Ungverjaland

Í júní 2016 undir­ritaði forseti Ungverja­lands, János Áder yfir­grips­mikla og harð­neskju­lega löggjöf, auk þess sem breyt­ingar voru gerðar á sjötta viðauka stjórn­ar­skrár landsins og löggjöf um löggæslu, herafla og þjóðarör­yggi.

Yfir­lýst markmið þessara aðgerða var að hagræða ferlinu sem felst í því að lýsa yfir neyð­ar­ástandi í landinu. Aðgerðapakki stjórn­valda tók gildi þann 1. júlí 2016. Breyt­ingar sem gerðar voru á sjötta viðauka stjórn­ar­skrár­innar og aðrar aðgerðir stjórn­valda treysta á sérstak­lega loðið og óskýrt hugtak þ.e. „hryðju­verkaógn” sem er ekki skil­greint nánar í lögum. Ef hryðju­verkógn er hins vegar lýst yfir í landinu veitir það fram­kvæmda­valdinu víðtæk völd sem stefnir skyldum Ungverja­lands gagn­vart alþjóð­legum mann­rétt­inda­lögum í hættu og brýtur gegn megin­reglu um lögmæti sem gerir kröfu um að lög séu sett fram á skýran og ótví­ræðan hátt.

Tjáningarfrelsi og kórónuveirufaraldurinn

Ungverska þingið samþykkti ný lög þann 30. mars 2020 sem veita ríkis­stjórn Viktor Orban, forsæt­is­ráð­herra, völd til að stýra landinu með tilskip­unum á meðan neyð­ar­ástand í landinu gildir en því var lýst yfir þann 11. mars. Í nýju lögunum er ekkert ákvæði um eftirlit, hvenær lögin falla úr gildi eða reglu­bundna endur­skoðun á meðan neyð­ar­ástand ríkir. Þingið starfar ekki á meðan neyð­ar­ástandið er í gildi og kosn­ingar verða blásnar af.
Nýju lögin kveða líka á um fimm ára fang­elsis­vist fyrir að birta falskar eða misvís­andi upplýs­ingar, sem koma í veg fyrir „árang­urs­ríka vernd“ almenn­ings eða vekja ótta og kvíða í tengslum við farald­urinn.

Evrópu­ráðið, Evrópu­þingið, Alþjóða­stofnun blaða­fólks og Öryggis- og samvinnu­stofnun Evrópu eru meðal þeirra sem hafa gagn­rýnt nýju lögin.

„Með lögunum getur tíma­bundið neyð­ar­ástand verið stjórn­laust og varað í ótil­greindan tíma sem veitir stjórn Viktor Orbán frjálsar hendur til að skerða mann­rétt­indi að vild. Þetta er ekki leiðin til að takast á við það alvar­lega ástand sem kórónu­veirufar­ald­urinn veldur,“

David Vig, fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í Ungverjalandi.

Tvær meginstoðir

Í fyrsta lagi veita lögin stjórn­völdum ótak­markað umboð án nokk­urra fyrir­vara eða ákvæða sem tryggja að þingið geti haft eftirlit eins og þeim ber skylda til.

Í öðru lagi verða til tvö ný refsi­verð athæfi sem stangast á við alþjóð­lega mann­rétt­indastaðla og -lög. Það að birta falskar eða misvís­andi stað­reyndir sem koma í veg fyrir „árang­urs­ríka vernd“ almenn­ings eða vekur ótta eða kvíða getur falið í sér allt að fimm ára fang­elsis­vist. Truflun á aðgerðum sem tengjast sóttkví eða einangrun getur sömu­leiðis þýtt allt að fimm ára fang­elsis­vist og átta ár ef athæfið leiðir til dauða annars einstak­lings.

Amnesty Internati­onal kallar eftir því í opin­berri yfir­lýs­ingu að ungversk stjórn­völd tryggi mann­rétt­indi í öllum aðgerðum sínum í barátt­unni gegn kórónu­veirufar­aldr­inum og að viðeig­andi eftirlit löggjaf­ar­valds og dómstóla sé haft með þeim aðgerðum sem gripið er til í þessu neyð­ar­ástandi.

Harðneskjuleg löggjöf

Samkvæmt sjötta viðauka stjórn­ar­skrár landsins verður þingið að samþykkja, með tveimur þriðja hluta meiri­hluta­at­kvæða, að vera fylgj­andi því að lýsa yfir „hryðju­verkaógn” í landinu, innan 15 daga frá því að ríkis­stjórn landsins hefur lýst slíku ástandi yfir. Á þessu 15 dögum hefur fram­kvæmda­valdið burði til að innleiða óvenju­legar aðgerðir svo fremi sem fram­kvæmda­valdið upplýsi forsetann og aðrar viðeig­andi nefndir þingsins. Umræddar aðgerðir geta falið í sér eftir­far­andi:

  • Afnám laga og flýti­með­ferð á nýjum lögum til samþykktar.
  • Beit­ingu herafla og skot­vopna til að bæla niður óeirðir.
  • Takmörkun á ferða­frelsi innan Ungverja­lands.
  • Yfir­töku hersins á allri flug­um­ferð.

  • Fryst­ingu eigna og takmörkun á eigna­rétti hjá öðrum ríkjum, einstak­lingum, samtökum og stofn­unum sem talin eru ógn við alþjóð­legan frið eða öryggi ríkisins.
  • Bann eða takmark­anir á viðburðum eða samkomum á opin­berum vett­vangi.
  • Víðtæk umsvif og svigrúm stjórn­valda til að beita hvers kyns aðgerðum (ekki skil­greint nánar) til að stemma stigu við hryðju­verkum. Lögreglu, öðrum löggæslu­að­ilum og hernum er veitt leyfi til að beita vopna­valdi ef og þegar að „hryðju­verkaógn” steðjar að landinu. Öllu því valdi sem beitt er og aðgerðum sem gripið er til á fyrstu 15 dögum frá yfir­lýs­ingu ríkis­stjórn­ar­innar um „hryðju­verkaógn” má fram­lengja ef þingið er samþykkt því.

Neyðarríki

Í grund­vall­ar­at­riðum felur yfir­lýsing um „hryðju­verkaógn” í sér að Ungverja­land komi á lagg­irnar neyð­ar­ríki og grípi til óvenju­legra aðgerða sem brjóta í bága við alþjóð­legar mann­rétt­inda­skyldur landsins, fremur en að lýsa á opin­beran, form­lega hátt yfir neyð­ar­ástandi og fylgja strangt eftir þeim kröfum sem settar eru fram undir alþjóð­legum mann­rétt­inda­lögum um slíkt ástand.

Sjötti viðauki stjórn­ar­skrár­innar veitir víðtækt svigrúm fyrir yfir­grips­miklar takmark­anir á rétt­inum til funda- og félaga­frelsi, frið­helgi einka­lífs og ferða­frelsis.

Í póli­tísku lands­lagi þar sem flótta­fólk og aðrir jaðar­hópar eru ítrekað álitin ógn við þjóðarör­yggi, gætu stjórn­völd handa­hófs­kennt gripið til umræddra aðgerða af póli­tískum ástæðum fremur en örygg­is­ástæðum.

Í kjölfar kosn­inga­sigurs hægri popúl­ista­flokksins Fidesz í apríl 2018, undir forystu forsæt­is­ráð­herrans Viktor Orbán, hafa enn frekari laga­breyt­ingar náð fram að ganga sem veikja mjög sjálf­stæði og óhæði ýmissa stofnana, þeirra á meðal fjöl­miðla, háskóla og grafa undan starfi mann­rétt­inda­sam­taka.

Fram­kvæmda­valdið hefur nánast alfarið tekið yfir af dómsvaldinu, þar sem ríkis­stjórn landsins stýrir dóms­stól­unum. Dómarar eru póli­tískt skip­aðir af þinginu og herferðum gegn tilteknum dómurum hefur verið haldið uppi í ríkis­reknum fjöl­miðlum.

Stopp Soros löggjöf

Þann 12. apríl, aðeins fjórum dögum eftir kosn­ingar, birti viku­blaðið Figyelő, sem er hlið­hollt stjórn­völdum, grein sem bar yfir­skriftina „The Speculator’s People“. Greinin inni­hélt lista með nöfnum 200 einstak­linga sem að sögn unnu fyrir svokölluð Soros- samtök en greinin var í takt við síend­ur­tekna orðræðu sem haldið var á lofti í kosn­inga­her­ferð Fidesz þess efnis að mann­vin­urinn og fjár­fest­irinn George Soros ræki her mála­liða í Ungverjalandi.

Nöfnin sem birt voru í grein­inni tóku til fjöl­margs háskóla­fólks og allra þeirra sem vinna fyrir frjáls félaga­samtök og mann­rétt­inda­samtök í Ungverjalandi, eins og Ungverskai Hels­inki nefndina, Amnesty Internati­onal í Ungverjalandi, Mann­rétt­inda­félag Ungverja­lands, auk annarra frjálsra félaga­sam­taka sem berjast fyrir rétt­indum Róma-fólks og aðlögun farand- og flótta­fólks í landinu.

Árásir gegn frjálsum félagasamtökum

Árásir stjórn­valda gegn frjálsum félaga­sam­tökum og mann­rétt­inda­sam­tökum í landinu, sérstak­lega þeim sem aðstoða farand- og flótta­fólk, náðu hámarki þegar svokölluð Stopp Soros-lög voru kynnt opin­ber­lega þann 29. maí 2018 og samþykkt þremur vikum síðar á alþjóð­legum baráttu­degi fyrir flótta­fólk. Lögin tóku gildi í júlí 2018 en þau gera refsi­vert að aðstoða umsækj­endur um alþjóð­lega vernd og getur allt að eins árs fang­els­is­dómur legið við slíkri aðstoð. Lögin ná yfir vinnu sem felur í sér að aðstoða við upplýs­inga­öflun, skipu­leggja herferðir og skipun sjálf­boða­liða í því augnamiði að styðja við komu og dvöl umsækj­enda um alþjóð­lega vernd.

Lögin krefja einnig frjáls félaga­samtök að greiða 25% skatt af allri erlendri styrk­veit­ingu til „stuðn­ings umsækj­endum um alþjóð­lega vernd“. Fylgi frjáls félag­samtök ekki þessum reglum eiga þau á hættu að sæta óhóf­legum sektum eða jafnvel gjald­þroti og/eða að starfs­semi þeirra er hrein­lega leyst upp. Markmið yfir­valda, leynt og ljóst, er í raun falið í því að þagga niður í öllum þeim sem dirfast að opna munninn og gagn­rýna þau. Þetta hefur skapað andrúms­loft þar sem ótti og tortryggni ríkir.

Ákall frá alþjóðlegum stofnunum

Ungversk stjórn­völd létu undir höfuð leggjast að taka til greina ýmsar athuga­semdir frá fjöl­mörgum alþjóð­legum stofn­unum, þar sem kallað var eftir vernd og virð­ingu fyrir tján­ingar- og félaga­frelsi og lögð áhersla á það lögmæta og mikil­væga hlut­verk sem frjáls félga­samtök gegna í mann­rétt­inda­vernd­inni.

Ungversk stjórn­völd hafa til að mynda unnið mark­visst gegn mann­rétt­ind­a­starfi Amnesty Internati­onal í landinu.

Stjórn­völd hafa kynnt aðgerðir sínar gegn frjálsum félaga­sam­tökum og mann­rétt­indassam­tökum í samhengi við innflytj­enda­stefnu sína og þjóðarör­yggi. Aðgerðir stjórn­valda hafa hins vegar ekkert með þjóðarör­yggi að gera heldur eru skýr tilraun til að gera vinnu þeirra einstak­linga sem aðstoða fólk í neyð að engu og þagga niður í þeim sem reyna að láta rödd þeirra heyrast.

Þann 18. júlí 2018 hóf Evrópu­ráðið máls­með­ferð gegn hegn­ing­ar­lög­unum og veitti ungverskum stjórn­völdum tveggja mánaða frest til að bregðast við form­legri tilkynn­ingu frá ráðinu.

Þann 20. júlí sama ár samþykkti ungverska þingið nýja löggöf sem takmarkar funda­frelsi enn frekar frá því sem var, þannig að ungverskum borg­urum er gert mjög erfitt um vik að mótmæla.

Þá er fjöl­miðla­frelsi nánast ekki við lýði í landinu og mjög er þrengt að frelsi háskóla- og vísinda­fólks.

 

Tengt efni