum og ásökunum um guðlast í Pakistan og lögum beitt í auknum mæli gegn listafólki, mannréttindasinnum og fjölmiðlafólki.
Í ágúst 2020 höfðuðu lögregluyfirvöld mál gegn leikkonunni Saba Qamar og söngvaranum Bilal Saeed fyrir að taka upp tónlistarmyndband í mosku. Eftir að myndbandið kom út á netinu brutust út mótmæli í borginni Lahore þar sem leiðtogar trúarflokksins Tehreek-i-Labbaik Pakistan (TLP) hétu „hefndum“ gegn listafólkinu.
Bæði Qamar og Saeed birtu afsökunarbeiðni á samfélagsmiðlum en líf þeirra er enn í hættu.
Í sama mánuði höfðuðu lögregluyfirvöld einnig mál gegn blaðamanninum og mannréttindasinnanum Marvi Sirmed fyrir tíst sem hann birti þann 22. ágúst 2020.
Í júlí 2020 var Tahir Ahmed Naseem, sem var ákærður fyrir guðlast, skotinn til bana í réttarsal. Hann glímdi við geðröskun og var skotinn a.m.k. sex sinnum. Lögregla og lögfræðingar voru meðal þeirra sem lofuðu morðið með myndbirtingu af líkinu á netinu.
„Svo virðist sem íbúar Pakistan finni fyrir þrýstingi um að styðja þá sem notfæra sér lög um guðlast til að beita ofbeldi og skapa ótta. Með því að hunsa síendurteknar kröfur Amnesty International um að afnema lög um guðlast ýta stjórnvöld í Pakistan undir ofbeldi og ótta.“
David Griffiths, yfirmaður alþjóðaskrifstofu Amnesty International.
Amnesty International gaf út skýrslu árið 2016 þar sem beitingu laga um guðlast þar í landi var skoðuð. Þar kom fram að lögin eru mjög óljós, það þarf litlar sannanir til að sakfella og kærur eru oft samþykktar gagnrýnislaust af lögreglu og yfirvöldum eða vegna hótana og þvingana. Margir einstaklingar hafa verið sakfelldir fyrir guðlast þar sem ekki er fylgt stöðlum um sönnunarbyrði byggða á skynsamlegum vafa.
Það þarf að fella lög um guðlast úr gildi í Pakistan þar sem þau eru ekki í samræmi við alþjóðalög um mannréttindi.
Fjórir einstaklingar voru dæmdir í 26 ára fangelsi í nóvember 2014 fyrir guðlast, þeirra á meðal var leikkonan Veena Malik, vegna sjónvarpsþáttar með leiknu atriði af brúðkaupi sem var byggt á brúðkaupi dóttur Múhameð spámanns.
Í desember 2019 var háskólakennarinn og samviskufanginn Junaid Hafeez dæmdur til dauða fyrir guðlast fyrir ummæli á Facebook. Hann hefur verið í haldi, að mestu í einangrun, síðan 2013.
Einstaklingar með geðraskanir eiga einkum á hættu að vera ákærðir fyrir guðlast. Ahmed Khan varð dæmdur til dauða eftir ásakanir um guðlast gegn spámanninum Múhameð. Mánuði áður en hann var handtekinn var hann greindur með geðklofa en ekki var tekið tillit til þeirrar greiningar fyrir dómi.
Lög um guðlast hafa einnig skapað umhverfi þar sem sumir einstaklingar, eins og þeir sem leggja fram kæru um guðlast, trúa því að þeir eigi rétt á því að taka lögin í sínar hendur án afskipta lögreglu. Lögin hafa þannig verið notuð sem afsökun fyrir ofbeldisverk, sérstaklega gegn trúarlegum minnihlutahópum.
Sawan Masih var sakfelldur og dæmdur til dauða fyrir guðlast í mars 2014 í kjölfar ásakana um að hafa móðgað spámanninn Múhameð. Íbúar í nærliggjandisamfélagi og leiðtogar úr mosku tóku undir ásakanirnar sem leiddu til árása á kristna hverfið þar sem Sawan bjó.
Aqib Saleem, úr samfélagi Ahmadiyya, var ákærður fyrir guðlast árið 2014 fyrir að hafa sett inn mynd á Facebook af nakinni konu sem sat á Kaaba, einum helgasta stað múslima. Þó að hann hafi verið sýknaður í réttarhöldum árið 2015 þá leiddi málið til dauða þriggja einstaklinga í kjölfar árásar á íbúa Ahmadiyya-samfélagsins.
Asia Bibi var dæmd til dauða fyrir guðlast árið 2010. Í október 2018 var hún sýknuð en vegna þrýstings og hótana frá almenningi þá bönnuðu yfirvöld henni að fara úr landi fyrr en eftir áfrýjun til hæstaréttar. Í janúar staðfesti hæstiréttur fyrri sýknunardóm en hún fékk ekki að fara úr landi fyrr en í maí 2019.
Friðsamleg mótmæli
Gulalai Ismail, baráttukona fyrir mannréttindum, sem berst gegn ofbeldi gegn konum og þvinguðum mannshvörfum var ákærð fyrir uppreisnaráróður, hryðjuverk og meiðyrði í maí 2019. Eftir að hún flúði svo til Bandaríkjanna í ágúst var fjölskyldu hennar í Pakistan hótað af lögregluyfirvöldum. Gulalai og foreldrar hennar voru ákærð í júlí sama ár fyrir hryðjuverk. Þremur mánuðum síðar var faðir hennar handtekinn og ákærður fyrir hatursorðræðu og nethryðjuverk.
Árið 2019 bauð friðsama hreyfingin Pashtun Tahafuz Movement (PTM) stjórnvöldum birginn þegar hún mótmælti þvinguðum mannshvörfum og aftökum án dóms og laga. Stjórnvöld brugðust við með harkalegum aðgerðum, með handtökum, eftirliti, lögsóknum og hótunum um ofbeldi gegn stuðningsfólki hreyfingarinnar.
Blaðamaðurinn Gohar Wazir var handtekinn í maí 2019 fyrir að taka viðtal við alþingismanninn Mohsin Dawar sem er stuðningsmaður hreyfingarinnar.
Í janúar 2019 var aðgerðasinninn Alamzaib Khan handtekinn og ákærður fyrir „óeirðir“ og fyrir að „etja til haturs“ fyrir friðsamlega þátttöku í mótmælum.
Í febrúar 2019 var aðgerðasinninn Arman Luni barinn til dauða af lögreglumönnum eftir að hafa tekið þátt í friðsamlegum mótmælum.
Í nóvember 2019 var skráð lögreglumál gegn 17 nemendum af minnihlutahópnum Sindhi sem sakaðir voru um uppreisnaráróður fyrir friðsamleg mótmæli gegn vatnsskorti í borginni Jamshoro.
Fjölmiðlafrelsi
Fjölmiðlafrelsi er verulega skert í Pakistan og árið 2019 greindi fjölmiðlafólk frá enn frekari ritskoðun, þvingunum og áreitni frá yfirvöldum. Það stendur frammi fyrir ákærum um „nethryðjuverk“, dreifingu „falsfrétta“ og hatursorðræðu, aðallega á samfélagsmiðlum.
Blaðamaðurinn Shahzeb Jiliani var ákærður fyrir „nethryðjuverk“ og hatursáróður fyrir athugasemdir á samfélagsmiðlum í apríl 2019.
Shafique Ahmed var ákærður í apríl 2019 fyrir meiðyrði, “dreifingu falskra og meiðandi upplýsinga” og “ærumeiðandi færslur gegn opinberum stofnunum í Pakistan”.
Í febrúar 2019 hófu yfirvöld rannsókn á vinnu blaðafólks og stjórnmálamanna í kjölfar friðsamlegra mótmæla þeirra á samfélagsmiðlum. Mótmælin fólu í sér að breyta forsíðumynd af sér á samfélagsmiðlum yfir í mynd af blaðamanninum Jamal Khashoggi frá Sádi-Arabíu sem var myrtur fyrir tilstilli yfirvalda frá heimalandi hans. Það var gert til að mótmæla heimsókn krónsprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, til Pakistan.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu