Næsta verkefni á vegum Íslandsdeildarinnar er að þrýsta á íslensk stjórnvöld að taka upp hin svokölluðu „kanadísku leið“ í verndun flóttafólks eða að samfélagið gerist bakhjarl flóttafólks (Community Sponsorship) sem gefist hefur vel sérstaklega þegar kemur að aðlögun flóttafólks í nýjum heimkynnum.
Þessi leið hefur einnig verið kynnt til sögunnar í öðrum löndum eins og Nýja-Sjálandi, Bretlandi, Austurríki, Þýskalandi og Argentínu. Þá eru önnur lönd einnig að skoða þessa leið eins og Sviss og Írland. Kanada var hins vegar fyrst ríkja til að kynna til sögunnar þessa leið til verndar flóttafólki árið 1979 þegar fjöldi fólks flosnaði frá heimilum sínum í kjölfar Víetnamstríðsins. Síðan þá hafa rúmlega 300 þúsund flóttamenn komið til landsins fyrir tilstilli þessarar leiðar. Á árunum 2015-2017 komu til landsins yfir 40.000 sýrlenskir flóttamenn en þar af komu 14.274 í gegnum þessa leið.
Samfélagið sem bakhjarl flóttafólks (e. Community Sponsorship) er ferli þar sem einstaklingar úr hópi almennra borgara, hópar eða samfélög bjóðast til að gerast fjárhagslegir bakhjarlar og stuðningsaðilar flóttafólks í eigin landi yfir tilgreint tímabil, yfirleitt í eitt til tvö ár í senn.
Flóttafólkið hefur flest verið skrásett í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna og fengið viðurkennda stöðu sem slíkt en getur ekki nýtt sér vernd í því landi sem það er statt í hverju sinni. Í stað þess að ríkið haldi alfarið utan um endurbúsetu flóttafólksins í eigin landi koma sjálfboðaliðar, einkaaðilar eða samtök, að endurbúsetuferlinu með því að leggja fram fjárhagsaðstoð og annars konar aðstoð við að auðvelda móttöku og aðlögun flóttafólksins að samfélaginu.
Þannig myndu bakhjarlar safna tiltekinni fjárhagsupphæð fyrir t.d. kvótaflóttafjölskyldu, sjá um að finna fjölskyldunni húsnæði, hjálpa til við að finna húsgögn og koma sér fyrir, fóta sig um í kerfinu, leita sér að atvinnu, finna nauðsynleg námskeið t.d. tungumálanámskeið, skrá sig í þau kerfi á vegum ríkisins sem þarf til að geta sótt nauðsynleg og sjálfsögð réttindi eins og t.d nám og heilbrigðisþjónustu og almennt að aðstoða flóttafólkið eftir þörfum. Stuðningsaðilar aðstoða flóttafólkið frá upphafi, taka á móti því á flugvellinum.
Í Kanada þarf t.d. að safna 20.000 bandaríkjadala til að styðja við bakið á 4 manna flóttamannafjölskyldu. Fyrirtæki taka þátt í þessarri leið, kirkjuheildir og söfnuðir, frjáls félagasamtök, íþróttafélög, háskólasamfélög og einstaklingar sem eru tilbúnir að fjárfesta tíma sinn og fjármuni til að aðstoða flóttafólk til að aðlagast betur og fyrr samfélaginu.
Áætlanir um stuðning einkaaðila eða samtaka eru mismunandi eftir löndum og geta tekið til flóttafólks sem sjálfboðaliðarnir hafa þegar kynnst eða flóttafólks sem stjórnvöld úthluta viðkomandi einkaaðila eða samtökum í gegnum Flóttamannstofnun Sameinuðu þjóðanna. Samfélagið sem bakhjarl flóttafólks leysir þó aldrei ábyrgð stjórnvalda af hólmi.
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Fyrir ungt fólk sem vill hafa áhrif minnum við á ungliðahreyfingu Amnesty International en hópar eru starfandi um land allt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.