Síerra Leóne

Þungaðar stúlkur fái aðgang að menntun

Í apríl 2015 fyrir­skipuðu stjórn­völd í Síerra Leóne að þung­aðar stúlkur mættu hvorki ganga í skóla né taka próf. Þetta voru viðbrögð stjórn­valda við gífur­legri fjölgun þungana unglings­stúlkna sem var ein hræði­leg­asta afleiðing ebólu-farald­ursins sem herjaði á Afríku árin 2014-2015.

Góð frétt: Banninu var aflétt í lok mars 2020.

Tilkynnt var um tíu þúsund tilfelli þungana unglings­stúlkna þegar ebólu-farald­urinn reið yfir. Flestar voru afleiðing nauðgana. Í mörgum tilfellum var um að ræða stúlkur sem voru þving­aðar til samræðis við menn í skiptum fyrir mat eða vernd þar sem margar voru í viðkvæmri stöðu eftir foreldram­issi vegna ebólu-veirunnar.

Frá því að skóla­bannið gegn þung­uðum stúlkum var sett á hefur Amnesty Internati­onal barist fyrir aflétt­ingu þess þar sem um ræðir grófa mismunun og mann­rétt­inda­brot. Ekki er einungis brotið á rétt­inum til mennt­unar heldur einnig til frið­helgis einka­lífs og virð­ingar.

Lesa má skýrslu Amnesty frá 2015 um málið hér

Þann 12. desember 2019 komst dómstóll Efna­hags­sam­bands Vestur-Afríku (ECOWAS) að þeirri niður­stöðu að bann stjórn­valda í Síerra Leóne gegn því að þung­aðar stúlkur fengju aðgang að menntun í almennum skólum og að taka próf væri mann­rétt­inda­brot og mismunun. Dómstóllinn lýsti því yfir að aflétta þyrfti banninu án tafar þar sem það brjóti í bága við lög í Síerra Leóne, alþjóðalög og samþykktir, þar á meðal Barna­sátt­mála Sameinuðu þjóð­anna.

Dómstóllinn nefndi einnig að það væri á ábyrgð ríkisins að tryggja að bæði kynin hefðu jöfn tæki­færi til mennt­unar án aðgrein­ingar. Aðgreining þung­aðra stúlkna í mennta­kerfinu útskúfi þeim og gæti litið út sem refsing fyrir þungun.

Skrifaðu undir málið núna!  Krefstu þess að úrskurður dómstóls Efna­hags­sam­bands Vestur-Afríku verði virtur án tafar og að þung­aðar stúlkur í Síerra Leóne fái óskertan aðgang að menntun strax!

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Nígería

Nígería: Aðgerðasinnar í haldi 

Aðgerðasinnarnir Larry Emmanuel og Victor Anene Udoka mótmæltu spillingu og bágri stöðu mannréttinda í Nígeríu þann 5. apríl síðastliðinn og hafa verið í ólögmætu varðhaldi síðan. Þeir eru í haldi fyrir það eitt að nýta tjáningarfrelsi sitt og rétt sinn til að mótmæla með friðsömum hætti. Skrifaðu undir og krefstu þess að Larry Emmanuel og Victor Anene Udoka verði tafarlaust látnir lausir án skilyrða.

Rússland

Rússland: Frelsið Aleksei Navalny

Heilsu Aleksei Navalny fer hrakandi með hverjum degi á meðan hann er í fangelsi. Navalny hefur greint frá því að honum sé meinuð læknisaðstoð og meinaður svefn þar sem fangaverðir vekja hann á klukkutíma fresti á hverri nóttu. Rússlandi ber skylda til að virða og vernda rétt fanga til lífs og heilsu og vernda þá gegn pyndingum og annarri illri meðferð. Þrýstu á Vladimir Putin forseta Rússlands að leysa Aleksei Navalny tafarlaust úr haldi og tryggja að hann fái trausta læknisaðstoð á meðan hann er í fangelsi.

Alþjóðlegt

Amazon: Leyfið starfsfólki að ganga í stéttarfélag 

Í kórónuveirufaraldrinum hefur hagnaður netsölurisans Amazon aukist gríðarlega og forstjórinn Jeff Bezos telst nú með ríkustu mönnum heims. Á sama tíma er heilsu starfsfólks fyrirtækisins ógnað vegna óöruggra vinnuskilyrða á tímum faraldursins. Til að koma í veg fyrir að starfsfólki nýti rétt sinn til að mynda eða ganga í stéttarfélag hefur starfsfólk verið rekið eða ávítt í kjölfar kvartana út af skertum vinnuskilyrðum. Sýndu starfsfólki Amazon stuðning með undirskrift þinni.  

Bangladess

Bangladess: Gefum Róhingjum rödd

Kórónuveirufaraldurinn hefur gert aðstæður Róhingja í flóttamannabúðum Cox Bazar í Bangladess enn þungbærari. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er skert vegna tungumálaörðugleika, illrar meðferðar frá heilbrigðisstarfsfólki og ófullnægjandi aðgengi upplýsinga um þá heilbrigðisþjónustu sem stendur til boða. Þrýstu á stjórnvöld í Bangladess og alþjóðasamfélagið að tryggja þátttöku Róhingja flóttafólks í ákvarðanatöku sem snýr að þeirra eigin lífi til að tryggt sé að mannréttindi þeirra séu vernduð.

Hondúras

Hondúras: Réttlætis krafist í morðmáli Bertu Cáceres

Berta Cáceres var myrt að nóttu til þann 2. mars 2016 á heimili sínu í Intibucá í Hondúras. Berta Cáceres var hugrökk baráttukona fyrir mannréttindum sem hætti lífi sínu til að verja rétt Lenca-fólksins, heimahaga sinna og náttúruauðlindanna sem þar finnast. Fyrir fjölskyldu Bertu verður réttlætinu ekki fullnægt fyrr en allir sem viðriðnir voru morðið hafa verið sóttir til saka og sannleikurinn leiddur í ljós.

Kína

Kína: Leyfið fjölskyldusameiningu Úígúra

Aðför Kína gegn minnihlutahóp Úígúra í Xinjiang-héraði hefur leitt til þess að foreldrar hafa orðið viðskila við börn sín. Með þinni undirskrift getum við komið í veg fyrir aðskilnað barna frá foreldrum sínum. Saga þessarar fjölskyldu er ekki einstök. Foreldrar sem eru í minnihlutahóp Úígúra og búsettir erlendis þurftu mörg hver að skilja eitt eða fleiri börn eftir í umsjá ættingja í Xinjiang. Sumir þessara foreldra hafa svo komist að því að börnin hafa verið flutt nauðug á ríkisrekin munaðarleysingjahæli eða heimavistarskóla í kjölfarið af handtöku ættingjanna. Krefstu þess að kínversk stjórnvöld leyfi Úígúrum búsettum erlendis að fá börnin til sín.