Mehran Raoof, bresk-íranskur baráttumaður fyrir réttindum verkafólks, var handtekinn í Íran þann 16. október 2020. Hann hefur verið í einangrun síðan þá. Einangrunarvist sem stendur yfir í 22 tíma eða lengur á sólarhring og umfram 15 daga er brot á banni gegn pyndingum og annarri illri meðferð. Mehran Raoof hefur hvorki fengið að hringja í nánustu fjölskyldu sína, sem býr utan Íran, né fengið aðgang að lögfræðingi.
Mehran Raoof er með tvöfaldan ríkisborgararétt og býr bæði í Íran og á Bretlandi. Hann var handtekinn um sama leyti og annað baráttufólk fyrir réttindum verkafólks í Íran. Einn einstaklingur úr þeim hópi hefur nú þegar verið dæmdur í 16 ára fangelsi. Óttast er að fleiri úr hópnum hljóti langa dóma.
Mehran Raoof er einn af mörgum einstaklingum með tvöfaldan ríkisborgararétt sem hafa verið handteknir í Íran. Sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna hefur greint frá því að fólk með tvöfaldan ríkisborgararétt hafi verið handtekið að geðþótta af írönskum yfirvöldum, sætt ósanngjörnum réttarhöldum og dæmt út frá fölskum eða engum sönnunargögnum í þeim tilgangi að nota það sem bitbein í milliríkjasamskiptum.
Mehran Raoof var eingungis handtekinn vegna baráttu sinnar fyrir réttindum verkafólks og stuðnings við verkalýðsfélög.
Krefstu þess að Mehran Raoff verði skilyrðislaust leystur úr haldi án tafar.
Sjá nánar um tjáningar-, funda og félagafrelsið í Íran hér.