Stjórnvöld í Víetnam hafa síðastliðin ár hert enn frekar á aðgerðum gegn tjáningar-og fundafrelsi og friðsamlegum mótmælum. Fjölmargir einstaklingar hafa verið handteknir undir ákvæðum nýrra hegningarlaga sem tóku gildi árið 2018 þar sem stjórnvöld geta nýtt sér víðtæk og óljós ákvæði laganna til þess að handtaka og ákæra mannréttindasinna, aðgerðasinna og aðra sem taldir eru gagnrýna stjórnvöld.
Stjórnarskrá Víetnam og alþjóðamannréttindalög kveða skýrt á um að standa skuli vörð um tjáningarfrelsið sem tryggir réttinn til að dreifa og taka við upplýsingum og hugmyndum. Hinsvegar handtóku og/eða lögsóttu stjórnvöld a.m.k. 23 einstaklinga árið 2019 fyrir það að nýta sér frelsi til tjáningar.
Tjáningarfrelsi á netinu og Kórónuveirufaraldurinn
Síðastliðin ár hafa stjórnvöld í Víetnam unnið að því að skerða tjáningarfrelsi á netinu og hafa ákært fjöldann allan af einstaklingum sem hafa gagnrýnt stjórnvöld á friðsamlegan hátt.
Í janúar 2019 tóku gildi ný lög um netöryggi. Óljós og víðtæk ákvæði laganna veita yfirvöldum óhóflegt og handahófskennt vald til að bæla niður skoðanir. Samkvæmt nýju lögunum geta stjórnvöld krafist þess að tæknifyrirtæki gefi upp persónuupplýsingar og ritskoði færslur notenda.
Allt frá janúar 2020 hafa stjórnvöld herjað enn frekar á tjáningarfrelsið á samfélagsmiðlum.
Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020 voru 654 einstaklingar kallaðir á lögreglustöðvar í landinu til að taka þátt í „vinnuhópum“ með lögreglunni vegna færslna á Facebook sem tengjast kórónuveirunni.
Þar af hafa 146 manns þurft að borga sektir en hinir voru neyddir til þess að taka niður færslurnar.
Dinh Vinh Son, 27 ára, var ákærður fyrir það að dreifa „fölskum fréttum“ um kórónuveirufaraldurinn í apríl 2020. Hann var ákærður fyrir „ólöglega beitingu upplýsinga á netkerfi eða fjarskiptaneti“ og á yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi.
Ma Phung Ngoc Tu var einnig ákærður í sama mánuði fyrir að „brjóta gegn lýðræðislegu frelsi“ með því að setja inn og deila 14 færslum um kórónuveirufaraldurinn og hallmæla stjórnarháttum landsins. Hann á yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi. Hann bíður réttarhalda í varðhaldi.
Dinh Thi Thu Thuy, 38 ára, var einnig handtekin í apríl 2020 fyrir „áróður gegn ríkinu“. Ástæðan voru fjölmargar færslur sem hún setti inn eða deildi á Facebook þar sem stjórnvöld voru gagnrýnd. Hún á yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsisvist.
Ný tilskipun frá stjórnvöldum var kynnt þann 15. apríl 2020 þar sem nýjar refsingar liggja við færslum á samfélagsmiðlum sem falla ekki undir strangar og óskýrar kröfur stjórnvalda. Tilskipunin gefur ríkisstjórninni einnig aukið vald til að neyða tæknifyrirtæki til ritskoðunar og eftirlits.
Í kjölfar þrýstings frá stjórnvöldum hóf Facebook að ritskoða færslur sem teljast gagnrýnar á ríkisstjórnina strax í apríl 2020. Talið er að ríkisrekin fjarskiptafyrirtæki hafi sett höft á netþjón Facebook í landinu sem gerði það að verkum að samfélagsmiðillinn var óvirkur um tíma.
Það að Facebook hafi látið undan kröfum stjórnvalda setur hættulegt fordæmi og gefur öðrum ríkjum færi á að fá Facebook til ritskoðunar.
Samviskufangar og fjöldahandtökur
Amnesty International gaf út skýrslu árið 2019 þar sem kom fram að fjöldi samviskufanga í landinu hafi aukist um þriðjung á örskömmum tíma. Árið 2019 voru þeir 128 talsins.
Samviskufangarnir hafa ýmist verið handteknir og ákærðir fyrir aðgerðir eða þátttöku í mótmælum en tíu prósent samviskufanganna voru fangelsaðir fyrir ummæli á samfélagsmiðlum.
Stór mótmæli áttu sér stað í júní 2018 þegar hundruð þúsunda víetnamskra borgara víðsvegar um landið mótmæltu tveimur frumvörpum. Annað snéri að því að setja á stokk sérstaka efnahagslögsögu og hitt var um netöryggislöggjöf. Fjöldahandtökur fóru fram og fleiri hundruð einstaklingar voru handteknir vegna þátttöku í mótmælunum.
Frá því í október 2019 hafa hundruð einstaklinga, bæði viðskiptavinir og starfsfólk, verið áreittir og ógnað af lögreglu vegna tengsla þeirra við Liberal Publishing House, sjálfstætt rekna bókaútgáfu með bækur sem stjórnvöld telja innihalda viðkvæmar upplýsingar. Bókaútgáfan, sem var stofnuð í febrúar 2019, gefur út fræðibækur um stjórnmál, stefnumál stjórnvalda og önnur samfélagsleg málefni.
Margt fólk sem tengist bókaútgáfunni hefur verið fangelsað og pyndað af lögreglu í borginni Ho Chi Minh í Víetnam.
Snemma í maí árið 2020 starfaði Thủy Tuất við að sendast með bækur fyrir útgáfufélagið. Hann var handtekinn, yfirheyrður og pyndaður af lögreglu. Þegar honum var loks sleppt úr haldi með alvarlega áverka fór hann í felur af ótta við að vera handtekinn aftur. Í kjölfarið var 24 ára gömul dóttir Thủy Tuất handtekin og neitar lögreglan að láta hana lausa úr haldi nema Thủy Tuất gefi sig fram.
Lýðræðis- og umhverfisaðgerðasinninn Tran Hoang Phuc, er einn margra samviskufanga í Víetnam. Hann var handtekinn í júní 2017 og dæmdur fyrir að „leiða áróður gegn ríkinu“,fyrir að búa til og deila myndböndum á samfélagsmiðlum sem talin voru gagnrýnin á ríkisstjórn landsins. Hann fékk sex ára fangelsisdóm og fjögur ár í stofufangelsi.
Bùi Hiếu Võ tjáði skoðanir sínar á stjórnmálum og efnahag á Facebook og var handtekinn í mars 2017 fyrir „áróður gegn ríkinu“. Ári síðar var hann dæmdur til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar.
Đào Quang Thực hlaut 13 ára fangelsisdóm og 5 ára stofufangelsi fyrir að „vinna að því að gera byltingu gegn ríkinu“ eftir að hafa vakið athygli á spillingu og umhverfismálum á samfélagsmiðlum.
Dương Thị Lanh notaði Facebook til að tjá stjórnmálaskoðanir sínar. Hún tók þátt í mótmælum gegn frumvarpi um sérstaka efnahagslögsögu. Hún var handtekin í janúar 2019 fyrir að „búa til, geyma, miðla og breiða út áróðursefni með það að markmiði að andmæla stjórnvöldum“. Síðar á árinu var hún dæmd í átta ára fangelsi og tveggja ára stofufangelsi að lokinni afplánun.
Đoàn Khánh Vinh Quang er bloggari sem nýtti sér samfélagsmiðla til þess að tjá friðsamlegar skoðanir sínar. Hann var dæmdur í rúmlega tveggja ára fangelsi fyrir að „misnota lýðræðislegt frelsi til að brjóta gegn hagsmunum ríkisins“.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu