Skilgreiningin í ákvæði 578 í spænskum hegningarlögum á því að „vegsama“ og „hvetja til“ hryðjuverka er svo víðfeðm að spænskir borgarar eiga á hættu saksókn fyrir lögmæta tjáningu.
Ákvæðið var fyrst kynnt til sögunnar árið 2000 en árið 2015 var skilgreiningin á „vegsömum“ hryðjuverka víkkuð enn frekar út og felur nú í sér „að dreifa“ eða „breiða út á opinberum vettvangi skilaboð eða slagorð“, þeirra sem eru talin falla undir ákvæðið, þeirra á meðal á netinu. Refsing fyrir að „vegsama hryðjuverk“, réttlæta þau eða gera lítið úr fórnarlömbum hryðjuverka getur falið í sér allt frá eins árs til fimm ára fangelsi. Dómara er að auki heimilt að leggja á fjársektir og lýsa má einstakling vanhæfan á opinberum vettvangi sem getur þýtt útilokun frá tilteknum starfsvettvangi, að gegna opinberri stöðu o.s.frv.
Spænsk hegningarlög
Í febrúar 2015 lýstu fjórir sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna yfir miklum áhyggjum af því að breytingarnar sem gerðar voru á hegningarlöggjöfinni á Spáni brytu gegn tjáningar- og fundafrelsi. Blaðafólk, mannréttindafrömuðir, friðsamir mótmælendur, listafólk, stjórnarandstæðingar og aðgerðasinnar hafa verið sérstakur skotspónn stjórnvalda á Spáni.
Dómar sem fallið hafa á Spáni á grundvelli ákvæðis 578 eru mjög margir og ólíkir, allt frá dómum gegn pólitískri háðsádeilu yfir í róttæka laga- og söngtexta.
Frá árinu 2015 til 2017 felldi spænskur landsdómsstóll 85 dóma á grundvelli lagaákvæða 578 í spænskum hegningarlögum um „vegsömum hryðjuverka“.
Af þeim málum sem Amnesty International hefur skoðað hafa ummæli, textar eða tíst ekki falið í sér beina hvatningu til hryðjuverka, haturs eða ofbeldis og dómarnir því ekki í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög.
Í febrúar 2021 var Pablo Hasél, spænskur rappari, dæmdur í níu mánaða fangelsi og sektaður um 30 þúsund evrur fyrir vegsömun hryðjuverka og róg og níð gegn krúnunni og stjórnkerfi landsins. Dómurinn var byggður á 64 tístum og einu rapplagi.
Rapparinn Nyto Rukeli, meðlimur í tónlistarhópnum La Insurgencia, var dæmdur fyrir sömu ákæruliði vegna lagatextans: „Jafnvel neðanjarðar verður ekki þaggað niður í mér, ekki er hægt að fangelsa listina.“ (spænska: „Ni bajo tierra me callarán, no puede encarcelarse el arte”)
Amnesty International kallar eftir því að spænsk stjórnvöld felli niður ákvæði 578 í hegningarlögum. Brot fyrir vegsömun hryðjuverka, róg og níð gegn krúnunni og stjórnkerfi landsins eða fyrir að misbjóða trú eiga ekki heima í hegningarlögum sem þurfa að virða og vernda mannréttindi. Sjá ákall hér.
Sértækar aðgerðir lögreglu
Nokkrir þessara dóma voru runnir undan rifjum sérstakrar starfssemi á vegum lögreglunnar sem kallast „Operation Spider“ eða kóngulóaraðgerðin sem byggir á því að leita að skilaboðum á samfélagsmiðlum sem fallið gætu undir lagalega skilgreiningu á „vegsömum hryðjuverka“.
César Montana Lehman, einnig þekktur sem César Strawberry, aðalsöngvari í rapp-rokk hljómsveit sem nefnist Def con dos, var handtekinn í maí 2015 og settur í varðhald í framhaldi af þessari aðgerð sérsveitar lögreglunnar. César var ákærður fyrir að „vegsama hryðjuverk“ og niðurlægja fórnarlömb hryðjuverka í framhaldi af tísti á Twitter sem hann birti á árunum 2013 og 2014.
„Hversu margir til viðbótar ætla að feta í fótspor Carrero Blanco og flýja?“
Tíst frá César í desember 2013
En með því var César að vísa til Luis Carrero Blanco, forsætisráðherra á tímum Franco, sem var myrtur af ETA hryðjuverkasamtökunum í Madríd árið 1973. Í öðru tísti frá janúar 2014 gerði César grín að því að afhenda Juan Carlos, fyrrum konungi Spánar, sprengju í afmælisgjöf.
Saksóknarar á Spáni héldu því fram að í tístinu hafi César haldið uppi málsvörn fyrir tvo vopnaða hópa þ.e. ETA og GRAPO. Í júlí 2016 sýknaði landsréttur Spánar César af öllum ákærum. Málinu var áfrýjað til hæstaréttar Spánar en í byrjun árs 2017 var hann dæmdur í árs fangelsi fyrir að „upphefja hryðjuverk“ og „gera lítið úr fórnarlömbum hryðjuverkaárása“ á Twitter.
Í febrúar 2020 snéri stjórnlagadómstóll Spánar dómi hæstaréttar við á þeim forsendum að dómurinn bryti gegn tjáningarfrelsi Césars.
