Samfélagið sem bakhjarl flóttafólks

Næsta verk­efni á vegum Íslands­deild­ar­innar er að þrýsta á íslensk stjórn­völd að taka upp hin svokölluðu „kanadísku leið“ í verndun flótta­fólks eða að samfé­lagið gerist bakhjarl flótta­fólks (Comm­unity Sponsorship) sem gefist hefur vel sérstak­lega þegar kemur að aðlögun flótta­fólks í nýjum heim­kynnum.

Þessi leið hefur einnig verið kynnt til sögunnar í öðrum löndum eins og Nýja-Sjálandi, Bretlandi, Aust­ur­ríki, Þýskalandi og Argentínu. Þá eru önnur lönd einnig að skoða þessa leið eins og Sviss og Írland. Kanada var hins vegar fyrst ríkja til að kynna til sögunnar þessa leið til verndar flótta­fólki árið 1979 þegar fjöldi fólks flosnaði frá heim­ilum sínum í kjölfar Víet­nam­stríðsins. Síðan þá hafa rúmlega 300 þúsund flótta­menn komið til landsins fyrir tilstilli þess­arar leiðar. Á árunum 2015-2017 komu til landsins yfir 40.000 sýrlenskir flótta­menn en þar af komu 14.274 í gegnum þessa leið.

 

Hvernig virkar ferlið?

Samfé­lagið sem bakhjarl flótta­fólks (e. Comm­unity Sponsorship) er ferli þar sem einstak­lingar úr hópi almennra borgara, hópar eða samfélög bjóðast til að gerast fjár­hags­legir bakhjarlar og stuðn­ings­að­ilar flótta­fólks í eigin landi yfir tilgreint tímabil, yfir­leitt í eitt til tvö ár í senn.

Flótta­fólkið hefur flest verið skrá­sett í flótta­manna­búðum Sameinuðu þjóð­anna og fengið viður­kennda stöðu sem slíkt en getur ekki nýtt sér vernd í því landi sem það er statt í hverju sinni. Í stað þess að ríkið haldi alfarið utan um endur­bú­setu flótta­fólksins í eigin landi koma sjálf­boða­liðar, einka­að­ilar eða samtök, að endur­bú­setu­ferlinu með því að leggja fram fjár­hags­að­stoð og annars konar aðstoð við að auðvelda móttöku og aðlögun flótta­fólksins að samfé­laginu.

 

Þannig myndu bakhjarlar safna tiltek­inni fjár­hags­upphæð fyrir t.d. kvóta­flótta­fjöl­skyldu, sjá um að finna fjöl­skyld­unni húsnæði, hjálpa til við að finna húsgögn og koma sér fyrir, fóta sig um í kerfinu, leita sér að atvinnu, finna nauð­synleg námskeið t.d. tungu­mála­nám­skeið, skrá sig í þau kerfi á vegum ríkisins sem þarf til að geta sótt nauð­synleg og sjálf­sögð rétt­indi eins og t.d nám og heil­brigð­is­þjón­ustu og almennt að aðstoða flótta­fólkið eftir þörfum. Stuðn­ings­að­ilar aðstoða flótta­fólkið frá upphafi, taka á móti því á flug­vell­inum.

Í Kanada þarf t.d. að safna 20.000 banda­ríkja­dala til að styðja við bakið á 4 manna flótta­manna­fjöl­skyldu. Fyrir­tæki taka þátt í þess­arri leið, kirkju­heildir og söfn­uðir, frjáls félaga­samtök, íþrótta­félög, háskóla­sam­félög og einstak­lingar sem eru tilbúnir að fjár­festa tíma sinn og fjár­muni til að aðstoða flótta­fólk til að aðlagast betur og fyrr samfé­laginu.

Áætlanir um stuðning einka­aðila eða samtaka eru mismun­andi eftir löndum og geta tekið til flótta­fólks sem sjálf­boða­lið­arnir hafa þegar kynnst eða flótta­fólks sem stjórn­völd úthluta viðkom­andi einka­aðila eða samtökum í gegnum Flótta­mannstofnun Sameinuðu þjóð­anna. Samfé­lagið sem bakhjarl flótta­fólks leysir þó aldrei ábyrgð stjórn­valda af hólmi.

Tengt efni

Í kvöld hlýddi ég á erindi sómalskrar stúlku sem flúði heimaland sitt eftir að hafa verið gefin til hjónabands 11 ára. Eftir áralanga leit að öruggu skjóli fann hún loks ró á Íslandi. Maður er meyr eftir kvöldið #Velkomin

@Maggiperan