Í júní 2016 undirritaði forseti Ungverjalands, János Áder yfirgripsmikla og harðneskjulega löggjöf, auk þess sem breytingar voru gerðar á sjötta viðauka stjórnarskrár landsins og löggjöf um löggæslu, herafla og þjóðaröryggi.
Yfirlýst markmið þessara aðgerða var að hagræða ferlinu sem felst í því að lýsa yfir neyðarástandi í landinu. Aðgerðapakki stjórnvalda tók gildi þann 1. júlí 2016. Breytingar sem gerðar voru á sjötta viðauka stjórnarskrárinnar og aðrar aðgerðir stjórnvalda treysta á sérstaklega loðið og óskýrt hugtak þ.e. „hryðjuverkaógn” sem er ekki skilgreint nánar í lögum. Ef hryðjuverkógn er hins vegar lýst yfir í landinu veitir það framkvæmdavaldinu víðtæk völd sem stefnir skyldum Ungverjalands gagnvart alþjóðlegum mannréttindalögum í hættu og brýtur gegn meginreglu um lögmæti sem gerir kröfu um að lög séu sett fram á skýran og ótvíræðan hátt.
Tjáningarfrelsi og kórónuveirufaraldurinn
Ungverska þingið samþykkti ný lög þann 30. mars 2020 sem veita ríkisstjórn Viktor Orban, forsætisráðherra, völd til að stýra landinu með tilskipunum á meðan neyðarástand í landinu gildir en því var lýst yfir þann 11. mars. Í nýju lögunum er ekkert ákvæði um eftirlit, hvenær lögin falla úr gildi eða reglubundna endurskoðun á meðan neyðarástand ríkir. Þingið starfar ekki á meðan neyðarástandið er í gildi og kosningar verða blásnar af.
Nýju lögin kveða líka á um fimm ára fangelsisvist fyrir að birta falskar eða misvísandi upplýsingar, sem koma í veg fyrir „árangursríka vernd“ almennings eða vekja ótta og kvíða í tengslum við faraldurinn.
Evrópuráðið, Evrópuþingið, Alþjóðastofnun blaðafólks og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt nýju lögin.
„Með lögunum getur tímabundið neyðarástand verið stjórnlaust og varað í ótilgreindan tíma sem veitir stjórn Viktor Orbán frjálsar hendur til að skerða mannréttindi að vild. Þetta er ekki leiðin til að takast á við það alvarlega ástand sem kórónuveirufaraldurinn veldur,“
David Vig, framkvæmdastjóri Amnesty International í Ungverjalandi.
Í fyrsta lagi veita lögin stjórnvöldum ótakmarkað umboð án nokkurra fyrirvara eða ákvæða sem tryggja að þingið geti haft eftirlit eins og þeim ber skylda til.
Í öðru lagi verða til tvö ný refsiverð athæfi sem stangast á við alþjóðlega mannréttindastaðla og -lög. Það að birta falskar eða misvísandi staðreyndir sem koma í veg fyrir „árangursríka vernd“ almennings eða vekur ótta eða kvíða getur falið í sér allt að fimm ára fangelsisvist. Truflun á aðgerðum sem tengjast sóttkví eða einangrun getur sömuleiðis þýtt allt að fimm ára fangelsisvist og átta ár ef athæfið leiðir til dauða annars einstaklings.
Amnesty International kallar eftir því í opinberri yfirlýsingu að ungversk stjórnvöld tryggi mannréttindi í öllum aðgerðum sínum í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum og að viðeigandi eftirlit löggjafarvalds og dómstóla sé haft með þeim aðgerðum sem gripið er til í þessu neyðarástandi.
Harðneskjuleg löggjöf
Samkvæmt sjötta viðauka stjórnarskrár landsins verður þingið að samþykkja, með tveimur þriðja hluta meirihlutaatkvæða, að vera fylgjandi því að lýsa yfir „hryðjuverkaógn” í landinu, innan 15 daga frá því að ríkisstjórn landsins hefur lýst slíku ástandi yfir. Á þessu 15 dögum hefur framkvæmdavaldið burði til að innleiða óvenjulegar aðgerðir svo fremi sem framkvæmdavaldið upplýsi forsetann og aðrar viðeigandi nefndir þingsins. Umræddar aðgerðir geta falið í sér eftirfarandi:
Neyðarríki
Í grundvallaratriðum felur yfirlýsing um „hryðjuverkaógn” í sér að Ungverjaland komi á laggirnar neyðarríki og grípi til óvenjulegra aðgerða sem brjóta í bága við alþjóðlegar mannréttindaskyldur landsins, fremur en að lýsa á opinberan, formlega hátt yfir neyðarástandi og fylgja strangt eftir þeim kröfum sem settar eru fram undir alþjóðlegum mannréttindalögum um slíkt ástand.
Sjötti viðauki stjórnarskrárinnar veitir víðtækt svigrúm fyrir yfirgripsmiklar takmarkanir á réttinum til funda- og félagafrelsi, friðhelgi einkalífs og ferðafrelsis.
Í pólitísku landslagi þar sem flóttafólk og aðrir jaðarhópar eru ítrekað álitin ógn við þjóðaröryggi, gætu stjórnvöld handahófskennt gripið til umræddra aðgerða af pólitískum ástæðum fremur en öryggisástæðum.
Í kjölfar kosningasigurs hægri popúlistaflokksins Fidesz í apríl 2018, undir forystu forsætisráðherrans Viktor Orbán, hafa enn frekari lagabreytingar náð fram að ganga sem veikja mjög sjálfstæði og óhæði ýmissa stofnana, þeirra á meðal fjölmiðla, háskóla og grafa undan starfi mannréttindasamtaka.
Framkvæmdavaldið hefur nánast alfarið tekið yfir af dómsvaldinu, þar sem ríkisstjórn landsins stýrir dómsstólunum. Dómarar eru pólitískt skipaðir af þinginu og herferðum gegn tilteknum dómurum hefur verið haldið uppi í ríkisreknum fjölmiðlum.
Stopp Soros löggjöf
Þann 12. apríl, aðeins fjórum dögum eftir kosningar, birti vikublaðið Figyelő, sem er hliðhollt stjórnvöldum, grein sem bar yfirskriftina „The Speculator’s People“. Greinin innihélt lista með nöfnum 200 einstaklinga sem að sögn unnu fyrir svokölluð Soros- samtök en greinin var í takt við síendurtekna orðræðu sem haldið var á lofti í kosningaherferð Fidesz þess efnis að mannvinurinn og fjárfestirinn George Soros ræki her málaliða í Ungverjalandi.
Nöfnin sem birt voru í greininni tóku til fjölmargs háskólafólks og allra þeirra sem vinna fyrir frjáls félagasamtök og mannréttindasamtök í Ungverjalandi, eins og Ungverskai Helsinki nefndina, Amnesty International í Ungverjalandi, Mannréttindafélag Ungverjalands, auk annarra frjálsra félagasamtaka sem berjast fyrir réttindum Róma-fólks og aðlögun farand- og flóttafólks í landinu.
Árásir gegn frjálsum félagasamtökum
Árásir stjórnvalda gegn frjálsum félagasamtökum og mannréttindasamtökum í landinu, sérstaklega þeim sem aðstoða farand- og flóttafólk, náðu hámarki þegar svokölluð Stopp Soros-lög voru kynnt opinberlega þann 29. maí 2018 og samþykkt þremur vikum síðar á alþjóðlegum baráttudegi fyrir flóttafólk. Lögin tóku gildi í júlí 2018 en þau gera refsivert að aðstoða umsækjendur um alþjóðlega vernd og getur allt að eins árs fangelsisdómur legið við slíkri aðstoð. Lögin ná yfir vinnu sem felur í sér að aðstoða við upplýsingaöflun, skipuleggja herferðir og skipun sjálfboðaliða í því augnamiði að styðja við komu og dvöl umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Lögin krefja einnig frjáls félagasamtök að greiða 25% skatt af allri erlendri styrkveitingu til „stuðnings umsækjendum um alþjóðlega vernd“. Fylgi frjáls félagsamtök ekki þessum reglum eiga þau á hættu að sæta óhóflegum sektum eða jafnvel gjaldþroti og/eða að starfssemi þeirra er hreinlega leyst upp. Markmið yfirvalda, leynt og ljóst, er í raun falið í því að þagga niður í öllum þeim sem dirfast að opna munninn og gagnrýna þau. Þetta hefur skapað andrúmsloft þar sem ótti og tortryggni ríkir.
Ákall frá alþjóðlegum stofnunum
Ungversk stjórnvöld létu undir höfuð leggjast að taka til greina ýmsar athugasemdir frá fjölmörgum alþjóðlegum stofnunum, þar sem kallað var eftir vernd og virðingu fyrir tjáningar- og félagafrelsi og lögð áhersla á það lögmæta og mikilvæga hlutverk sem frjáls félgasamtök gegna í mannréttindaverndinni.
Ungversk stjórnvöld hafa til að mynda unnið markvisst gegn mannréttindastarfi Amnesty International í landinu.
Stjórnvöld hafa kynnt aðgerðir sínar gegn frjálsum félagasamtökum og mannréttindassamtökum í samhengi við innflytjendastefnu sína og þjóðaröryggi. Aðgerðir stjórnvalda hafa hins vegar ekkert með þjóðaröryggi að gera heldur eru skýr tilraun til að gera vinnu þeirra einstaklinga sem aðstoða fólk í neyð að engu og þagga niður í þeim sem reyna að láta rödd þeirra heyrast.
Þann 18. júlí 2018 hóf Evrópuráðið málsmeðferð gegn hegningarlögunum og veitti ungverskum stjórnvöldum tveggja mánaða frest til að bregðast við formlegri tilkynningu frá ráðinu.
Þann 20. júlí sama ár samþykkti ungverska þingið nýja löggöf sem takmarkar fundafrelsi enn frekar frá því sem var, þannig að ungverskum borgurum er gert mjög erfitt um vik að mótmæla.
Þá er fjölmiðlafrelsi nánast ekki við lýði í landinu og mjög er þrengt að frelsi háskóla- og vísindafólks.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu