Danmörk

Ekki senda flóttafólk aftur til Sýrlands

Danmörk leggur hundruð flótta­fólks í hættu með því að senda það aftur til Sýrlands. Dönsk yfir­völd stað­hæfa að höfuð­borgin Damaskus og nágrenni hennar séu örugg svæði í Sýrlandi. Þrátt fyrir að loft­árásir og átök séu hætt á sumum svæðum, vofir enn hætta yfir þar sem sann­anir eru fyrir því að pynd­ingar, þvinguð manns­hvörf og varð­haldsvist eigi sér enn stað í landinu. Dönskum yfir­völdum er skylt að vernda sýrlenskt flótta­fólk og verða að hætta við endur­send­ingar flótta­fólks til Sýrlands.

Danmörk breytti stefnu sinni árið 2019 í málefnum flótta­fólks. Áður var stefnan sú að styðja aðlögun flótta­fólks en nú er mark­miðið að senda burt flótta­fólk með öllum tiltækum ráðum. Yfir­lýst markmið forsæt­is­ráð­herra Danmerkur, Mette Fredriksen er að losna við allt flótta­fólk úr landinu. Dönsk stjórn­völd hafa því á síðast­liðnum tveimur árum hraðað endur­skoðun á land­vist­ar­leyfi 900 einstak­linga frá Sýrlandi.

Þrjátíu og níu sýrlend­ingar hafa þegar verið sviptir land­vist­ar­leyfi og komið fyrir á miðstöð fyrir endur­send­ingar þar sem þeim er meinað að vinna eða sækja sér menntun. Þar bíður fólkið í mikilli óvissu fjarri fjöl­skyldum sínum, samfé­lagi, skólum eða vinna­stöðum, þangað til að mögu­legri brott­vísun kemur. Dönsk stjórn­völd geta ekki sent fólkið til Sýrlands þar sem ekkert stjórn­mála­sam­band er milli land­anna og er líf flótta­fólksins því í algjörri biðstöðu.

Sýrlend­ing­unum er haldið við óvið­un­andi aðstæður með það að mark­miði að þvinga fram samþykki þeirra til að flytja sjálf­viljug til baka. Þetta er ólögmæt þving­un­ar­að­gerð samkvæmt alþjóða­lögum.

Sýrland er langt frá því að vera öruggt land. Borg­arar sem snúa aftur á svæði undir stjórn sýrlenska ríkisins þurfa að fá heimild sem felur meðal annars í séryf­ir­heyrslu af hálfu sýrlensku örygg­is­sveit­ar­innar. Örygg­is­sveit Sýrlands ber ábyrgð á víðtækum og skipu­lögðum mann­rétt­inda­brotum, þar á meðal pynd­ingum, þving­uðum mann­hvörfum og aftökum án dóms og laga.

Sýrlenska flótta­fólkið flúði til Danmerkur til að forðast átök og ofsóknir. Það er ótækt að því sé skipað að snúa aftur í hættuna sem það flúði. Sýrlenska flótta­fólkið þarf á vernd að halda.

Þrýstu á utan­rík­is­ráð­herra Danmerkur, Mathias Tesfaye, um að snúa við ákvörð­unum um endur­send­ingar sýrlensks flótta­fólks og endur­nýja land­vist­ar­leyfi þeirra.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Tæland

Krefjumst réttlætis fyrir friðsama mótmælendur í Tælandi

Stjórnvöld í Tælandi nýta kórónuveirufaraldurinn til að þagga enn frekar niður í ungum friðsömum mótmælendum. Fleiri en 600 ungmenni eiga yfir höfði sér langa fangelsisdóma fyrir það eitt að mótmæla friðsamlega þrátt fyrir að lögreglan hafi beitt óhóflegu valdi við að leysa upp mótmælin.

Bangladess

Aðför stjórnvalda að tjáningarfrelsi á netinu

Yfir þúsund einstaklingar hafa verið handteknir í Bangladess frá árinu 2018 á grundvelli laga um stafrænt öryggi (DSA, Digital Security ACT) fyrir að nýta rétt sinn til tjáningar á netinu. Bregstu við og krefstu þess að forsætisráðherra Bangladess, Sheikh Hasina, felli lögin úr gildi eða endurbæti í samræmi við alþjóðalög þau ákvæði sem eru notuð til að þagga niður í gagnrýnisröddum.

Angóla

Hirðingjasamfélög í hættu

Nú varir einn versti þurrkur síðastliðin 40 ár í suðurhluta Angóla. Afleiðingarnar eru ógnvænlegar þar sem heilsa og mataröryggi hirðingjasamfélaga á svæðinu eru í verulegri hættu. Vannæring hefur aukist til muna og aðgangur að vatni og hreinlætisaðstöðu er ótryggður.

Alþjóðlegt

Ríki hætti ólögmætri notkun á njósnabúnaði

Í löndum víðsvegar um heiminn reiða yfirvöld sig sífellt meira á stafrænt eftirlit í þeim tilgangi að áreita eða handtaka einstaklinga sem tjá sig til varnar mannréttindum eða afhjúpa viðkvæmar upplýsingar. Aukning er á stafrænum árásum gegn mannréttindasinnum, fjölmiðlafólki og almennum borgurum. Njósnum, hótunum og þöggun er beitt með því að brjótast inn í stafræn tæki einstaklinga. Þessari aðför verður að linna. Með undirskrift þinni þrýstir þú á stjórnvöldá heimsvísu að bregðast við kröfum um að vernda mannréttindasinna um heim allan.