Mál einstaklinga
Þann 13. apríl 2016 handtóku átta menn á vegum öryggissveita Spánar Arikaitz Terrón, 31 árs Baska og lögfræðing, er hann var á leið til vinnu. Hann var settur í gæsluvarðhald og ákærður fyrir „vegsömum hryðjuverka“ og fyrir að „niðurlægja fórnarlömb hryðjuverka“ á samfélagsmiðlum. Yfirvöld ákærðu Arkaitz fyrir að birta níu tíst á árunum 2010 til 2016. Til að mynda birtu fjölmiðlar frétt í nóvember 2014 þess efnis að yfirvöld í Madríd hafi ákveðið að reisa Luis Carrero Blanco minnisvarða.
Arkaitz brást við fréttunum með því að tísta eftirfarandi:
„Ég skil ekki af hverju framleiðendur Cava reisa ekki minnisvarða fyrir Carrero. Daginn sem ETA skaut hann í loft upp voru margar flöskur opnaðar.“
Landsréttur Spánar sýknaði Arkaitz þann 21. mars og byggði niðurstöðuna á þeim rökum að skilaboð hans hafi ekki hvatt neinn, hvorki beint eða óbeint, til að fremja hryðjuverk. Saksóknari áfrýjaði niðurstöðunni til hæstaréttar landsins sem staðfesti dóm landsréttar þann 31. janúar 2018.
Arkaitz hélt því fram að raunveruleg markmið stjórnvalda næðu lengra en að sakfella einstaklinga.
Hann sagði eftirfarandi við Amnesty International í október 2017:
„Í mínu tilfelli náðu þeir engu fram og skotmark þeirra er í raun ekki þeir 60 eintaklingar sem þeir sóttu til saka í framhaldi af Kóngulóaraðgerðunum. Þessar aðgerðir og ákærurnar fá mikla athygli fjölmiðla. Markmið stjórnvalda er einfaldlega að fá fólk til að hugsa sig tvisar um áður en það tjáir skoðanir sína á netinu, sérstaklega gagnrýni.”
Í febrúar 2016 voru brúðuleikararnir Alfonso Lázaro de la Fuenta og Raúl García Pérez handteknir í kjölfar sýningar þeirra á hátíð á vegum borgarstjórnar Madrídar. Stór hópur fólks var áhorfandi að leikbrúðusýningu þeirra félaga, þeirra á meðal börn, en ein brúðan bar skilti með slagorði svipuðu því sem ETA hafði stuðst við. Einhverjir úr hópi áhorfenda móðguðust við þetta og hringdu í lögregluna í kjölfarið. Brúðuleikararnir voru ákærðir og færðir í varðhald þann 6. febrúar 2016 fyrir „vegsömum hryðjuverka“ og hvatningu til haturs eða ofbeldis. Fjórum dögum síðar fór saksóknari, sem var ábyrgur fyrir rannsókn málsins, fram á lausn þeirra. Ákærur á hendur Alfonso Lázaro de la Fuenta og Raúl García Pérez fyrir „vegsömum hryðjuverka“ voru felldar niður í september 2016 og í janúar 2017 voru ákærur um „hvatningu til ofbeldis“ einnig felldar niður.
Andrúmsloft ótta
Þessi mál og mörg önnur sambærileg eru til vitnis um vaxandi og hættulegt umburðarleysi gagnvart tjáningarfrelsinu, þeirra á meðal listrænni tjáningu, sérstaklega þeirri sem er talin ögrandi, truflandi eða jafnvel móðgandi.
Það er hins vegar ekki glæpur að hneyksla fólk hvort sem það er með tísti eða söng. Að beita hegningarlögum gegn slíkri tjáningu felur ekki aðeins í sér útskúfun og fordæmingu heldur getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar, eins og fangavist, skráningu á sakaskrá og brottrekstur úr starfi. Umfram þessar refsiaðgerðir þá leiðir misbeiting stjórnvalda á ákvæðum hryðjuverkalaga til sjálfsritskoðunar af ótta við að verða skotmark stjórnvalda.
Refsivæðing tjáningar af mjög víðtækum toga hefur hrollvekjandi áhrif og getur skapað andrúmsloft þar sem einstaklingar óttast að tjá óvinsæl viðhorf eða jafnvel að segja umdeildan brandara á opinberum vettvangi.
Slíkar hömlur og minnkandi svigrúm fyrir opna og frjálsa rökræðu, umræður og gagnrýni, stofnar borgaralegu samfélagi í hættu til lengri tíma og getu þess til að standa vörð um ekki aðeins tjáningarfrelsið heldur einnig önnur grundvallarréttindi.
Í upphafi árs 2017 voru spænsku hegningarlögin útvíkkuð enn meira, sem býður upp á frekari misbeitingu þeirra af hálfu stjórnvalda. Samkvæmt breytingunni úrskurðaði hæstiréttur Spánar að mögulegt væri að fremja brot undir ákvæði 578 jafnvel þó að enginn ásetningur um vegsömum hryðjuverka eða að gera lítið úr fórnarlömbum hryðjuverka lægi að baki. Með því að beita ákvæði 578 með þessum hætti hunsa spænsk stjórnvöld alþjóðleg mannréttindalög og viðmið.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu