Skerðing á tjáningarfrelsinu í Norður- og Suður-Ameríku birtist helst í harkalegum aðgerðum stjórnvalda gegn mótmælendum, árásum gegn fjölmiðlafólki og mannréttindafrömuðum.
Milljónir einstaklinga fóru út á götur til að mótmæla ofbeldi, ójafnrétti, spillingu og refsileysi víðs vegar í Norður- og Suður-Ameríku á árinu 2019 og milljónir neyddust til að flýja heimaland sitt í leit að öryggi. Víðs vegar kröfðust mótmælendur einnig aukinna kvenréttinda, jafnra réttinda hinsegin fólks, aðgerða í loftslagsmálum, auk þess sem krafist var jafns aðgengis að menntun og heilbrigðisþjónustu.
Fjallað verður um Ameríku í heild sinni en finna má nánari umfjöllun um fimm lönd: Hondúras, Mexíkó, Níkaragva, Síle og Venesúela.
Mótmæli, kúgun og hervæðing
Í mörgum löndum eins og Síle, Kólumbíu, Ekvador, Haítí og Hondúras var mótmælum hrint af stað vegna pólitískra og efnahagslegra aðgerða stjórnvalda sem juku á ójöfnuð í umræddum löndum. Í Bólivíu spruttu fram mótmæli vegna ásakana um kosningasvindl í tengslum við forsetakjör landsins. Í Venesúela voru mótmælin rekin áfram af mikilli mannréttindaneyð í landinu, þar sem mótmælendur kröfðust þess að stjórnmálaleg réttindi yrðu virt, og að aðgengi að réttarkerfinu og efnahagslegum- og félagslegum réttindum yrði tryggt. Í Níkaragva kröfðust mótmælendur þess að bundinn yrði endir á kúgun stjórnvalda, réttlæti tryggt fyrir þolendur mannréttindabrota og að fólk sem sæti í varðhaldi vegna lögmæts, pólitísks andófs, yrði veitt frelsi.
Í stað þess að opna á umræður og veita kröfum mótmælenda um samfélagslegt réttlæti athygli beittu stjórnvöld auknum hernaðaraðgerðum og ofbeldi á mótmælum. Víða lýstu stjórnvöld yfir neyðarástandi sem ógnaði rétti almennings til friðsamra mótmæla og tjáningarfrelsis. Þessar aðgerðir stjórnvalda juku enn frekar á óánægju og vonbrigði almennings sem leiddi til þess að enn fleira fólk, að minnsta kosti 210 einstaklingar, létu lífið í kjölfar ofbeldis af hálfu yfirvalda í tengslum við mótmælaaðgerðir almennings. Konur og ungt fólk sem býr við þröngar efnahagslegar aðstæður voru víða í fararbroddi mótmælanna.
Refsileysi vegna mannréttindabrota var mjög algengt á svæðinu, bæði vegna eldri brota og nýrri.
Pólitísk skautun (e. polarization)
Pólitísk skautun jókst á svæðinu og endurspeglaði mikil vonbrigði almennings með stjórnvöld og stjórmálalegar elítur, þvert á pólitískar línur. Almenningur mótmælti vítt og breitt um landsvæðið þar sem fólk upplifði að kjörnir fulltrúar væru í auknum mæli afskiptir þörfum og kröfum þeirra, bæði vegna spillingar og af því að almenningur gæti ekki tekið þátt í mikilvægum ákvörðunum sem leiddi oft til þess að þær stefnur sem stjórnvöld móta væru óhagstæðar þeim sem búa við fátækt eða eru efnaminni, konum og stúlkum, frumbyggjum og ungu fólki.
Kynnt var undir enn frekari óánægju á svæðinu vegna þess að almenningur í Rómönsku Ameríku og Kyrrahafslöndunum hélt áfram að búa við mestan ójöfnuð í heiminum, samkvæmt mati Sameinuðu þjóðanna.
Fátækt jókst til muna á árinu 2019 eða um 31% og hagvöxtur var nánast enginn.
Aðgengi að efnahagslegum og félagslegum réttindum eins og menntun, heilbrigðisþjónustu og húsnæði var mjög ójafnt.
Árásir gegn fjölmiðlafólki og mannréttindafrömuðum
Refsileysi vegna mannréttindabrota ríkti alls staðar á svæðinu.
Ameríka trónir enn efst á lista yfir hættulegustu landssvæði heims fyrir fjölmiðlafólk og mannréttindafrömuði. Árið 2019 voru 208 einstaklingar myrtir vegna mannréttindastarfa sinna og fjölmargir aðrir sættu áreitni, lagalegum refsingum og þvinguðum mannshvörfum. Í sumum löndum sætti fjölmiðlafólk áreitni, varðhaldi að geðþótta og aftökum án dóms og laga. Í Mexíkó voru til að mynda tíu blaðamenn myrtir árið 2019 vegna starfa sinna.
Baráttufólk fyrir mannréttindum og leiðtogar frumbyggja sem börðust fyrir réttinum til aðgengis að landsvæðum og umhverfisvernd voru í mestri hættu á að sæta ofbeldi og áreitni. Samkvæmt skýrslu samtakanna Front Line Defenders var flest baráttufólk fyrir mannréttindum myrt í Kólumbíu, Hondúras, Mexíkó og Brasilíu.
Þá virtu stjórnvöld víðs vegar á landsvæðinu ekki rétt frumbyggja til að veita frjálst og upplýst samþykki vegna nýtingar á landsvæði þeirra undir jarðefnavinnslu.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu