Undanfarin ár hafa stjórnvöld í Frakklandi grafið undan tjáningarfrelsinu, þar á meðal með óljósum lögum um „málsvörn fyrir hryðjuverkum” frá árinu 2014 og fjöldahandtökum. Í kjölfar hrinu hryðjuverkaárása árið 2015 í Frakklandi lýstu stjórnvöld yfir neyðarástandi í landinu. Þá hófst enn frekari aðför gegn tjáningarfrelsinu, auk trúfrelsi múslima, þar sem stjórnvöld hafa misnotað lög til að handtaka og lögsækja fjölda fólks sem tjáir sig í óþökk stjórnvalda. Gríðarlegur fjöldi einstaklinga hefur einnig verið handtekið fyrir það eitt að mótmæla friðsamlega og fjölmiðlafrelsi hefur verið skert til muna.
Óljós hegningarlög
Breytingar á hegningarlögum Frakklands voru samþykktar í nóvember 2014 en samkvæmt þeim er refsivert að halda uppi „málsvörn fyrir hryðjuverkum”.
Refsing sem legið getur við slíkum glæp er fimm ára fangelsisdómur og fjársekt upp á tæplega 11 milljónir íslenskra króna eða sjö ára fangelsisdómur og fjársekt upp á 14 milljónir króna ef glæpurinn er framinn á netinu.
Yfirvöld héldu því fram að breytingarnar væru nauðsynlegar til að styrkja betur framkvæmdavaldið og hegningarlöggjöfina til að brjóta hryðjuverkastarfsemi á bak aftur.
Samkvæmt dómsmálaráðherra Frakklands fóru 298 dómsmál fram á fyrstu tveimur vikunum eftir hryðjuverkaárásina á skrifstofu vikublaðsins Charlie Hebdo í París í janúar 2015 þar sem ákært var fyrir að „að verja hryðjuverk“ en þar af lutu 96 dómsmál að ungmennum. Meðaltal fangelsisdóma var eitt ár.
Enn fleiri dómsmál áttu sér svo stað eftir hryðjuárásina á Bataclan-tónleikastaðinn þann 13. nóvember 2015 í París. Samtals fóru 255 dómsmál fram á grundvelli hegningarlaganna í nóvember 2015 í kjölfar árásarinnar í sama mánuði og hækkaði sú tala upp í 570 þann 10. desember sama ár.
Dómsmál gegn einstaklingum sem eru ákærðir fyrir „að verja hryðjuverk“ ganga mjög hratt fyrir sig en þess er krafist að hinn ákærði komi „tafarlaust fyrir dómara“, stundum á degi handtöku.
Hræsni stjórnvalda
Frönsk stjórnvöld lýstu yfir mikilvægi tjáningarfrelsisins í kjölfar þess að franski kennarinn Samuel Paty var myrtur árið 2020 fyrir að hafa sýnt skopmyndir af Múhameð spámanni í kennslustund. En á sama tíma eru stjórnvöld að takmarka tjáningarfrelsið hjá ákveðnum hópum og herjað sérstaklega á múslima.
Í nóvember 2020 voru fjögur tíu ára börn spurð spjörunum úr tímunum saman af lögreglu vegna gruns um „að verja hryðjuverk“ eftir að börnin drógu í efa þá ákvörðun Samuel Paty að sýna skopmyndirnar í kennslustund. Tjáningarfrelsið nær líka til þeirra einstaklinga sem gagnrýna skopmyndirnar og það eitt og sér gerir þá ekki að „aðskilnaðarsinnum“,„öfgamönnum“ eða „íslamistum“.
Árið 2019 voru tveir menn dæmdir fyrir „lítilsvirðingu“ eftir að þeir brenndu mynd af Macron forseta á friðsamlegum mótmælum. Í nóvember 2020 voru til umræðu á þingi ný lög sem banna myndbirtingu af lögreglu á samfélagsmiðlum.
Þessi umræða á þingi stríðir gegn orðræðu stjórnvalda um að rétturinn til tjáningar feli í sér rétt á að tjá skoðanir sem geti móðgað eða hneykslað, eins og að sýna skopmyndir af Múhameð spámanni.
Umræða franskra stjórnvalda um tjáningarfrelsið er lituð af hræsni. Tjáningarfrelsið er merkingarlaust ef það nær ekki til allra einstaklinga.
Frönsk stjórnvöld veita tjáningarfrelsi og trúfrelsi múslima litla sem enga athygli. Í nafni veraldarhyggju, eða laïcité, mega múslimar ekki bera trúarleg tákn eða klæðast í samræmi við trú sína í skólum og á opinberum vinnustöðum.
Aðgerðir stjórnvalda eftir morðið á Samuel Paty minna á aðgerðir stjórnvalda þegar lýst var yfir neyðarástandi eftir árásirnar í París árið 2015 þar sem herjað var á múslima.
Frönsk stjórnvöld hafa beitt sér fyrir því að loka moskum og starfsemi ýmissa samtaka á grundvelli óljósrar skilgreiningar á „róttækni“.
Innanríkisráðherra Frakklands, Gérald Darmanin, sendi út tilkynningu þann 19. nóvember 2020 þess efnis að starfsemi félagasamtakanna CCIF (e. Collective Against Islamophobia in France), sem berjast gegn mismunun gegn múslimum, yrðu leyst upp.
Núverandi frönsk lög eru vafasöm þar sem þau gera stjórnvöldum kleift að leysa upp samtök á óljósum forsendum og án dómsúrskurðar.
Ungt fólk skotmark stjórnvalda
Á árinu 2015 felldu franskir dómstólar 385 dóma um „málsvörn fyrir hryðjuverk“. Stór hluti þessara mála laut að ungu fólki þar sem þriðjungur var undir lögaldri.
Sem dæmi féll dómur yfir 16 ára dreng og tveimur systrum, 15 og 16 ára, sem voru handtekin í Toulouse.
Í maí 2016 var 25 ára gamall maður sakfelldur fyrir að skrifa „Vive Daesh“ eða „Lifi íslamska ríkið“ á salerni og hlaut skilorðinsbundinn dóm.
Í júní 2016 samþykkti franska þingið löggjöf sem gerði brotlegt að fara „reglulega“ inn á vefsíðu eða vefsíður sem innihalda skilaboð, myndefni eða framsetningu og túlkun sem telst „hvetja til“, eða „upphefja“ hryðjuverkastarfssemi. Hvað telst „reglulegt“ er ekki skýrt í lögunum. Lögin tóku gildi í júlí 2016 jafnvel þó að stjórnlagadómstóll Frakklands hafi skorið úr um það árið 2012 að hegning fyrir slíkar athafnir á netinu væri ónauðsynleg og takmörkunin á tjáningarfrelsinu ekki lögmæt.
Fyrsta sakfellingin í tengslum við umrædda netlöggjöf féll í ágúst 2016 þegar 19 ára gamall strákur hlaut þriggja ára fangelsisdóm fyrir „málsvörn fyrir hryðjuverkum“ og fyrir að heimsækja reglulega vefsíður jíhadista. Samkvæmt upplýsingum franskra stjórnvalda frá nóvember 2016 var 54 vefsíðum lokað þar sem þær voru taldar „málsvarar“ eða „hvetja til“ hryðjuverka.
Reyndin hefur verið sú að fjöldi sakamála í Frakklandi sem fallið hafa undir refsislöggjöf um „málsvörn fyrir hryðjuverkum“ fela ekki í sér beinan ásetning um að hvetja aðra til hryðjuverka eða ummæli sem líkleg eru til að leiða til hryðjuverka. Það sýnir hættuna á löggjöf sem þessari.
Margt af því sem fallið hefur undir hegningarákvæðið að halda uppi „málsvörn fyrir hryðjuverk“ er eingöngu oft aðeins í óþökk stjórnvalda.
Mótmælendur handteknir fyrir engar sakir
Í skýrslu Amnesty International, Arrested for protest: Weaponizing the law to crackdown on peaceful protesters in France sem kom út í september 2020, kemur fram að þúsundir friðsamra mótmælenda í Frakklandi hafa orðið fyrir barðinu á harðneskjulegri herferð stjórnvalda gegn mótmælum í landinu. Stjórnvöld hafa m.a. misnotað lög til að handtaka og lögsækja fólk sem enga glæpi hefur framið. Blaðafólk, álitsgjafar um mannréttindamál og þeir sem veita fyrstu sjúkrahjálp eru meðal þeirra sem hafa sætt skotmarki stjórnvalda fyrir tilstilli óskýrra og illa ígrundaðra laga allt frá árinu 2018 þegar ýmsar mótmælahreyfingar spruttu upp, vítt og breitt um landið. Þá hafa samtökin skráð óhóflega beitingu valds af hálfu lögreglu gegn mótmælendum. Sjá einnig ákall Amnesty International hér:
„Þúsundir hafa verið handteknir, settir í varðhald að geðþótta og sóttir til saka fyrir friðsamar athafnir sem ætti ekki að líta á sem glæp. Við höfum skráð tilfelli þar sem fólk hefur sætt varðhaldsvist fyrir friðsamar aðgerðir eins og að sleppa blöðrum eða að halda á kröfuskilti. Þetta hefur hrollvekjandi áhrif á tjáningar- og fundafrelsi enda sögðu margir okkur að þeir hugsa sig nú tvisvar um áður en þeir taka þátt í mótmælum af ótta við afleiðingarnar,“
segir Marco Perolini, rannsakandi hjá Amnesty International í Evrópu.
Gríðarleg fjölgun mótmæla
Á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg fjölgun á margvíslegum mótmælahreyfingum, víðs vegar um landið, allt frá Gulu vestunum (Gilets Jaunes) yfir í áframhaldandi mótmæli gegn breytingum á kjörum eftirlaunþega og kröfugöngum þar sem kallað er eftir aðgerðum í loftslagsmálum.
Frá nóvember 2018 til júlí 2019 voru 10.852 mótmælendur færðir í varðhald en rúmlega 20% þeirra höfðu ekki verið sóttir til saka vegna skorts á sönnunum. Rúmlega tveir þriðju hluti mótmælendanna var sýknaður en rúmlega 1200 mótmælendur voru sakfelldir fyrir framferði sem ekki ætti að vera saknæmt.
Í desember 2019 hafði 55 ára mannréttindafrömuður, Odile, komið hjólastólnum sínum fyrir framan vatnsdælu í þeim tilgangi að loka vegi fyrir mótmælendur Gulu vestanna í Toulouse en hún var næstum slegin niður af lögreglumanni. Síðar hlaut hún tveggja mánaða dóm fyrir að „ofbeldi gegn lögreglumanni”. Dómari fyrirskipaði jafnframt bann við þátttöku í mótmælum í eitt ár.
Blaðamaðurinn Brice var að mynda mótmæli Gulu vestanna í París í apríl 2019 þegar hann var handtekinn og haldið í varðhaldi í 24 tíma og ákærður fyrir „ofbeldi“, „að hylma andlit sitt“ og „að undirbúa ofbeldisfulla aðgerð“. Hann var að lokum sýknaður af ákærunum.
Á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 voru 14.598 einstaklingar sakfelldir fyrir að sýna „andúð gegn opinberum aðilum“, en meðal hinna sakfelldu voru mótmælendur. Þessi óræði glæpur getur falið í sér athæfi sem þykja „hafa áhrif á reisn eða virðingu opinbers starfsmanns“ og er refsivert með allt að árs fangavist og sekt upp á tæpar 2.4 milljónir króna.
Virgine sem er nemi var handtekin við friðsöm mótmæli í Marseille í júní 2019 fyrir það eitt að ganga með hatt, sólgleraugu og rykgrímu um hálsinn. Hún var sett í varðhald og ákærð fyrir að hylja andlit sitt.
Ákærur fyrir að hylja andlit
Ákærur á hendur fólki sem hylur andlit sitt tengist oft að „vera þátttakandi í hóp sem hefur í hyggju að undirbúa glæpi“. Þessi yfirgripsmikla skilgreining gerir yfirvöldum kleift að handtaka og ákæra fólk fyrir glæpi sem yfirvöld telja að það gæti framið í framtíðinni.
„Þetta er eins og að sekta manneskju fyrir að kaupa sér Ferrari vegna þess að gert er ráð fyrir því að viðkomandi muni fara yfir hraðamörk.”
Aðgerðasinni í samtali við Amnesty International
Kona sem gekk til liðs við hreyfinguna Gulu vestin greindi Amnesty International frá því að hún hafi verið handtekin fyrir að taka þátt í hreyfingu sem hefði í hyggju að undirbúa ofbeldisverknað eftir að hafa blásið blöðrur út á götu á þjóðhátíðardegi Frakklands.
„Það er kaldhæðnislegt að land sem á sér svona langa og tilkomumikla sögu um samstilltar aðgerðir fyrir samfélagslegum breytingum skuli glæpavæða mótmæli með þessum hætti. Þremur árum eftir að Emmanuel Macron setti fram kosningaloforð um að vernda réttinn til friðsamra fundahalda, eru friðsöm mótmæli undir fordæmalausum árásum,“
Marco Perolini
Þá hafa franskir rannsóknarblaðamenn einnig orðið fyrir árásum af hálfu stjórvalda. Þann 14. og 15. maí 2019 var tveimur blaðamönnum hjá Radio France, Geoffrey Livolsi og Mathias Destal, skipað að mæta í fyrirtöku í dómsmáli frönsku leyniþjónustunnar eftir að saksóknari Parísarborgar hóf undirbúningsrannsókn gegn þeim fyrir að birta leynilegar upplýsingar um varnamál Frakklands. Í apríl birtu þeir leynileg skjöl, svokölluðu „Jemen pappírana“, um sölu franskra vopna til Sádí-Arabíu og Sameinuðu arabísku frustadæmanna sem notuð hafa verið gegn almennum borgurum í borgarastríðinu í Jemen. Samkvæmt frönskum lögum eiga einstaklingar sem birta upplýsingar um varnarmál yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi og sekt upp á 100.000 evrur.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu